Fyrst birt 210121 . Uppfært með 5 myndum EF 220322 Ásgeir
Í gegn um árin, hefur margsinnis gerst að nokkrar flugvélar eru samtímis í Fljóti. Þetta hefur ekki alltaf ratað í fjölmiðla, en það gerðist þó í ágúst árið 1987.
Í það skiptið gerði Vestfirska fréttablaðið frétt um málið, og nú er grúsk ritstjóra búið að fá auga á þessa frétt, og þá er bara sjálfsagt að benda öðrum á þetta. Eins og sést í fréttini, gerðist þetta 21. ágúst 1987
Þessi frétt var sett á baksíðu blaðsins.
Líður nú og bíður, í svona 14 mánuði. Þá dúkkar upp tölvupóstur frá Edda í Tungu. Hann skrifar: Sæll vinur. Rakst á myndir í safninu mínu varðandi þessa frétt, sendi þér til gamans og fróðleiks :-). kkv Eddi.
Lýsing á óhappi TF-EXP í Fljóti í denn.
Ég var nýlentur í Tungu og átti von á TF-EXP fljótlega. Sá hana koma út Fljótið og var í talstöðvar sambandi við Hafliða flugmann til þess að leiðbeina honum. Hann virtist ætla að lenda á Grjótoddanum (falleg flugbraut séð í fjarska), benti honum á grasið við hliðina væri miklu betri kostur.
Veður var frábært, heiðskírt og andvari af hafi. Við lendingu sá ég að hægra hjólastellið brotnaði og kastaðist frá vélinni sem lagðist mjúklega á vængendann og stöðvaðist. Ég hljóp til hans með slökkvitæki og til þess að aðstoða. Hafliði kom út úr vélinni ásamt mágkonu og svila hans og amaði ekkert að þeim. Eftir nokkra stund ferjaði ég fólkið til Ísafjarðar.
Björgunarleiðangrar urðu tveir. Fyrri ferðin var farinn með hjólalegg og mannskap til þess að lyfta vélinni svo hægt væri að koma henni á lappirnar, sbr. myndin af okkur fjórum. Kom þá í ljós að afturvængurinn var brotinn.
Seinni ferðin var svo TF-ELX flugið með vænginn norður.
Þess má geta að við rannsókn á hjólaleggnum komu í ljós djúpir ryðbollar sem veiktu hann það mikið að hann brotnaði við eðliega lendingu.
Eddi sendi 5 litmyndir sem teknar eru yfir og á “Tunguvelli” einhverjum dögum á undan myndninni sem birtist í frétt Vestfirska Fréttablaðsins.
Umræður
Ritstjóri fór óvanalega leið, við gerð þessarar síðu, því síðan var birt eins og hún er hér að ofan, en tengt með Facebook Messenger til nokkurra aðila sem grunaðir voru um að hafa vitneskju og/eða sjónarmið sem væru viðeigandi. Textinn sem ritstjóri sendi með tengingunni, var afar einfaldur….: Er eitthvað meira um þetta að segja? Er þetta Halli þarna í vesti í miðju?
Eftir þetta fóru skrif í gang, og dróg ritstjóri neðanritað út úr þeim.
Hörður Ingólfsson : Það er margt um þetta að segja. T.d er þetta flugvélarasismi og niðurlægjandi fyrirsagnir sem tönglast sífellt á “lítil flugvél” þetta og hitt. Mál til komið að skila skömminni og lækka rostann í fréttamönnum.
Síðan er eitt stórmerkilegt; Gaui bílameiker notaði sama hægra hjólið undir þessa vél og notað var til bráðabirgða á TF-PQL. Sama hjól, sama vík, sami flugvirki, en að öðru leyti ekkert spes.
Hálfdán Ingólfsson : Mér sýnist það vera ég sem spókar sig í vesti þarna…
Ásgeir (ritstjóri) : Það held ég líka, Halli – en eru fleiri “Fljótvíkingar” þarna? Hörður ? Eddi?
Hálfdán Ingólfsson : Ég veðja á að Eddi sé þriðji frá hægri (enda er TF-ELX þarna líka). Höfuðið á honum ber í vængendann á ELX
Edward Finnsson : Jú ég er þriðji frá hægri, við vængenda TF-ELX, Cessna 185.
Ég seldi hlut minn í vélinni um áramótin 2016-2017 og keypti Sportsmann í maí 2017.
Mig minnir að meðal annara véla hafi verið TF-SPY Cessna 172, TF-POL Cessna 172 Skyhawk, Supercub vél, man ekki hverjar hinar voru.
Mennirnir séð frá hægri, Björn Jenson, Hafliði Árnason, Edward Finnsson, ???????, Halli, Guðjón flugvirki, Ágúst Karlsson, ??????. ( Ítrekað – talið frá hægri )
Hafliði flaug TF-EXP til Fljótavíkur og við lendingu í Tungu brotnaði hægri hjólaleggurinn og vélin lagðist á vængendann. Afturvængurinn brotnaði einnig þannig að skipta þurfti um hjólalegginn og afturvæng sem Guðjón flugvirki gerði.
Ásgeir (ritstjóri) : Samkvæmt þessu var laskaða vélin á “Tunguvelli” – en er myndin ekki tekin Atlastaðamegin?
Hörður Ingólfsson : Ætli það nokkuð. Tungu megin ofarlega giska ég á.
Hálfdán Ingólfsson: Þetta er Tungumegin.
Eddi Finns: Á Tunguvelli
Hörður Ingólfsson: Stélið var bundið undir TF ELX og flogið með það útvortis sem er fátítt.
Nú eru þessar 5 myndir komnar til skoðunar og þá er spurning hvort einhver vilji bæta einhverju við…… spennandi.