GÞ: Bæjarnes að Grundarenda

Útliti breytt: 7.okt. 2018

Gönguleiðin frá Bæjarnesi að Grundarenda

Höfundur: Gunnar Þórðarson

Við hefjum göngu okkar á Bæjarnesi sem er aðeins skotspöl frá Atlatungu.

Á Bæjarnesi eru tóftir af  kví þar sem sauðir voru mjólkaðir.  Þegar lömbin voru orðin u.þ.b. fimm vikna gömul og tiltölulega sjálfbjarga, voru þau flutt í svokallaða stekki, sem stóðu aðeins ofar á Bæjarnesinu, til að þau kæmust ekki aftur til mæðra sinna.  Þar voru þau afvanin mjólkinni og gefið mjólkurbland í nokkra daga og síðan rekin fram eftir Fljóti þar sem þau voru sett á sumarbeit.  Þetta var gert til að nýta sauðamjólkina og minnist Herborg Vernharðsdóttir, sem fædd er og uppalin í Fljóti, þess að oft hafi sauðirnir gefið meira af mjólk en kýrin.  Ekki dugði minna til að halda þeim sundur en böndin eru býsna sterk sem tengir lamb við móður.  Kindin þekkir lyktina jafnvel eftir langan aðskilnað.  Herborg minnist þess að eitt sinn náði kind til lambs síns en gætti þess að láta það aldrei sjúga sig til að það væri ekki tekið af henni.  Var engu líkara en hún skildi hversvegna aðskilnaðurinn væri og sæi til þess að hann væri óþarfur.  Kind sem mjólkaði vel var kölluð góð “fráfæra”, en sauðamjólkin var mikilvægt nýmeti í fátæklegu framboði á þessum tíma.

301016-01
Hér er gerð tilraun til að staðsetja og nefna örnefni sem Gunnar nefnir í fyrsta hluta lýsingarinnar. Athugið að það getur verið ráð að klikka á myndina og velja að opna í nýjum flipa – og draga síðan inn á þá mynd með Ctrl – og skruna með músinni

Ein saga er til um Guðrúnu Jónsdóttir, eiginkonu Júlíusar Geirmundsonar að henni hafi orðið brátt við vinnu sína í Kvínni, og hlaupið heim.  Ljósmóðir var á staðnum og hljóp á eftir henni heim á bæ.  Það stóð heima að barnið fæddist á leið upp stigann en ekki varð móðir né barni meint af og heilsaðist vel.  Barnið var síðasti afkomandi þeirra hjóna, Guðmundur Júlíusson. Það lýsir kannski betur en margt annað þeim erfileikum og harðindum sem fólk bjó við á þessum árum, ekki síst í Fljóti, sú bitra reynsla sem Guðrún varð fyrir þegar hún eignaðist samvaxna tvíbura að Atlastöðum.  Börnin lifðu aðeins stuttan tíma og án læknisaðstoðar varð þessi annars fíngerða kona að fæða börnin með aðstoð Ingibjargar Jósepsdóttir ljósmóður.  Ljóst má vera að ljósmóðurinn hefur unnið þrekvirki í að bjarga lífi Guðrúnar og þó hún væri ómenntuð á bókina bjó hún við mikla reynslu.  Engin voru tækin né aðstaðan hvað þá heldur að hægt væri að deyfa.  Þetta mun hafa verið á fyrri part barneigna hjá Guðrúnu og hefur eflaust haft áhrif á þá uppgjöf sem síðar varð með brottflutning úr víkinni, en Högni Sturluson vill meina að ekkert hafi ráðið þar meir um, en það óöryggi sem læknis- og ljósmóðurleysi sem var undir það síðasta í hreppnum.

Nú erum við komin að Bæjarlæk en gamla túnið náði að honum og þar sem Atlatunga stendur heitir NátthagiBæjarhjalli liggur fyrir ofan bæjastæðin sem kallast Bæjarhóll.  Uppá Bæjarhjallanum heitir Bulluholt en framan við Bæjarnesið þar sem gengið er upp á hjallann heitir Vinnumannspartur. Upp af vatnsbakkanum í krikanum rétt við Bæjarhólinn er Skiphóll og er hann friðlýstur.  Þar er sagt að Atli þræll hafi heygt skip sitt.

Í dag eru fimm sumarhús í Fljóti.  Atlatunga, Atlastaðir, Anítubær, Brekka og Skjaldabreið (Ath.neðanmáls).  Árið 1946 fluttu fimm bændur með fjölskyldur sínar búferlum úr Fljóti, alls 22 manns.  Þeir voru Júlíus Geirmundsson, Jósep Hermansson, Finnbogi Jósepsson, Högni Sturluson og Vernharð Jósepsson.

Jósep hafði nýlega byggt sér hús sem brann aðeins ári seinna.  Á meðan hann byggði aftur bjó hann í kofaskrifli sem hafði legið í eyði um nokkurn tíma.  Á Atlastöðum hjá Júlíusi var mannmargt og ekki pláss fyrir Jósep og því ekki í annað hús að venda.  Húsið sem hann nú byggði var ávallt kallað Afahús,  en hann var afi Herborgar sem áður er vitnað í.  Húsið hefur verið mjög myndarlegt eins og sjá má á steyptum kjallara sem enn er nokkuð heillegur og leifar af vatnsveitu í húsið og fjósið.  Er það fyrsti grunnurinn sem komið er að þegar bæjarhóllin er gengin í vestur og áður en komið er að Fjárhúshól

Finnbogi sonur Jóseps bjó hjá föður sínum í Afahúsi og hefur eflaust verið sá sem taka átti við búinu. Aðeins var búið í þessu húsi í nokkur ár áður en menn tóku sig upp og fluttu til Ísafjarðar og Hnífsdals.  Má geta sér til hversu erfitt hefur verið að missa fyrst ótryggt nýtt hús í eldsvoða og þurfa síðan að yfirgefa verðlausar nýbyggðar eignir þar sem aleigan var lögð í.

Herborg minnist þess að faðir hennar Vernharð Jósepsson var að greiða af landi og eignum í Fljóti, í mörg ár eftir að þau komu í Hnífsdal.  Á sama tíma þurfti að koma yfir sig þaki á nýjum stað.  Vernharður var nýfluttur úr Tungu þegar kom að brottflutning úr víkinni.  Hann hafði leigt jörðina þar en keypt af Geirmundi Júlíussyni þegar hann flutti til Látra í Aðalvík.  Vernharður var með mest um 70 kindur á búskaparárum sínum í Fljóti en aðrir bændur með um 30 til 40, enda Tunga meiri bújörð og meiri áhersla lögð á útræði frá Atlasöðum. 

Högni Sturluson segir frá því að í brakandi þurrki og yfir hábjargræðistímann, var öllu hent frá sér til að sækja sjóinn ef vel leit út fyrir veiði.  Þannig hafði útræðið forgang yfir búskapnum, en öruggt má telja að þær áherslur hafi breyst verulega síðustu fimm ár búsetu í víkinni.

Júlíus Geirmundsson bjó að Atlastöðum og stóð gamli bærinn á Bæjarhólnum þar sem Atlastaðir standa í dag.  Hann tók foreldra sína Geirmund Guðmundson og Sigurlínu í hornið hjá sér og flutti þau frá Skötufirði við Djúp.  Geirmundur var mikill smiður og útskurðarmaður og liggja verk hans víða, útskornar rúmfjalir, askar og pennastokkar, meðal annars á safni í Hamborg í Þýskalandi. Fyrstu árin bjuggu gömlu hjónin í litlu húsi rétt við Atlastaði en að Geirmundi gengnum tók Friðrik bróðir Júlíusar við móður inni Sigurlínu en Júlíus hafði tekið móður Guðrúnar, Elísu, á sitt heimili.  Húsið sem Jósep bjó í meðan hann byggði Afahús var einmitt húsið sem Geirmundur og Sigurlína bjuggu í, en það hafði staðið autt í töluverðan tíma og grotnað niður.

Júlíus reisti nýtt íbúðarhús að Atlastöðum 1941, en þá voru börn hans öll flutt úr víkinni, fyrir utan Júlíönu sem var gift Högna Sturlusyni, en Þórður og Geirmundur synir hans komu til að hjálpar við húsbygginguna.  Húsið var reist töluvert vestar en gömlu Atlastaðir, út undir Tófubala, og sést steyptur grunnurinn greinilega með húsveggina fallna allt í kring.  Fjárhúsin stóðu spölkorn frá bænum, og höfðu sérstaka hlöðu, einnig má sjá tóftir af súrheysgryfju þarna skammt frá.  Fjósið var sambyggt húsunum eins og venja var þá en venjulega voru bændur með eina kú hver, sem dugði í þeim sjálfsþurftarbúskap sem þarna var stundaður.

Það gekk hinsvegar illa að halda lífi í kúm í Fljóti.  Ekki vita menn ástæðu þess en eitthvað átti þetta umhverfi og aðstæður ekki vel við þær.  Hugsanleg ástæða gæti verið hversu félagslynd dýr kýrnar eru og skal vitnað í frásögn um Tungu hvað það varðar.

Þessir menn voru alls ekki aftarlega á merinni hvað ýmsan aðbúnað varðaði.  T.d. voru sumir bæir komnir með vind-rafstöðvar sem dugðu til að hlusta á útvarp og kveikja ljóstýru og má greinilega sjá leifar af mastri og vindmyllu við Atlastaði í dag.  Herborg minnist þess þegar hún var send í “fjölmennið” að Látrum að fyrirfram hafði hún gert sér háar hugmyndir um flotteitin þar.  Henni til undrunar voru aðeins tveir bæir með rafmagn en restin notaðist við olíulampa.

Júlíus hafði sett upp 6 volta kerfi en í byrjun 5ta áratugarins var komið fyrir talstöð í Fljóti þannig að hægt væri að láta vita af sér við umheiminn.  Þar sem talstöðin þurfti 12 volta spennu þurfti Júlíus að breyta spennunni hjá sér og í framhaldi af því fékk hann sér litla rafstöð til að fullnægja orkuþörfinni og var hún gangsett reglulega til að hlaða inn á rafgeymana enda erfitt að notast við vindmyllur þar sem oft var of hvasst fyrir þær og hætta á að þær skemmdust.  Var þetta mikil nýlunda fyrir víkurbúa, og ekki síst fyrir börnin sem hálf hræddust skellina í vélinni.  Þótti þeim mikið til koma og fannst Júlíus mikil maður enda orðin “rafmagnsmaður”.

Júlíus skrapp eitt sinn í höfðuborgina og var mjög forframaður þegar hann kom til baka, með hatt og staf og reffilega klæddur.  Það hefur verið upplit á sveitungum hans þegar hann lýsti fyrir þeim undrum “stórborgarinnar” og þegar hann fór í “lyftuvél” í útvarpshúsinu, en þangað fór hann til viðtals.  Viðtalið var tekið upp á stálþráð sem enn er til.  Sjálfsagt hefur þótt merkilegt að ræða málin við útvegsbónda norðan af Hornströndum sem aldrei hafði komið í höfuðborgina fyrr.  Júlíus þótti tala mjög sérstaka íslensku, kjarnyrta og ómengaða á þeim tíma.  Segir sagan að rithöfundar, þar á meðal Guðmundur Hagalín, hafi komið til að fá innblástur og eins tök á þessu kjarngóða máli sem hann talaði.  Er sérstaklega til tekið að Guðmundur hafi dvalið í Fljóti meðan hann skrifaði Kristrúnu í Hamravík til að ná valdi á tungutakinu.

Högni segir sögu af því þegar þeir Júlíus hugðust fara með bilaðan rafal úr vindrafstöðinni til Hesteyrar, en þaðan átti að senda hana til Ísafjarðar í viðgerð.  Þetta var í janúar mánuði og því allra veðra von.  Þegar þeir komu að Glúmstöðum og hugðust ganga upp Gúmsdalinn upp á Háuheiði, skall á með stórhríð.  Ekki sást út úr augum en þeir ákváðu að halda á móti vindinum með von um að komast til sjávar og rata þannig heim.  Eftir að hafa gengið í langan tíma taldi Högni sig heyra nið í brimi og gengu þeir á hljóðið.  Ekki leið á löngu þar til þeir komu í fjöruna við Tungu og gátu þannig fundið leiðina heim að Atlastöðum.  Segir Högni að Júlíus hafi verið komin að fótum fram af þreytu, enda orðin roskin maður þegar þetta gerðist

Högni bjó í Fljóti í fimm ár, frá árinu 1941 og þangað til bændur fluttu búferlum úr víkinni 1946.  Hann byggði sér hús upp á Bæjarhjalla sem hét Hjalli.  Hann minnist þess hversu mikið verk var að bera á bakinu allt efnið í húsið frá sjó og upp á bakkann.  Í grunninn bar hann grjót út fjörunni, safnað var saman rekavið í rafta og sperrur en einnig var honum flett með stórviðarsög í borð.  Smíðaefni var síðan keypt af Kaupfélaginu á Ísafirði og flutt með Fagranesinu í Fljót.  Síðasta árið flutti hann á Atlastaði til tengdaforeldra sinna að Atastöðum, enda gömlu hjónin farin að reskjast en Högni ennþá ungur og hraustur maður.

Högni minnist þess ekki að menn hafi gert sér dagamun í Fljóti.  Hinsvegar man Sölvey vel eftir því karlarnir voru að kveðast á.  Einnig voru húslestar öll kvöld og sáu húsbændur á hverjum bæ um lesturinn.  Einnig eru heimildir fyrir því að karlarnir tæku í spil, eins og sagt er frá í gönguferð um Tungu.  Á gamlárskvöld gengu karlarnir þrjá hringi í kringum húsið og buðu huldufólkið velkomið með eftirfarandi vísu:

Komi þeir sem koma vilja.

Veri þeir sem vera vilja.

Fari þeir sem fara vilja.

Mér og mínum að skaðlausu.

Högni minnist brottflutningsins úr sveitinni en segist ekki hafa tekið það mjög nærri sér enda vanur flakki frá einum stað til annars.  Hinsvegar hafi þetta verið þyngri spor fyrir suma aðra þar sem menn þurftu að skilja aleiguna eftir eins og áður getur.  Þetta var 16. júní 1946 og skildu menn féð eftir til að láta það ganga sumarlangt í grösugri sveitinni, en síðan átti að smala því að hausti og leggja endalega af búskap í Fljóti.  Högni segist hafa tapað lófastórum steini, sem hann hafði rispað nafn sitt á þegar stund gafst milli stríða í verinu, við brottförina.  1999 fann Herborg Vernharðsdóttir steininn í fjörunni þar sem báturinn mun hafa flutt fólkið um borð í Fagranesið, áleiðis til nýrra heimkynna handan Djúpsins. Herborg minnist vel þessa dags og segir menn hafa verið niðurlúta og tregafulla.  Fljótlega eftir að fjölskyldan kom til nýrra heimkynna í Hnífsdal réði hún sig til kaupavinnu, en þó með því fororði að hún færi um haustið til að smala fénu í Fljóti.  Réttir fóru venjulega þannig fram að smalað var fyrst að Atlastöðum þar sem menn drógu sitt fé í dilka.  Það fé sem ekki tilheyrði Atlastaðabændum var síðan rekið kringum vatnið til Tungu þar sem Tungumenn höfðu smalað sín megin.  Töluvert var um að fé leitaði frá Aðalvík og stundum frá Hesteyri til Fljótavíkur, enda víkin mjög grösug og sumarbeit með því besta sem þekktist.  Féð var nú rekið inn í rétt sem var að mestu gerð af náttúrunnar hendi en rétt framan við Grjótodda er sandkambur þar sem myndast hafa geilar miklar milli klakka og eru bakkarnir það brattir að féð komst ekki upp þá og því auðvelt að girða fyrir og útbúa almenning og dilka.  Síðan komu bændur úr nágrenninu og sóttu sitt fé en lítið var um að bændur í Fljóti þyrftu að sækja sitt fé til nágrannana.  Féð var síðan rekið til Hesteyrar yfir Háuheiði þar sem það var dregið í dilka og síðan ráku menn sitt fé hver til sinna heima að Sæbóli, Miðvík, Látrum, Stakkadal eða Rekavík. Við skulum gefa Herborgu orðið og láta hana lýsa með eigin orðum þessari síðustu smölun haustið 1946, en hún var 14 ára gömul þegar þetta var.

“Ég og systir mín Þórunn fórum ásamt föður okkar og öðrum bændum úr Fljóti til að smala fénu og koma því til Ísafjarðar.  Hópurinn gisti í húsi Júlíusar Geirmundssonar að Altastöðum og hafði staðið yfir bylur í vikutíma áður en við komu Við fórum á fætur um kl. sex um morguninn til smölunar en féð hafði komið niður af fjalli og þurfti því ekki að elta það þangað.  Öllu fénu var smalað í réttina í Tungu þar sem Látra féð var dregið í dilka og ráku síðan bændur þaðan, sitt fé heim yfir Tunguheiði.  Töluvert var farið að grisjast búskapur á þessum tíma og því ekki um mikinn fjölda að ræða.   Síðan var féð rekið til Hesteyrar þaðan sem flytja átti það til Ísafjarðar.  Það var það mikill snjór upp Glúmsdalinn að ég man eftir því að hann náði í mitti þegar við vorum að koma upp brekkuna ofan við Glúmsstaðartúnið.  Það varð að troða undan fénu til að koma þeim yfir fannfergið og voru sumar kindurnar bókstaflega að gefast upp.  Milli klukkan níu og tíu um kvöldið komum við til Hesteyrar þar sem féð var rekið inn í rétt og restin af fé nágrannana dregið í dilka.  Fagranesið átti að koma þá um kvöldið að Stekkeyri, en þar var bryggja.  Ekki varð úr því þar sem svo vont var í sjóinn og var skipskomu frestað.  Féð var því skilið eftir í réttinni og við fengum gistingu hjá Sölva Betúelssyni og Sigrúnu á Reiðhól.  Maður var blautur sko því nú voru ekki stígvélin til að vera í.  Ég man að við vorum rennandi blaut og þegar við vorum búin að borða vorum við háttuð upp í heitt og  fínt rúm.  En klukkan að verða eitt, þá kom kallið.  “Báturinn er að koma”  Það var kolniða myrkur, ég man það.  Við þurftum að fara og þó Sigrún gamla á Reiðhól væri búin að vinda af okkur fötin og reyna að þurrka þau, hún tók svo rosalega vel á móti okkur, vóru þau ennþá rennandi blaut.  Og takk fyrir, við urðum að fara í allt blautt en fötin voru þó heit.  Nú inn á Stekkeyri var farið með féð þar sem öllu var dengt út í bátinn og lagt af stað til Ísafjarðar.  Við reyndum að leggja okkur á leiðinni en það var ekki möguleiki að sofna fyrir  endalaust jarmi í rollunum.  Við komum til Ísafjarðar klukkan sjö um morguninn en þá áttum við eftir að reka féð inn í sláturhús og var klukkan orðin um ellefu þegar því var lokið.   Þá fórum við systurnar labbandi heim út í Hnífsdal.  Ég man ekki hvort klukkan var tólf eða hálf eitt þegar við kómum þangað en þetta var “einn” dagur í lífi mínu.

Högni telur ástæðuna fyrir brottflutning eins og áður segir vera öryggisleysi íbúanna.  “Þetta var orðið dauðadæmt.  Engin læknir, engin ljósmóðir á Hesteyri”  Sölvey telur ástæðuna vera ásamt þessari að unga fólkið vildi allt fara í burtu.  “Þá hefðu þeir gömlu mennirnir orðið einir eftir og það hefði aldrei gengið”

Herborg á góðar minningar um hjónin á Atlastöðum og talar um hversu hlýr maður Júlíus hafi verið.  Átti hann það til að kjá við krakkana, strjúka handabaki við kinnina á þeim og veita þeim athygli sem ekki var endilega algengt af karlmönnum í þá daga.  Enda menn markaðir af harðri lífsbaráttu og sífeldum bardaga við hörð náttúruöflin.  Einnig lýsir hún Guðrúnu sem einstaklega hlýrri og góðri konu.  Sölvey segir að eftir að hún missti móður sína, fjögurra ára gömul, hafi hún ekki kynnst neinni blíðu nema frá þeim hjónum á Atlastöðum.  Hún talar sérlega hlýlega um þau og á um þau góðar minningar og segir “það var sama á hvaða tíma sem var að við kómum þarna, altaf var vel tekið á móti okkur og margan sykurmolann fengum við hjá þeim”

Eins og áður segir missti Sölvey móður sína fjögur ára gömul, en hún dó úr lungnabólgu.  Sama dag dó bróðir hennar, misseris gamall, úr barnaveiki. Þau eru grafin á Stað að Sæbóli, en venjulega jörðuðu Fljótvíkingar ástvini sína þar.

Rétt við núverandi Atlastaði við bæjarlækinn er greinileg tóft af yfirbyggðu vatnsbóli en frá því lágu 18 álna göng í gamla íbúðarhúsið að Atlastöðum.  Þetta var gert til að ekki þyrfti að fara út til að sækja vatn.  Seinni hús voru byggð með vatnsveitu eins og glögglega má sjá við rústir seinni húsa á Atlastöðum.

Nú höldum við ferðinni áfram sem leið liggur að Bæjará (Nautadalsá)  Á þessi kvíslaðist þegar kom niður á Melasundin og skiptist þá í Bæjará og Drápslæk. Nafnið kom til af því hversu oft skepnur drápust í læknum. Farvegur Bæjarárinnar hefur síðan þurrkast upp en hann rann í ósinn fyrir ofan Kríuborgina.  Rennur áin nú öll í farveg Drápslæks og hefur m.a. hjálpað til að mynda flugvöllinn sem í dag er mikið notaður í Fljóti, en sandframburðurinn hefur fyllt upp grjótmela sem áður voru þarna með þarapyttum og drullu, illfærar skepnum sem mönnum og gert þar afbragðsgóðan flugvöll.Áður þurfti að lenda í Tungu og flytja fólk og farangur yfir Ósinn, með ærinni fyrirhöfn.

Framan við Bæjarána upp á Bæjarhjallanum stendur Brekka sem Jósep Vernharðsson byggði, en heiman við hana byggði Högni Sturlaugsson bæ sinn sem hét Hjalli og má glögglega sjá tóftir hans.Högni var giftur Júlíönu Júlíusardóttir Geirmundssonar.

Framan árinnar ofan hjallans allt að Grundarenda heitir Skjaldabreið.  Þar stendur bærinn Skjaldabreið og skammt þar frá má sjá greinilegar tóftir af gamla bænum  þar sem Geirmundur Júlíusson byggði bæ sinn sem kallaður var Geirmundarbær. Skjaldabreið dregur nafn sitt af tveimur skjöldum sem standa undir hjallanum og heita Heimri-Skjöldur og Fremri-Skjöldur.  Sagan segir að þeim séu fornmenn heygðir og enn þann dag í dag vaki þeir yfir víkinni og varni bæði ísbjörnum og annarri óáran að komast frá sjó að bæjunum.  Milli skjaldanna er djúpt jarðfall sem aðskilur þá en niður af þeim er Melasund sem eru miklir sandflákar en þó er talað um að hafi verið grasi gróið áður fyrr.  Þeir sem fæddir eru og uppaldir í Fljóti minnast þess hinsvegar að Melasundin voru umflotin vatni og ógengt þá leið til sjávar.

Uppaf er Bæjardalur (Nautadalur) sem markast af  Kögur í vestri og Bæjarfjalli í austri en fyrir miðju trónir Beila sem skiptir dalnum í Krossadal og Bæjardal.  Upp af Krossadal eru Krossar þar sem áður mátti sjá karl og kerlingu með naut í taumi að koma úr Rangalanum.  Þessar myndir hafa veðrast mikið en enn má sjá glufur í gegnum klettana en áður mátti sjá þar kross sem nafnið er dregið af.  Uppi í Bæjardal eru tvö vötn sem kölluð eru Sandvíkurvötn og fjallið niður í Sandvíkina heitir Sandvíkurfjall.

Skömmu áður en komið er að skjöldunum voru kartöflugarðar Atlastaðabænda.  Helsti kartöflubóndinn í Fljóti var Þórður Júlíusson.  Segir Högni að Þórður hafi fengið “það helvíti af kartöflum” úr görðunum á hverju hausti.  Enn má sjá girðingastaura sem hafa staðið af sér tímans tönn og skammt þar frá má sjá gamalt herfi sem notað var til að herfa garðana.  Ekki er þó dráttavélin sem liggur þreytuleg upp á hólnum partur af landbúnaði í Fljóti, heldur var hún flutt seinna til að byggja sumarhúsin sem nú standa í víkinni.  Enda var umræddur plógur dregin af hestum í tíð ábúenda í Fljóti.  Þórður minnist þess að ásamt Geirmundi bróður sínum að hafa staðið í karatöfluræktuninni í Fljóti.

Ef gengið er héðan áleiðis að rústum Atlastaða, er hægt að finna leifar af rabbaðaragarði Guðrúnar Jónsdóttur, í barðinu sem blasir við skammt frá, og ef dráttavélin er látin bera við Hvestutána er auðvelt að finna staðinn.

Ekki ber öllum viðmælendum saman um matarmenningu fólksins í Fljóti.  Sumir hafa fátt jákvætt um það að segja en Sölvey Jósepsdóttir minnist matarins með ánægju og segir matatíma hafa verið reglulega og ætíð nóg að borða.  Á jólum var borðað hangikjöt sem reykt var á staðnum.  Einnig voru reykt lambarif borðuð ósoðin með rúgkökum og þótti lostæti.  Selshreifar þóttu mikið hnossgæti og voru þeir sviðnir og soðnir.  Það besta sem Sölvey man eftir, og var nokkurskonar sælgæti þess tíma, voru skófir af grjónagraut.  Ber voru tínd og borðuð út á skyr, en skilvinda var til á öllum bæjum í Fljóti, og eins voru þau sultuð til geymslu.  Einnig voru ber soðin niður í krukkur sama var gert við rabbabararætur.  Ekki var mikið um að silungur væri veiddur til matar og kann Sölvey ekki skýringu á því.  Þó ber að líta á að vatnið var leigt Tryggva Jóakimssyni í fjölda ára og sá Finnbogi bróðir hennar um að veiða og senda silung til leigutaka á Ísafirði.

Nú liggur leiðin niður grundirnar og hér er greinleg gata en betra er að fara svokallaða efri leið nær hjallanum, til að ekki þurfi að vaða bæjarána.  Brú liggur yfir ánna undir bænum Brekku. og þegar komið er að Grundarenda sem er rétt við skýli Slysavarnafélagsins sjást glögglega tóftir af fjárhúsum.  Þessi fjárhús voru ekki notuð af síðustu ábúendum í Fljóti en hafa sjálfsagt verið staðsett þarna til að stutt væri í fjörubeit.  Sagt er að snjóflóð hafi fallið á húsin og þau ekki verið endurbyggð eftir það.  Fjörubeit var þó stunduð að vetri til á þessum tímum og minnst Sölvey þess að fé var rekið í fjöruna undir Grundarenda til þessa.

Upp af fjárhúsatóftunum eru tvö urðarnef sem heita Efri- og Neðri-Hnaus.  Grasivaxnar lautir eru beggja vegna við hnausana og býr huldufólk í þeim.

Þar sem skýli Slysavarnafélagsins stendur nú voru naust Júlíusar Geirmundssonar og voru þau kölluð Krár.  Þar voru bátar settir og fiskur verkaður.  Aðeins lengra við stóra steina, voru naust Jóseps Hermanssonar, en steinarnir veittu töluvert skjól fyrir sjávaröldunni.  Seinna þegar farið var að róa stærri hluta úr árinu fluttu menn naustin utar í hlíðina þar sem betra skjól var fyrir sjávaröldunni, en þau munu aðeins hafa verið notuð síðustu ár búsetu í víkinni.

Ef gengið er eftir Kambinum allt að Atlastaðarós þá heitir Kríuborg Atlastaðamegin en Julluborg Tungumegin.

Fyrst birt 1.maí 2006

Athugasemd : Eftir að grein Gunnars Þórðarsonar var skrifuð, hefur sumarhúsum fjölgað í víkinni. Tunga er á samnefndri landareign en hin í hinu forna Atlastaðalandi, þó Skjaldabreiða og Brekka standi á jörðinni Geirmundarstaðir/Skjaldabreiða. Byggingar í stafrófsröð eru:

Anítubær  
Atlastaðir Sumarhús á Atlastaðahólnum, byggt (fyrst) 1969
Atlatunga Byggt 1993
Bárubær  
Brekka  
Júllahús  
Lækjabrekka  
Skjaldabreiða  
Tunga  
(Björgunarskýli)  

 

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA