Minkasíur

 Minkasíur minnka minkafjölda 

Áður var talið að minkar og refir þrifust ekki samtímis á sömu svæðum. Í fjölda ára virtist þetta eiga við um Fljótavík, því þar hefur verið mikið um ref, en til skamms tíma var ekki vitað um mink. Vitað er að einn góðan veðurdag að sumri 1994 “hlupu” nokkrir aðilar með tvo alvana minkahunda allt í kring um Fljótið, án þess að hundarnir teldu sig finna mink.

Nú er öldin önnur. Staðfest er að minkur sást um hábjartan sólríkan dag árið 2007, og vitað er að gildrur höfðu náð nokkum áður. Slíkar gildrur eru stærri útgáfur af rottu– og músagildrum, þar sem agni er komið fyrir á útbúnaði í þannig í jafnvægi, að þegar agnið er tekið, fellur hleri og dýrið lokast inni. Það þarf því að vitja um svona gildrur á hverjum degi.

Minkasía er steypurör þar sem keilulaga járngrind með opi í toppi og botni er komið fyrir þannig að minna op keilunnar er vel inni í rörinu,  og net úr sama efni lokar hinum endanum. Þessu er komið fyrir rétt undir yfirborði straumvatna, helst þannig að mesti straumur vatns sé í miðju rörsins, en lygna út við sjálft rörið. Opið er látið vísa undan straumi. Ekkert agn er notað en þó synda minkar inn um op keilunnar.  Þegar þeir átta sig á því að þeir komast ekki út um hinn endann, snúa þeir við, en leita með lygnunni til baka í stað þess að fara út í miðju straumsins þar sem greið leið er út. Það þarf því ekki að spyrja að leikslokum þegar allt rörið er á kafi.

Reynir Bergsveinsson er hönnuður minkasíunnar. Athyglisvert viðtal var við hann í Morgunblaðinu 27.febrúar 2008, bls.8. Þetta veiðitæki reynist miklu árangursríkara en eldri aðferðir, og getur veitt allan ársins hring. Í grein blaðsins er haft eftir Reyni.: “Til að byrja með er vitjað fimm sinnum á ári um síurnar en nú er þeirra vitjað þrisvar á ári”.  Þetta hljómar nú kannski ekki skemmtilega en sem dæmi um veiði í svona gildru er það nefnt að úr einni síu hafi komið ellefu minnkar í einu. Þá er einnig nefnt að úr einni síu hafi komið svipaður fjöldi á 1. og 2. ári,  en á þriðja ári hafi dregið áberandi úr fjölda, og er það talin vísbending um mikla gagnsemi hennar. Það er talin bjartsýni að hægt sé að útrýma stofninum, en gerlegt að fækka dýrum um 70—90 %.

Eftir mitt sumar 2007 var gerð tilraun með minkasíur, bæði í Bæjará í landi Atlastaða og í Tunguá í landi Tungu. Ef ég hef réttar upplýsingar um þetta, þá kom ekkert dýr í síuna í Tunguá, en 3 í Bæjará. Ekki veit ég hvað lesa má úr þessu, en augljóst er að sían virkar.

Eins og er tilfellið með minkinn, þá er ég aðskotadýr í Fljótavík. Það er því alls ekki mitt að gera tillögu um framtíðina, en mér segir svo hugur um, að flestir landeigendur  myndu styðja það að svona síum yrði komið fyrir til frambúðar. Hvar   friðun svæðisins spilar inn í þetta, veit ég ekki, og það er heldur ekki mitt að spyrjast fyrir um það. En—hver á þá að gera það? Hér kemur aftur upp spurningin um Landeigendafélag?

Ásgeir

Frétt á bb.is um minkasíur Mynd á mbl.is……
Frétt á bb.is um minka  Skessuhorn
Umræðusíða um minkasíu  Skessuhorn 2

 

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA