Svar Minjastofnunar við fyrirspurn um fornmenjar Vébjarnar Sygnakappa

Uppfært 2.janúar 2019

Í þinglýsingarskjali jarðarinnar  „Atlastaðir, 173789, Ísafjarðarbær“ , sést að skjalanúmeri 418-F-I/237 var þinglýst 15.apríl 1929. Eftirrit, sem hefur verið hér á síðunni síðan árið 2006 má sjá hér, en efnislega er þetta friðunaryfirlýsing um fonrmenjar Vébjarnar Sygnakappa, sem sagðar eru „á hóli í túninu“. Enginn kannast við að varðveita eða hafa séð frumrit skjalsins, og um nákvæma staðsetningu fornmenjanna er ekki vitað.

Fyrir nokkru, sendi ritstjóri tölvupóst til Minjastofnunar, m.a. með ofanrituðum og eftirfarandi texta:

Undirritaður hefur áður leitað til Náttúrustofu Vestfjarða, en ekki fengið svör, og nú er því leitað til Minjastofnunar. Hefur stofnunin  upplýsingar um staðstetningu nefndra fornmenja – og var þá vísað í fyrstu málsgreinina.

2.janúar 2019 barst svar Guðmundar Stefáns Sigurðarsonar fyrir hönd Minjastofnunar, og er það sem hann skrifar skráð hér með appelsínugulum bakgrunni :

” Því miður hafa umræddar minjar á Atlastöðum ekki verið kannaðar af núverandi starfsmönnum Minjastofnunar, en í gögnum frá Ragnari Edvardssyni fyrrverandi minjavarðar á Vestfjörðum eru gefin upp eftirfarandi hnit fyrir minjarnar ” :

ISN93: E 325406 N 666878

” Meðfylgjandi er ljósrit af umræddu friðlýsingarskjali, – hvort frumritið er til hjá Þjóðskjalasafni skal ég ekki segja.”

Stuttu síðar barst annar tölvupóstur með loftmynd þar sem sjá má hvaða hól um er að ræða.

“Ekki er þó ljóst hver uppruni þessara hnita er, hvort þau eru tekin á vettvangi eða af hnitsettri loftmynd. Undanfarin ár hefur verið unnið að heildarendurskoðun Friðlýsingaskrárinnar og þegar búið að heimsækja flesta minjastaðina og mæla upp minjar og ljósmynda, því miður er ekki búið að heimsækja Atlastaði enn sem komið er, en vonir standa til að hægt verði að gera það á árinu.”

Þegar undirbúningur fyrir byggingu sumarhússins Atlatungu stóð yfir (fyrir 1993) , var tilvist þinglýsingarsjalsins hér að ofan, meðal þess sem hafa þurfti í huga, og spyrjast fyrir um. Þá vissi enginn hvar nefndur hóll væri. Þegar undirbúingur fyrir þessa heimasíðu fór í gang – kom þetta upp aftur – með sömu niðurstöðu. Ítrekaðir tölvupóstar næstu ára – skiluðu engu – en nú loksins kemur svar Minnjastofnunar, sem við þökkum kærlega fyrir.

Eftir stendur efinn? Er þetta rétt tilgáta? Kanski kemur einhver með græjur til að skoða þetta – en þangað til……….. bíðum við áfram.

Print Friendly, PDF & Email

5 Replies to “Svar Minjastofnunar við fyrirspurn um fornmenjar Vébjarnar Sygnakappa”

  1. Hefur einhver þekkingu á því, hvers vegna Atli þræll, sem var þarna jú fyrir, reisti hús fyrir Vébjörn í stað þess að troða honum inn í húsið þar sem hann og hans fólk bjó? Og – af hverju segir sagan aðeins frá því að Geirmundur heiljarskinn hafi fundið að við þrælinn fyrir það að gefa Vébirni og hans fólki að borða – en aldrei er minnst á nýtt hús? Og hvar var þá húsið sem hýsti vinnumenn Geirmundar….. og hvar… og hvar …..

    1. Gaman að þessu. Dreymdi Fljótavík í nótt, Landsbankinn var búinn að opna þetta fína og flotta útibú með 6-8 starfsmönnum og ég var sko ekki sátt því mér fannst þetta svo fáránleg og þar að auki var ég með það á hreinu í draumnum að það væri þinglýst í skjölum og fundargerðum hjá Ísafjarðarbæ að Bárubær hefði verið byggður á síðasta leyfilega byggingarétti og nú teldist fullbyggt í Fljótavík. Við vorum að fara yfir í Tungu og Fljótavatnið var upplýst af einhverjum þörungum sem eru sjálflýsandi. Þvílík vitleysa sem mann dreymir en mikið var nú fallegt í víkinni í draumnum og öll systkinin mín voru þarna líka.

  2. Hnitin sem fylgja þessu eru algert rugl, skv. þeim er þetta í Rússlandi, ekki langt frá Murmansk!

    1. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þetta hnitakerfi – eða e.t.v. frekar uppsetninguna á því

  3. Réttu hnitin eru nær þessu: 66°26’53.36″N 22°54’56.95″W

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA