Fljótavík í Sléttuhreppi og eyðing Sléttuhrepps, fyrrum Aðalvíkursveitar

Uppfært 19.feb  2019

Grein Jósefs H Vernharðssonar

Sögnin um landnám Fljótavíkur 

Fljótavík hefur verið í byggð allt frá landnámstíð líkt og flestar víkur á Hornströndum. Deildar meiningar eru um mörk Hornstranda, en seinustu íbúar telja að þær byrji við Kögur og endi við Geirólfsgnúp, en ég aðgreini þær ekki sérstaklega í þessari lýsingu.

Svo segir í Landnámu, að Geirmundur heljarskinn hafi átt landnám í víkinni og sett þræl sinn Atla yfir jörðina. Þegar Vébjörn sygnakappi og systkini hans brutu skip sitt í norðanverðum Kögrinum, bauð Atli þeim til vetursetu og bað þau engu launa vistina, sagði Geirmund ekki vanta mat.  Geirmundi þótti við þrælinn og átaldi hann fyrir að fara svo gáleysislega með eigur húsbónda síns án leyfis.  Atli þræll svaraði því til, því að það mun uppi meðan Ísland er byggt, hversu mikils háttar sá maður mundi vera, að einn hans þræll þorði að gera slíkt utan hans orlofs.

Geirmundi þótti vel mælt, gaf þræli sínum frelsi og bjó Atli þar til dauðadags.

Byggð í Fljóti

Síðan hefur byggð verið með ýmsum hætti í Fljótavík. Oft hefur verið  margmennt, einkanlega þegar vel hefur árað til lands og sjávar, en þegar þrengt hefur að, hefur víkin oft verið án búsetu til lengri eða skemmri tíma, eins og til dæmis,  þegar stórabóla eyddi næstum allri byggð, fyrri hluta átjándu aldar. En einangruð hefur byggðin jafnan verið, enda tilvalið hæli fyrir sakamenn eða hlaupara  eins og þeir voru kallaðir – og voru Hornstrendingar ekki óhultir um líf sitt fyrir þeim, eins og sögur herma.

Síðustu hreppaflutningar úr hreppnum voru frá Tungu til Grunnavíkur í tíð síðustu íbúa Fljótavíkur er þeir fluttu matarlausa ábúendurna, dragandi á sleða til Hesteyrar í veg fyrir bát sem flutti þá í fæðingarsveit sína.

Fyrri hluta nítjándu aldar fjölgaði fólki í Fljótavík og varð margbýlt á Atlastöðum, auk þess sem búið var í Tungu og Glúmssöðum, vestan Fljóts. Helstu búkostir jarðanna fólust í aflasæld á nálægum miðum og var róið töluvert til fiskjar.  Stutt var í fugl og egg í bjargi auk þess sem nokkur veiði var í vatninu.  Töluvert undirlendi er í víkinni til öflunar heyfengs, til að fóðra nokkrar kindur, eina til tvær kýr og hest, er var notaður til áburðar og reiðar.

Þrátt fyrir ýmsa erfiðleika í búskap var mikil samheldni meðal fólks í Fljótavík líkt og til dæmis í Hornvík, Aðalvík og á Hesteyri. Menn voru tengdir sínum bernskustöðvum og trúðu að land feðranna myndi sjá þeim fyrir lífsbjörginni eins og áður.

Erfiðleikar við verslun og viðskipti 

Nær ógerlegt var að komast í Sléttuhrepp, nema af sjó og urðu hreppsbúar að sækja öll verslunarviðskipti til Ísafjarðar, nema það sem verslað var við fiskiskip, erlend og innlend, sem leituðu skjóls í víkunum. Verslun var þó lengst af erfið, þar sem allir aðdrætti voru af sjó og um langan veg að fara á smábátum.

Slys voru tíð í þessum ferðum. Þannig fórst til dæmis séra Guðmundur Sigurðsson prestur á Stað í Aðalvík við ellefta mann 26. ágúst árið 1811, þar af átta bændur úr sveitinni og mun þetta slys hafa verið eitt hið mesta þar um slóðir.

Nokkru fyrir aldamótin 1900 rættist þó talsvert úr þessu, þar sem verslanir á Ísafirði settu upp sveitaverslanir á þéttbýlustu stöðunum, auk fiskmóttöku á Sæbóli og Hornvík og skyldi með því tryggð viðskipti Hornstrendinga við verslunina.  Framan af var einungis um vöruskiptaverslun að ræða, en seint á nítjándu öld byrjaði enskur fiskkaupmaður að kaupa fiskafurðir af Hornstrendingum og greiddi með peningum.  Einnig horfðu verslanir á Ísafirði  girndaraugum til fiskafla hreppsbúa og upp úr 1880 náðu þær undir sig mestum hluta fiskverslunarinnar.

Á þeim tímum, þegar Horstrendingar höfðu sem minnst viðskipti við hofmóðuga kaupmenn einokunarverslunarinnar, áttu þeir í nokkrum viðskiptum við eigin landsmenn og seldu þeim þá vöru, sem að nokkru mun hafa verið seld út úr byggðum Hornstranda og gaf nokkurn arð, en það var rekaviðurinn og búshlutir af honum smíðaðir og einnig egg og fiður sem þeir fóru með í kaupstað á vorin.

Samgöngur – og samgönguleysi

Örlítið rofaði til með samgöngur árið 1891, þegar Sýslunefnd Ísafjarðarsýslu ákvaðað að festa kaup á gufubát til póstferða. Fimm árum síðar var samið við Ásgeirsverslun á Ísafirði um ferðir Ásgeirs litla (fyrsta íslenska gufuskipsins) í sýslunni, sem gerði ráð fyrir því að hann skryppi stöku sinnum norður í Aðalvík og Hornvík. Seinna komu svo til samgöngur h.f. Djúpbátsins, en með honum komust á vikulegar samgöngur við Jökulfirði og Aðalvík, en lengra norður vor og haust.

Þó samgöngur á sjó hafi verið erfiðar, voru samgöngur á landi hálfu verri. Vegir voru óalmennilega vondir, hættusamir og víða ófærir eða lítt færir. Hreppurinn var langur, yfir þverbrött fjöll og kletta að fara og víða ekki manngengt án stórhættu og ekki hægt að koma hestum við. Enda þótt hreppsbúar hafi gert talsvert til að bæta samgöngur innan sveitar, náðu þær úrbætur óvíða nema til gangandi manna, og var ekki um annan flutning á landi að ræða en þann sem menn gátu borið á sjálfum sér. Hafa bændur í Fljóti og Hornströndum orðið að sækja margar þungar byrðar lífsnauðsynja til Aðalvíkur og Hesteyrar er vöruskortur varð á útmánuðum, þegar illa áraði.

Breyttir atvinnuhættir

Þess má geta að Valdimar Þorvarðsson í Hnífsdal kom upp íshúsi á Sæbóli rétt fyrir 1930 og starfrækti í örfá ár. Þegar seinni heimstyrjöld brast á voru atvinnuhættir farnir að breytast í bæjum og þorpum við utanvert Djúp. Stríðið krafðist aukins fiskafla og unga fólkið sá fram á aukin tækifæri til þess að afla sér meiri tekna á skemmri tíma en áður gerðist og því soguðu þessir staðir það til sín þar sem betri kjör buðust. Eftir stóðu aðeins þeir sem lítið gátu gert sér til bjargar.

Sléttuhreppingar náðu ekki að fylgja eftir nýsköpun og framförum líkt og önnur sjávarþorp. En þrátt fyrir það, vildu menn alls ekki trúa því að þeir þyrftu að hverfa frá heimilum sínum og atvinnuháttum.  Til marks um það vil ég benda á, eftirfarandi flutninga sem tengdust Fljótavík skömmu áður en víkin fór í eyði:

1)    Árið 1938 byggir Geirmundur Júlíusson Geirmundarstaði út úr jörð föður síns Júlíusar Geirmundssonar og afa míns Jóseps Hermannssonar.

2) Árið 1945 keypti faðir minn jörðina Geirmundarstaði af Geirmundi Júlíussyni. Áður hafði fjölskyldan búið í Tungu í 10 ár. Ári síðar flutti fjölskyldan til Hnífsdals.

3) Árið 1945, við sölu Geirmundarstaða,  flutti Geirmundur að Látrum í Aðalvík og bjó þar í eitt ár áður en hann flutti til Hnífsdals.

4) Þá bjó einnig á nýbýli frá Atlastöðum Högni Sturluson, tengdasonur Júlíusar.

Ýmsir fleiri fluttu sig á milli staða síðustu árin og keyptu þá gjarnan hús og jarðir í skuld, sem síðan tók lengstan hluta ævinnar að borga eftir að flutt var brott.  Voru foreldrar mínir þar á meðal og til að geta greitt þær skuldir þurfti hann að veðsetja vertíðarhlut sinn til að geta staðið í skilum með kaupverðið eftir að hann flutti til Hnífsdals.

Var eitthvað reynt til að halda svæðinu í byggð?

Ýmislegt hafði annars gerst, sem jók íbúunum kjark til áframhaldandi búsetu.: Síldarstassjónin (verksmiðjan) á Stekkeyri, koma breska hersins til Aðalvíkur 1940 og bygging radarstöðvar á Darranum skapaði mikla atvinnu. Stækkun vélbátaflotans skapaði líka miklar umræður um meiri hafnarbætur, en einmitt þá náði ósamlyndispúkinn sínum besta árangri. Aðalvíkingar gátu lengi ekki komið sér saman um hvort byggja ætti bryggju á Sæbóli eða Látrum, og síðar fóru Hesteyringar að gera hliðstæðar kröfur, sem ollu því að stjórnvöld treystu sér engan veginn til að taka afstöðu í því máli.

Í Hesteyrarfirði höfðu Norðmenn byggt stóra hvalstöð árið 1884 og starfræktu til ársins 1912, en þá gekk hvalveiðbann  í gildi og 1915 breyttu þeir  henni í síldarstöð. 1927 keypti Kveldúlfur h/f stöðina og breytti henni í síldarverksmiðju, sem var starfrækt til ársins 1940. Þeir byggðu löndunarbryggju og plön sem togarar gátu lagst að, en sú bryggja var í einkaeign auk þess sem hún var of langt frá þorpinu á Hesteyri til að nýtast heimamönnum sem vildu koma sér upp fiskvinnslu á eigin landi eftir að öll atvinnustarfsemi lagðist þar af.

Það er líka eftirtektarvert með þá menn sem náðu að safna einhverju fé hjá þessum aðkomumönnum, að þeir lögðu það yfirleitt ekki til atvinnuuppbyggingar á heimaslóðum, heldur notuðu peningana til að  komast burtu. Embættismenn, svo sem læknir, prestur og ljósmæður fluttust brott.  Eftir það fóru hlutirnir að gerast hratt.

Menn vildu samt ekki gefast upp og árið 1946 var ráðamönnum í Sléttuhreppi orðið það ljóst í hvað stefndi. Það ár fluttu yfir 100 manns úr hreppnum og voru þá eftir aðeins 160 manns, 35 sextíu ára og eldri, 55 börn innan 16 ára 33 konur og 33 karlmenn, 20 til 59 ára, (svokallaðir verkfærir menn). Hreppurinn læknislaus, ljósmóðurlaus, prestslaus, bréfhirðing lögð niður og aðeis 2 eftir í hreppsnefndinni.

Til eru bréf frá Bergmundi Sigurðssyni oddvita á Látrum í Aðalvík til félagsmálaráðuneytisins, þar sem hann gerir grein fyrir ástandinu og bendir á að aðeins verði eftir gamalmenni, sem enga burði hafi til sjálfsbjargar eða til að koma sér fyrir í öðrum sveitarfélögum. Í framhaldi af því er haldinn fundur með þingmönnum þeirra, þeim Sigurði Bjarnasyni frá Vigur og Hannibal Valdimarssyni. Samin var eins konar bænaskrá til yfirvalda, þar sem farið er fram á að:

1)   Ríkið reisi tvö lítil frystihús, annað á Sæbóli í Aðalvík og hitt á Hesteyri.

2)   Lendingarbótum verði haldið áfram á Látrum og bryggja byggð á Sæbóli, þannig að hún fullnægi þörfum fystihússins. Séð  verði fyrir lendingarbótum  á Hesteyri.

3)   Athugað verði með virkjanir í Hesteyrará og Reyðardalsá.

4)   Mælt verði upp ræktanlegt land á Hesteyri og í Aðalvík.

5)    Akfær sumarvegur verði byggður sem fyrst milli Hesteyrar og Aðalvíkur.

6)    Læknir verði fenginn til starfa.

Á þessum tíma er byggð að mestu komin í eyði, annarsstaðar en á þessum stöðum.

Það sem eftirtektarverðast er er að þegar fólkið var að flytja á brott, var það ekki vegna þess að lífskjörin fóru versnandi, þvert á móti voru allir  sammála um það að lífskjör væru betri en áður.  Véltæknin hafði haldið innreið sína og  aðeins fjórum árum eftir að fyrsta vélin var sett í bát á Íslandi, en það var á Ísafirði árið 1902, kom fyrsta vélin í bát í Aðalvík og fjölgaði vélbátum ört.  Hinsvegar var hafnleysan alvarlegt vandamál, sem stjórnvöld vildu í engu sinna og hraðfrystihúsi gátu þeir ekki komið upp. Þegar bátarnir stækkuðu í landinu, stóðust þessir staðir einfaldlega ekki samkeppnina.

En þrátt fyrir hafnleysi gáfust menn ekki upp, og má geta þess að á fjörutíu ára tímabili mótorbátaútgerðar í Aðalvík munu á annan tug mótorbáta hafa rekið þar á land eða sokkið í legufærum, sumir tryggðir en aðrir ekki. Þannig lauk mótorbátaútgerð í Sléttuhreppi.

 Eingangrun íbúa eykst – Fljót fer í eyði

Engir opinberir styrkir komu til og virtust stjórnvöld lítið vilja vita af því, þegar fólkið flutti burt. Til þess virtist ætlast, að þeir flyttust úr hamravíkum sínum, þar sem tæknin og fjármagnið vildi ekki líta við.  Þeir yfirgáfu hús og  oft verðmætar eignir sínar, yfirgáfu aleigu sína og settust að á nýjum stað, snauðir menn.  Enginn Viðlagasjóður var til sem bætti þeim þau verðmæti er þeir urðu að skilja eftir auðninni til leiks.

En þegar fólki fækkaði og jarðir lögðust í eyði hver af annarri, hefur einangrun þeirra sem eftir voru, aukist að sama skapi og ýtt undir þá að komast í margmenni. Til marks um erfiðleika íbúa Fljótavíkur þegar veikindi steðjuðu að, er til frásögn af  konu sem gekk með tvíbura, en veiktist áður en kom að fæðingu. Enginn læknir var í hreppnum, þannig að það varð að flytja konuna á sleða um hávetur til Hesteyrar og koma henni í bát sem flutti hana til Ísafjarðar á sjúkrahús, þar sem tvíburarnir fæddust andvana. Konan beið þess aldrei bætur, þrátt fyrir annað barnalán. Annars fóru allir aðrir flutningar fram á sjó og gátu orðið harðsóttir eins og áður er getið.

Faðir minn Vernharð Jósepsson byrjaði að búa í Tungu í Fljótavík árið 1935 ásamt móður minni, Þórunni Maríu Friðriksdóttur og leigðu þau jörðina af Sölva Betúelssyni á Hesteyri. Öll börn þeirra, níu að tölu eru fædd í Aðalvík og Fljótavík, en ég er yngstur þeirra sem upp komust fæddur 1943, en þrjú þeirra náðu ekki fullorðinsaldri.

Þrátt fyrir gott samstarf og vináttu Atlastaðabænda var svo komið að flótti var brostinn á í Fljótavík sem og á öllu Hornstrandasvæðinu. Það endaði með því að þeir, ásamt öðrum bændum í nágrenninu ákváðu að bregða búi, allir sem einn og flytjast á brott. Það var svo 16. júní 1946, að allir 22 íbúar Fljótavíkur fluttu á brott, rúmu ári eftir að faðir minn keypti jörðina eins og áður sagði

Árið 1946 fluttu 121 af 280 íbúum hreppsins á brott , og má segja að á  því ári væru örlög sveitafélagsins ráðin, því þá fóru flestir sem eitthvað máttu sín og eitthvað útsvar borguðu.  Fólkið var skyndilega knúið til þess að yfirgefa heimili sín, eignir og átthaga og flytja í önnur héruð. Það var að sjálfsögðu ekki sársaukalaust. Það var tengt uppruna sínum, því umhverfi og þeim náttúruöflum sem hafði agað það og mótað. Hver einstaklingur ber heimaland uppvaxtar og þroskaára að einhverju leyti í sér. Fólkið úr Sléttuhreppi var þar engin undantekning, það átti sér fjallið og sjóinn að fóstra og typtunarmeistara. Án fullrar getu til leiks við þá aðila, var því búsetan ekki lífvænleg. Og fjallið og sjórinn fylgdu því.

Faðir minn mun vera sá eini af íbúum Fljótavíkur sem gat selt eitthvað  af fastafé, en hús hans, sem var nýlegt timburhús seldist til niðurrifs og brottflutnings, en á móti kom, að hann var stórskuldugur eftir að vera nýbúinn að kaupa jörðina.

Íbúarnir tvístruðust.  Við fluttum til Hnífsdals, þar sem við höfum búið síðan.  Júlíus Geirmundsson og hans fjölskylda fóru til Ísafjarðar, en annars dreifðist fólkið mikið, í þorpin við Djúp og á Ísafjörð, auk þess sem margir fluttu suður, sumir strax, aðrir seinna.

Þetta fólk sem á fyrri öldum komst af með verkum sínum í sveitum norðan Djúps og Ströndum – þar sem nú er friðland ókunnugra – miðaði vöku sína og svefn við sól og stjörnur og átti allt sitt undir fiskigengd, skepnuhöldum og árferði. Það hafði lítið fé, en þekkti land og sjó sér til lífsbjargar. Þekking þess er týnd og með henni farin dugmesti þáttur íslenskrar menningar. Þetta fólk hlífði sér ekki, bjargaðist af dugnaði, náttúruviti og guðstrú í þeim góðu höndum.

Ég er einn af þeim sem þurfti að yfirgefa átthaga mína, sveit sem um þúsund ár bar uppi þróttmikið og sterkt mannlíf, stóðst kröfur um lífsbjörg og lífskjör fram að miðri þessari öld, en var samt yfirgefin og skilin eftir mannlaus.

Huldir vættir vernda Hornstrandir?

Hornstrandir,  sem smám saman blæddi út voru endanlega orðnar mannlausar 1952, og voru síðan öllum gleymdar um tveggja áratuga skeið, að því undanskildu að NATO fékk afnot af Straumnesfjalli til byggingar ratsjárstöðvar (sem orðin var úrelt um það leyti sem hún var fullbyggð) og björgin, Hornbjarg og Hælavíkurbjarg voru boðin til skotæfinga fyrir NATO flotann.  Af því varð þó aldrei, hvort sem það var fyrir áhrínsorð Jakobínu heitinnar Sigurðardóttur í kvæði hennar um þessa æskubyggð sína, eða hvort huldir vættir vildu vernda þessar náttúruperlur,  .…. (frh. undir ljóðinu)  

“Hugsað til Hornstranda”

Ljóð Jakobínu Sigurðardóttur frá Hælavík, september 1953.

Víða liggja ”verndaranna”  brautir, vart mun sagt um þá,
að þeir hafi óttast mennskar þrautir eða hvarflað frá,
þótt þeim enga auðna muni hyggja Íslandströllin forn.
Mér er sagt þeir ætli að endurbyggja Aðalvík og Horn.
 
Við sem eitt sinn áttum þarna heima undrumst slíkan dug.
Okkur þykir þægilegt að gleyma því sem skelfdi hug.
Gleyma ísi og útmánaðasveltu, angri, kotungsbrag.
Muna gróðurilm og sjávarseltu sól og júnídag.
 
Hungurvofur, hrjósturbyggðir kaldar hugdeig flýðum við.
Vitið samt: Þær eru eftirtaldar ykkur ,hetjulið,
vegna þess hann afi okkar hlóð þar ofurlítinn bæ,
vegna þess að vaggan okkar stóð þar varin hungri og snæ.
 
Láttu fóstra napurt um þá næða norðanélin þín,
fjörudrauga og fornar vofur hræða ,  villtu sýn,
þeim, sem vilja virkjum morðsins níða brjóstið þitt.
Sýni þeim sem hver örlög böðuls bíða mitt.
 
Byltist fóstra, brim í gleði þungu, barnið leitar þín.
legg mér hvessta orðsins egg á tungu, eld í kvæðin mín.
Lífsins mátt og orðsins afl þar kenni ármenn réttar þíns.
Níðings iljar alla daga brenni eldur ljóðsins míns.  

   …………….því þegar flotinn kom siglandi, gerði slíkt aftakaveður, að hann varð frá að hverfa, með brotin skip og bugaða menn, sem aldrei vildu koma aftur á þennan útkjálka.

“Hvort var þá hlegið í hamri”

Ljóð Jakobínu Sigurðardóttur frá Hælavík, 25.október 1953

Hvort var þá hlegið í hamri? Herskipin stefndu að landi,
ögrandi banvænum öldum, Íshafs, við norðlæg fjöll.
Sá það Hallur í hamri. Heyrði það Atli í bergi.
Yggldi sig lækur í lyngmó, leiftraði roði á mjöll.

Leituðu skotmarks í landi, langsæknir víkingar.
Hugðust tækni tuttugustu aldar, tefla við Atla og Hall.
Margþættri morðvisku slungin, menningin stórbrezk og vestræn
skyldi nú loksins logum, leika um nes og fjall.

Válega ýfruðu vindar, veifaði Núpurinn éljum,
öskraði brimrót við björgin, boðandi víkingum feigð.
Hljómaði hátt yfir storminn: Hér skal hver einasta þúfa
varin, og aldrei um eilífð, ykkur til skotmarks leigð.

Hertu þá seið í hamri, heiðni og fjölkynngi vanir.
Bölþrungin blóðug hadda, byltist úr djúpi og hló.
Reykmekkir, rauðir af galdri, risu úr björgum til skýja.
Níðrúnir gýgur í gljúfri, grálynd á klettaspjöld dró.

Hvort var þá hlegið í hamri? Hermenning stefndi frá landi
óvíg gegn íslenskri þoku, ófær að glettast við tröll.
Ljómuðu bjargbrúnir, brostu þá sund og víkur,
föðmuðust lyng og lækur, logaði ósnortin mjöll.

Hvílast nú Hallur og Atli.  Hljótt er í bjargsölum.
Enn er þó kurr í kyljum, klettur ýfist við hrönn.
Geyma skal sögn og saga, sigur hornstrendskra vætta
íslenskur hlátur í hamri , hljóma í dagsins önn.

Niðurlag        

Þegar sólin hækkar á lofti, grösin gægjast upp úr fönninni, daginn tekur að lengja, björgin brjótast úr klakaböndum, leitar hugurinn á æskuslóðirnar. Með sumri birtast gamlir heimamenn og fjölskyldur þeirra á fornum heimaslóðum, til að upplifa þá stemmingu sem staðurinn gaf þeim í arf og enginn skilur, nema að upplifa hana.

Þegar ég hóf byggingu sumarbústaðar míns, sem heitir Brekka, og er í Fljótavík, árið 1982, undruðust menn þá heimsku, að vera að fjárfesta þarna norður frá, þar sem nánast enginn maður kom.

Þegar þetta er ritað, er búið að byggja þarna fjóra nýja bústaði auk þess sem elsti bústaðurinn, sem var byggður árið 1969 af niðjum Júlíusar og Jóseps,  hefur bæði verið stækkaður og endurbættur.  Nú er svo komið að mjög mikil ásókn er bæði í sumarbústaðabyggingar og sumardvöl á Hornströndum, auk þess sem fjöldi fólks, bæði erlent og innlent ferðast um svæðið að sumrinu og nýtur þessa stórbrotna landssvæðis, sem kannski hentar ekki til heilsársbyggðar eins og áður gerðist, en skiptir þó miklu máli fyrir fólkið í landinu.

Jósef  Hermann Vernharðsson.

Hlégerði 1. Hnífsdal.

Eigin hugarsmíð, skrifað 1996

 

Heimildir: 1) Sléttuhreppsbók.    2) Úlfar Ágústsson.

__________________________________________________________________ Eins og sést skrifar Jósef greinina árið 1996, en hún hefur þó ekki verið birt fyrr en í júlí 2014. Finna má fleiri skrif um tengt efni á internetinu. Sem dæmi:

1) “Hvað er á bak við hinstu sjónarrönd”, ræða eftir Borgþór Kjærnested

2) Hesteyri á síðunni Ferðaheimur

3) Liggur við landauðn í Sléttuhreppi, (Skutull, 1946)

4)   Orsakir flóttans úr Sléttuhreppi (Dagur 1953)

5)   Hvað olli fólksflóttanum úr Sléttuhreppi, Vesturland 1953, Bjarni Sigurðsson frá Vigur.

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA