GÞ: Glúmsstaðir að Bæjarnesi

Gönguleiðin frá Glúmsstöðum að Bæjarnesi

Höfundur: Gunnar Þórðarson

Við hefjum ferðina við Fremri-Hvilftará sem er eyktamark Glúmsstaða en Heimri Hvilftará er eyktarmark Tungu og þar á milli almenningur.  Ofan okkar gnæfir Hvilftarhornið sem er fallega formað fjall, rúnnað með reglulegum hraunlögum frá brekkubrúnum upp á fjallsbrúnir.  Framundan eru tóftir Glúmsstaða og tökum við stefnuna þangað.

Glúmsstaðir voru mesta harðindakot og hundraðstala þess lág.  Mjög snjóþungt var um vetur og fannalág fram eftir sumri.  Kotið var langt frá sjó og ekki um bjargræði að ræða þaðan enda kotið í eyði meira og minna.  Síðast var búið þar í kringum 1920 og þá aðeins í tvö ár.  Sumarbeit var þar kjarnmikil og þótti ásauður gera gott gagn meðan fráfærur voru í lensku en um vetrabeit var ekki að ræða.  Silungsveiði var góð í ám og vatninu, en verður fátt annað til hlunninda talið.

Land Glúmsstaða liggur í boga fyrir botni dalsins frá Hvilftará að Reyðá í norðri.  Lítið er um eiginlegt láglendi og aðeins mjó ræma meðfram suðurenda vatnsins og í mynni Glúmsstaðadals, sem tekur við af Hvilftardölum sem samnefndar ár renna úr.  Hvilftarhornið markar Glúmsstaðardal frá Hvilftardölum en í norðri heldur Glúmsstaðamúli um hann.  Héðan er gönguleiðin um Háuheiði yfir til Hesteyrar.

Á göngu okkar að bæjarhólnum blasir Glúmsstaðafoss við en áin heitir Fossá.  Við vöðum Glúmsstaðaána við bæjarhólinn en þar er gott að á og fá sér nesti.  Sögur fara af því að rani hafi verið byggður frá bænum og niður að ánni til að sækja vatn.  Kom það oft fyrir að silungur veiddist í vatnsbólinu enda silungsgengd með ólíkindum í botni Fljótsins.

Meðan við njótum hvíldar og matarins er vert að láta hugann reika aftur í tímann til jóla fyrir löngu síðan.

Ung stúlka er Guðborg hét var heimasæta að Glúmstöðum í Fljóti.  Hún þótti mjög fögur og var heitbundin Sigurleifi frá Hesteyri.  Veturinn fyrir brúkaup þeirra Sigurleifs og Guðborgar ákváðu Glúmsstaðarhjónin að skreppa til Hesteyrar á Þorláksmessu og fylgjast með fólkinu þaðan til aftansöngs að Stað.  Guðborg varð eftir til að hugsa um skepnurnar og óttaðist ekki einveruna þennan stutta tíma, þó yfir jólin væri.

Að loknum dagstörfum söng Guðborg sálma og fór síðan með bænir áður en hún lagðist til hvílu.  Um miðnættið hrökk hún upp við að kallað er á gluggann.  “Gef mér að drekka”  Sprettur hún upp og sækir fulla könnu af mjólk en er hún kemur á pallskör heyrir hún barið að dyrum.  Þykir henni undarlegt að ekki gat hún heyrt nema tvö högg.  Fer hún samt til dyra þar sem bíður ungur og föngulegur maður og heldur í taumi á gráum söðluðum hesti.  Skiptir það engum togum að maðurinn þrífur um mitti meyjarinnar, sveiflar sér með hana á bak hestinum og setur hana framan við sig.  Ríður hann síða geyst til fjalla og nemur ekki staðar fyrr en komið að hjalla nokkrum sem nú nefnist Tröllkonuhjalli og er Hesteyrarmegin við Tröllaskarð.

Fellur Guðborg í ómegin en rankar við sér og er þá komin í helli einn mikinn og við fótagafl hennar situr stórskorinn tröllskessa.  Þarna var komin Glenna, móðir Króksnefs sem hafði brugðið sér í gervi unga mannsins.  Glenna sagði Guðborgu að hún vildi hana fyrir tengdadóttur og varla gæti hún hugsað sér betra mansefni en Króknef, sem hafði nú breyst í tröll með stórt nef sem var bogið eins og ífæra, og hæfði því nafnið vel.

Ekki verður saga þessi rakin lengra en vitnað til Rökkursagna um framhaldið.  Þó skal sagt frá því að Sigurleifi tókst með vini sínum, sem var álfaprestur, að frelsa heitmey sína og drepa tröllin.  Hinsvegar er rétt að geta þess að í Fremri Hvilftardal er skarð sem heitir Tröllaskarð og er farið um það yfir í Bjarnadal á leið til Látra í Aðalvík.  Þar í skarðinu dagaði Króknefur uppi og heitir skarðið eftir honum.  Skarð þetta er ekki fjölfarið en þó munu menn hafa ferðast um það frá Látrum til að sækja silung í Fljót og kannast Friggi úr Ystabæ við slíkar ferðir.  Halldór Geirmundsson minnist þess að löngu eftir brottflutning úr hreppnum að hafa farið um Tröllaskarð frá Aðalvík yfir að Glúmstöðum til að veiða silung í Reyðá.  Fór hann við fjórða mann og báru þeir hvor um sig um 30 silunga til baka um Bjarnadal heim að Látrum.

Heimilisfólk á Glúmsstöðum kallaði vatnið Glúmsstaðavatn (Atlastaðavatn), og framar er hólmi, Glúmsstaðarhólmi, og heitir skurðurinn Síki sem aðskilur hann frá fljótsbakkanum.  Utar er eyri sem heitir Faxeyri þar sem vex stórgerð flæðistör og síðasumar þegar vindur leikur um þau bylgjast þau líkt og fax á hesti og þannig er nafnið tilkomið.  Flæðistörin að Glúmsstöðum var mikil guðsgjöf í Fljóti, bæði var auðvelt að heyja hana og þurrka, en hún var úrvals fóður fyrir hestana.  Eins var hægt að setja hestana á beit að Glúmsöðum að vetri, þar sem þeir náðu að krafsa snjóinn ofan af stráinu og nýta sér til matar.

Upp af bænum er brekka sem heitir Bæjarbrekka.  Þar ofar er Byrgisbrekka og á henni eru grjóthólar sem heita Byrgi.  Nafnið kemur til af því að skepnur munu hafa notað hólana sem skjól og tekið á sig náðir undir þeim.

Við göngum nú af stað og fljótlega komum við að Fossá sem grafið hefur sig niður í sléttan móinn, sumstaðar eru djúpir hylir, og liðast í rólegheitunum niður í vatnið.   Mikil silungsgengd er í ána, sérstaklega þegar líða tekur á sumarið.

Ágætt er að fara yfir ána ofarlega á flatanum þar sem hún kvíslast og framundan eru Fannalágarfjall og Jökuldalir.  Miklar eyrar verða nú fyrir okkur fram af Tröllafossi, og geta þær verið blauta yfirferðar.  Hér unir Óðinshaninn sér vel,  og er algeng sjón fyrri part sumars, og er ótrúlega spakur og óhræddur við mannfólkið.  Ströndin er hér vogskorinn og þegar inn í botninn kemur taka við sléttar breiður þar sem vaxa (einhver rauð blóm sem blómstra í júní – júlí) og er ótrúlega fallegt á að líta.  Mikið er um Dílaburkna í dalbotninum og eins má tína sér Kúalabba til matar þegar kemur fram í ágúst, en mikið er um hann á þessum slóðum.

Hér gnæfir Fljótskarð yfir með aflíðandi hlíðar niður undir láglendi.  Og nú nálgumst við Reyðár og áður en þangað kemur þurfum við að krækja fyrir Síki.  Reyðár eru eyktarmörk Glúmstaða og Atlastaða og heita eftir silungnum sem þar er í ævintýralegu magni.  Hér voru oft veidd einhver tonn af silungi en seinni árin hefur slíkri rányrkju verið hætt.  Menn frá Náttúrustofu komu hér um aldamótin síðustu til að mæla stofninn og höfðu á orði að aldrei hefðu þeir séð silung í slíku magni.  Síðsumar sést stundum ekki til botns í hyljum árinnar fyrir fiski.

Vatnasvið Reyðár eru Jökuldalir, sem eru þrjú dalverpi sem aldrei leysir fönn á, og ná frá Þorleifsdal að Fljótskarði.  Árnar er einkar fallegar þar sem þær hafa grafið sig niður í móinn, vaxnar loð- og gljávíði meðfram bökkunum og eins er mikið um fjalldrapa.  Á einum stað myndar áin hólma sem heitir Álftarhólmi.  Þvert á Reyðá rennur lækur sem heitir Þverá.  Það er fallegt við Reyðáreyrar, en svo nefnast ósar árinnar, og gleðiríkt í góðu veðri að setjast niður og njóta útsýnisins þegar lygnt er og sólin skín í friðsælum dalbotninum.  Vatnið eins og heiðatjörn og eina sem gárar það eru endalaus uppitök bleikjunnar sem kemur hingað síðsumar til að hrygna í ánni.

En áfram skal haldið áleiðis heim að Atlastöðum og þegar komið er yfir Þorleifslæk sem rennur úr Þorleifsdal komum við að stórum steini sem heitir Reyðársteinn.  Skammt þar frá eru tóftir sem enginn kannast við en hafa sjálfsagt verið sel frá Atlastöðum í fyrndinni en hér var heyjað og var slæjan kölluð Reyðárstykki.  Þar fyrir utan heitir Seljahjallar sem eru tveir stórir hjallar  fyrir ofan svonefnda Urðafætur.

Fátt ber til tíðinda á leiðinni að Hvanná þar til komið er að rústum framan við ána.  Þetta var sel Atlastaðabænda og notað til að geyma í því hey, sem slegið var á Hvannárstykki, og dregið heim á sleðum um veturinn.  Hér verpir álftin í miðjum tóftunum og er rétt að varast hana þegar líður á júlí og ungar hafa skriðið úr eggjum.  Eyrarnar framan við ána heita Hvannáreyrar.  Hvanná rennur úr Hvannadal og þar uppi er Hvannadalsskarð sem þó mun ekki hafa verið notað til ferðalaga.

Næst á leið okkar er Svíná þar sem mógrafir Atlastaðabænda voru.  Svíná rennur úr Svínadal sem afmarkast af Dagmálahorni í austri og Bæjarfjalli í vestri.  Fyrir miðjum dalnum er fjallsgnýpa ein mikil er heitir Tafla og skiptir hún dalnum í tvennt, og heitir það Rangali sem liggur í norðvestur inn í Bæjarfjallið.  Á milli Töflu og Dagmálahorns eru Breiðuskörð og liggur gönguleið þar yfir á Almenninga vestri.

Svínadalsbrekkur eru heiman við Svíná, og renna margir smálækir þar niður sem sameinast ánni á leið í Fljótið.  Áin hvíslast áður en hún rennur í vatnið og heitir það Heimri-Svíneyrar þar sem hún rennur í það nær Atlastöðum en Fremri-Svíneyrar ofar.  Oft eru eyrar þessar nefndar einu nafni Svínáreyrar.  Handan við ána og ofar er urðarholt er heitir Svínholt.  Heyjað var við Svíná og var slægjan kölluð Ingibjartarstykki.  Segir sagan að Ingibjartur (faðir Gumma Ingibjartar) hafi slegið það allt á einum degi og þótti mikið hreystiverk.

Heiman við Svíná, allt að Langanesi heitir Grafabreiður, oft kallað Grafir, og næst ánni undir svokölluðum Háubökkum, var mótekja Atlastaðabænda.  Í farvegi Svínár undir Svínárholti er surtabrandsnáma (N66°26.435 – V22°52.351 )sem nýtt var en mikið hafði gengið á hana og nánast allur nýtanlegur surtabrandur verið tekin.  Sama æð gengur út úr Sandvíkurfjalli og fóru bændur í Fljóti á báti austur í Sandvík þegar lágdautt var og ruddu niður surtabrandi í fjöruna, og fluttu heim á bæ.  Þótti þetta vera úrvals brenni og mun betra en mórinn.

Móskurður fór þannig fram að fyrst var stungið ein og hálf til tvær skóflur ofana af mónum, sem var moldarlag.  Síðan var mórinn stunginn í stóra köggla og hann borin niður á mela eða eyrar og flett í þunnar fleður og þeim raðað þannig upp að vel loftaði um til að þurrka hann.  Að lokum var honum staflað upp í hrauka og hann þakin með torfi og grjót lagt að til að halda við.  Ef vel er gáð er enn hægt að finna slíka hrauka og er einn sérlega heillegur.  (N66°26.478 –  V22°52.874) og má greinilega sjá torflagið og móinn þar innan við.  Hann var síðan borin heim á bæ, ýmist á hestum eða bakinu og var notað til þess svo kölluð hrip.  Eins þegar snjór og ís lagðist yfir var mórinn dreginn á hestasleða heim að Atlastöðum. Gat komið fyrir í óþerrum að móinn rigndi niður og eyðilegðist og var þá öll fyrirhöfnin til einskis.  Það sýnir enn og aftur hvað menn voru háðir náttúröflunum og það á stað eins og Hornströndum þar sem þau eru hvað óblíðust.  Mórinn eru gamlar gróðurleifar sem grafast undir jarðveg eða safnast saman í mýrum og með tímanum kolast og verða prýðilegt brenni sem gefur góðan hita.

Nú er gengið í nokkuð þurri götu upp á bakkanum ofan vatnsins og framundan er Langanesið.  Fram af því er gott vað yfir í Tungu sem kallað er Langanesvað, en Tungumenn kölluðu að fara yfir “Á skriðu”.  Upp af nesinu eru Langaneseyrar en þar var áður allnokkuð æðavarp.  Vestan megin við nesið eru bakkar sem heita Langanesbakkar og yfir gnæfir Bæjarfjallið.

Þegar gangan er rúmlega hálfnuð frá Svíná að Langanesi er komið að lítilli eyri sem kallast Hvarfeyri, þar birtast bæirnir að Atlastöðum og heitir þar Hvarf.

Nú er komið að Langeyri og verður gatan blautari með mýrarflákum.  Kjói verpir þarna í nágreninu og getur orðið býsna illvígur við að verja hreiður sitt.

Næsta nes framundan er Bæjarnesið en allnokkru áður en þangað kemur verður fyrir okkur hóll sem heitir Grafarhóll og er eins og skip í laginu og liggur vegaslóðinn langsum yfir hann áleiðis að Bæjarnesi.  Huldufólk bjó í hólnum og minnist Sölvey Jósepsdóttir þess að hafa oft séð konu koma gangandi með barn með sér frá hólnum, en þau hurfu ávallt áður en þau komu að Nátthaga.  Grafarhóll er grösugur en ekki mátti slá hann þar sem hann er álagablettur.  Eitt sinn sló Júlíus Geirmundson Grafarhól og tveimur dögum seinna lærbrotnaði hryssa sem hann átti.  Settu menn þetta í samhengi og þrátt fyrir að Júlíus neitaði því, sló hann ekki þarna aftur.  Ofan við hólinn var lítil nafnlaus tjörn, sem nú er uppþornuð.

Aðeins er skotspölur eftir hér að Bæjarnesi en mýrlendi yfir að fara.  Gott er að vera vel skóaður með legghlífar á þessari blautu leið.  Framundan blasa við bæirnir og upp í hugann kemur rjúkandi kaffikannan, hvort sem það er í Atlatungu, Atlastöðum eða einhverjum af öðrum vistlegum bæjum Atlastaða.

 

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA