Uppfært 3.des. 2018
Gönguleiðin frá Bæjarnesi að Tungu
Höfundur: Gunnar Þórðarson
Við tökum stefnuna á Bæjarnesið niður af Atlatungu og vöðum nánast beint í vestur, eða stystu leið yfir í Tungu. Best er að fara á fjöru og nær þá vatnið varla nema hnéhæð á meðalmanni. Fyrir þá sem vilja fara auðveldari leið, en lengri, skal bent á Langanesvaðið (að fara “Á Skriðu”) skammt frá. Þá er gengið út á ysta odda Langanessins og þaðan nánast beint yfir Ósinn.
Bakkinn Tungumegin sem við stefnum á heitir Ósbakki og tanginn Barnanes og flötin innan við Tunguá er kölluð Barnatún. Við göngum sem leið liggur út með Ósnum og á hægri hönd eru miklir sandhólar og ber þar hæst Julluborg sem í fyrndinni var uppsátur Tungumanna, en hefur í seinni tíma ekki verið nothæf sem slík, en þar vestur af heitir Tungusandur en sandhólarnir heita Þúfur.
Beint á móti Julluborg er Kríuborg Atlastaðamegin en kamburinn meðfram sjónum heitir einfaldlega Kambur.
Fljótlega erum við komin að Tunguá sem við sveigjum upp með. Hér liggur greinileg gata framan við ána í áttina að Tungudal, þangað sem ferðinni er heitið. Eftir stutta göngu komum við að Grjótodda sem er gamall fjörukambur með vel rúnnuðu grjóti af sínauði sjávar í brimasamri víkinni. Gönguslóðinn liggur nú meðfram Grjótodda og utan við hann má greina lendingastað flugvéla Ingólfsbræðra sem notuð var fyrir tíð lendingastaðarins við Drápslæk Atlastaðamegin. Utan árinnar heitir Réttarholt og eru þar tóftir af gamalli rétt.
Þegar gengið er hér í góðu veðri er engu líkara en Tungudalurinn opni faðminn á móti göngumanni og vilji umvefja hann og bjóða hann velkominn. Kóngarnir, sem eru klettahnúkar miklir, halda um Tungudal í vestri og undir þeim neðar blasa við Ingunnarklettar. Það þótti manndómsvíxla hér áður fyrr í fyrstu að ganga undir þeim og síðar ofan klettanna. Dálítið klettafell er neðan til við efstu brún vestast í dalnum sem heitir Nónfell. Tunguhorn heldur um dalinn í austri og þar innaf er Miðmundarfjall og neðan við klettabeltin við dalsmynnið er kallað Enni, enda minnir það á hrukkað áhyggjufullt enni.
Meðan við stöldrum hér við er rétt að nefna nokkur örnefni í dalnum sjálfum. Bæjarstæði Tungu blasir við og sést hér vel hvernig nafngiftin hefur orðið til. Tunguáin skiptir sér og sameinast aftur neðar og myndar þannig tungu sem bærinn hefur staðið á. Barðið þar sem bærinn stóð heitir Bæjarhjalli og er úr þykkum mó og hefur áin grafið hér tvær geilar í það og myndað nokkurskonar hóla. Heitir Bæjarhóll á milli ánna og fyrir framan hana er Ærhóll . Utan við Bæjarhólinn eru ónefndur hóll sem þó eru tóftir á.
….. Utan í Ærhól er álagablettur sem ekki mátti slá og segir sagan að bóndi nokkur sem það gerði tapaði 3 gimbrum……
Uppaf Bæjarhjalla er Nauthjalli, lengra fóru naut ekki, sem er stærsti hjallinn, gróinn að ofan en klettar að framan og nær þvert yfir dalinn. Síðan er Miðhjalli og að lokum Vatnshjalli sem er grýttur og stystur af þeim. Ef við færum okkur vestan megin í dalinn heitir Langholt ofan við bæjartúnið og þar liggur vegurinn upp á Tunguheiði. Á Langholti voru mógrafir Tungumanna en mórinn þótti afbragðsgóður, sumstaðar 3-4 metra þykkur, svartur og harður sem kol og var kallaður steinmór. Svæði þetta var kallað Grafir.
Af holtinu byrja svo brekkurnar upp Kóngahlíð og heitir sú neðsta Langholtsbrekka og svo er efst í hlíðinni löng og há brekka sem heitir Klifbrekka. Seinni tíma heimildir tala um Hærri kvos og Neðri kvos. Neðri kvosin fyrir ofan Langholt og Hærri kvos þar sem er kallað Ranghali. Þá tekur við lítil brekka sem heitir Kvígildisbrekka, en lengra gekk kvífé ekki, og þar ofar er Ranghalabrekka sem liggur upp í Ranghalann, sem er lægðin bak við Nónfellið. Upp úr Ranghalanum er stutt brekka sem heitir Kjölbrekka og þar upp af er Tungukjölur. Vel má greina götuna héðan séð þar sem hún liðast upp á toppinn á Nóngilsfjalli. Hér er gatan hlaðin af mannhöndum og munu bændur í Fljóti hafa hlaðið hana í atvinnubótavinnu í kreppunni.
Áður en lengra er haldið er rétt að beina sjónum okkar út fyrir Tunguá og heitir þar Réttarholt en þar var áður fjárrétt. Undir Ingunnarklettum út við sjóinn eru Tunguhólar og heitir miðhóllinn Hjallhóll og má greina tóftir á honum. Ef litið er fram dalinn má greina Mávavötn en þau heita Efra Mávavatn, Neðra Mávavatn, Fremra Mávavatn og Heimra Mávavatn.
Höldum nú heim í Tungu. Enn liggur stígurinn með ánni og fljótlega komum við að þeim stað sem hún sameinast aftur eftir að hafa kvíslast ofan við Bæjarhjallann. Ef litið er í átt að Tunguhorni má greina litla vörðu og er gott að vaða lækinn þar til að komast yfir á “tunguna”. Þegar gengið er í átt að Bæjarhólnum komum við fyrst að tóft á hægri hönd sem var reykhús. Bærinn í Tungu stóð fremst á hólnum en dálítið ofar er önnur tóft sem var fjárhúsið. Síðustu ábúendur hér voru hjónin Vernharð Jósepsson og Þórunn María Friðriksdóttir sem leigðu jörðina af Sölva Betúelssyni á Hesteyri frá 1935 – 1945 þar til þau keyptu Geirmundastaði af Geirmundi Júlíussyni skömmu áður en víkin lagðist í eyði 1946. Þá hafði Vernharður rétt lokið við að byggja upp fjárhúsin sem þóttu með þeim reisulegustu sem þekktist í þá daga. Á hólnum framan við Bæjarhól má greina tóftir en þær eru af súrheysgryfju sem Vernharður útbjó.
Utan við Bæjarhólinn er þriðji hóllinn en þar stóð bær Ólafs Friðbjarnarsonar. Ólafur fluttist ungur maður til Fljótavíkur 1936 eftir að hafa lokið námi í búfræðum frá Hvanneyri. Hann hafði kynnst konu sinni, Binnu, sem var kennari á Látrum en hún var hálfsystir Vernharðs og samfeðra. Þessi menntaði búfræðingur sá mikla möguleika á ræktun í Tungu, enda miklar gresjur og sléttur sem hann taldi kjörnar til að rækta upp góða bújörð á. Hann var fullur af hugmyndum um jarðabætur og óþreytandi að koma að nýjungum hjá bændum í Fljóti. Í fyrstu var honum tekið fálega og menn ekki ginkeyptir fyrir nýjungum en fljótlega fóru þeir þó að taka mark á honum. Víða má sjá bæði að Atlastöðum og í Tungu, skurði þar sem ræstar voru mýrar, og ef einhverra hluta vegna menn urðu verklausir var farið í að grafa skurði á höndum. Einnig má sjá herfi að Atlastöðum sem Ólafur fékk menn til að kaupa og var það m.a. notað við að rækta upp kartöflugarða. Í fyrstu notuðu bændurnir í Tungu sameiginlega eldhús en síðar byggði Ólafur upp hjá sér en fáum árum seinna brunnu öll húsin ofan af þeim hjónum og fluttist Ólafur þá til Siglufjarðar.
Sjósókn var erfið frá Tungu þar sem hvergi var skjól til að lenda bátum. Uppsátur Tungumanna var því undir Atlastaðahlíð og töluverð vegalengd og óhagræði að fara yfir Ósinn til sjósóknar. Vernharð gisti því oft Atlastaðamegin, venjulega hjá vini sínum Geirmundi Júlíussyni, milli róðra enda hvíldin nauðsynleg við mikið strit á litlum árabátum.
Lýsing Þorvaldar Thoroddsen
Í ferð sinni um Hornstrandir 1886 lýsir Þorvaldur Thoroddsen aðkomu sinni í Fljót.
“Í Fljótunum er allmikið undirlendi, og sýnist vera grösugt í fljótu bragði, en mjög er jurtagróður hér kyrkingslegur og jurtategundir og vaxtarlag þeirra líkt eins og í Grímsey eða í grasblettunum við Ódáðahraun. “…..” Hér er mjög harðindalegt, og oft koma hér stór hret um hásumar, einkum þegar ísinn er að hrekjast fyrir landi. Seinast í júlímánuði í sumar var veður fremur kaldranalegt á Ísafirði og syðri fjörðum, frost á háheiðum, og snjóaði efra, svo gránuðu fjallabrúnir. Þá lá snjór á túnum í Fljótum í sex daga, og varð að gefa kúm inni.”
(Ferðasögur frá Vestfjörðum sumarið 1886, II bindi, Þorvaldur Thoroddsen, Snæbjörn Jónsson & CO. H.F. önnur útgáfa 1959)
Rétt er að vekja athygli lesanda á að Þorvaldur talar um Fljót í fleirtölu og er það upphafið af því að kalla víkina Fljótavík, en áður hét hún Fljótsvík sem að sjálfsögðu er réttara. Ekki er ljós ásæða þess að jafn hæfur og virtur fræðimaður og Þorvaldur fer svo rangt með og verður valdur af því að breyta örnefni til framtíðar, en helst er talið að hann hafi ruglað saman við Fljótin á Tröllaskaga.
Þorvaldur segir að þá hafi búið í Tungu Betúel Jónsson sem var efnaðasti bóndinn í víkinni. Segir hann að Betúel hafi séð sér svo vel fyrir heyjum haustið áður og sett svo mátulega á, að hann missti enga skepnu.
“Á Atlastöðum féll flestallt og á Glúmstöðum hver skepna. Bændurnir á Atlastöðum höfðu sér nú báðir sér til viðurlífis eina kú, fáeinar kindur og einn hest. Kýrin undi svo illa hag sínum og einverunni, að hún í hvert skipti, sem hún kom út, tók undir sig stökk og synti yfir ósinn til að þess að heimsækja stallsystur sínar tvær í Tungu. Mér varð starsýnt um morguninn á að sjá kúna koma syndandi yfir ósinn og tvo stráka tvímenna á eftir á einu bikkjunni sem til er á Atlastöðum. Þetta set ég hér til þess að sýna, hvaða eymdarlíf þessir fátæklingar hafa hér á hala veraldar.”
Þorvaldur segir heimamenn hafa róið til fiskjar við óblíðar aðstæður út í opið Íshafið og erfið lendingarskilyrði, en lítið veitt annað en skötu enda hún hangið í öllum hjöllum og lítið sem ekkert af öðrum fiski.
Gunnar skrifar áfram ….
Rétt er að minnast þess að fyrir tíð Vernharðs í Tungu bjó þar Hans Bjarnason, bróðir Þorleifs höfundar Hornstrendingabóka, ásamt fjölskyldu sinni og föður en hann hafði flust þangað 1926 að ráði Vilmundar Jónssonar læknis vegna snerts af taugaveiki. Veturinn sem Hans bjó í Tungu var mjög snjóþungur og hann ekki mikill búmaður. Hann hafði brennt nánast allt sem lauslegt var og hluta af útihúsum til að halda á fjölskyldunni hita. Ekki hafði verið heyjað fyrir skepnurnar, sem aðeins töldu fimm kindur, en Júlíus Geirmundsson á Atlastöðum segir frá því þegar hann og fleiri komu þeim í hrísinn undir Svartahjalla, sem síðar verður getið, voru þær svo máttvana að þurfti að bera þær hluta af leiðinni. Þar undu þær sér vel um veturinn. Fólkið var síðan flutt á sleða, fyrir utan Hans sem gekk rösklega, yfir Háuheiði til Hesteyrar. Sex manns þurftu til að draga sleðann og var einn þeirra Geirmundur Júlíusson, en þetta munu vera síðustu hreppaflutningar á Íslandi. Þegar fólkið var flutt úr Tungu hafði það fengið skyrbjúg og var illa haldið og máttvana. Þrátt fyrir litla búmennsku voru Hans og Bjarni faðir hans skemmtilegir menn sem kunnu að kveða og spila og voru sérlega fróðir og góðir sögumenn. Minntust menn þess, þegar Bjarni kom yfir að Atlastöðum yfir há bjargræðistímann í slátturtíð og kvað rímur fyrir sláttumennina. Hann gaf sér tíma til slíks en hefði sjálfsagt betur tekið lífið af meiri alvöru. Hefur það þó verið andleg lyftistöng fyrir yngri mennina að skeppa yfir í Tungu þegar tími gafst til að taka spil eða kveðast á, en þeir færðu jafnframt fjölskyldunni mat sem Júlíus sendi til að halda lífi í fólkinu.
Þær systur Herborg og Bára Vernharðsdætur sem báðar muna eftir sér sem krökkum að alast upp í Tungu minnast þess þegar Júlíus kom ásamt fleirum til að spila vist við heimilisfólkið á bænum. Þetta mun hafa verið á annan í jólum og var þá spilað lengi fram eftir nóttu. Máttu börnin fylgjast með en ekki láta á sér kræla til að trufla ekki spilamennskuna. Herborg lýsir því þegar þær systur sátu á rúmgöflunum og reyndu að halda sér vakandi alla nóttina, en ekki mátti missa af þessari skemmtilegu tilbreytingu. Þær voru hreint rasandi á að mennirnir skyldu geta vakað til klukkan sjö um morguninn við spilamennskuna. Hinsvegar virðast konurnar sjaldan hafa gert sér dagamun í Fljóti en þó minnist Herborg þess að móðir hennar skrapp yfir á Atlastaði til að spjalla við konurnar þar.
Börnum kennd trúrækni
Eins og annar staðar í einsemd vetranótta var gott að vita af æðri máttarvöldum sem litu til með mannfólki í hörðum heimi. Ekki minnist Herborg þess að börnin væru hrædd með draugum eða forynjum en hinsvegar var þeim kennd trúrækni. Sigrún systir hennar minnist þess að faðir hennar lét þau börnin fara með bænir á kvöldin og sumar þeirra hafa aldrei birtist á prenti og virðast ekki þekkjast utan víkurinnar þó vel séu ortar.
Allir svefnárar mér falli frá
Flekkum vondra anda.
Sem Guðs og Maríu sé mér hjá
Svo kann mér ekkert granda
Börn ein yfir Kjöl – og til Ísafjarðar
Það er hollt fyrir ungt fólk nú á tímum að hugsa til þess þegar Bára fór 10 ára gömul með systur sína Sigrúnu, þá 5 ára, yfir fjallveg til Látra seint um haust, en ferðinni var heitið þaðan til Ísafjarðar. Bára var að fara til náms á Ísafirði en Sigrún þurfti að sækja lækningar í kaupstaðinn. Það hefur verið mikil byrði fyrir 10 ára gamalt barn að taka þannig ábyrgð á ungri systur sinni og sjá um hana að öllu leiti í erfiðu ferðalagi við ótryggar samgöngur. Á tímum þegar vinnandi hendur urðu stöðugt að færa björg í bú var einfaldlega ekki annað hægt og ekki möguleiki á fyrir foreldri að takast slíka ferð á hendur þó annað kæmi ekki til greina í dag.
Hvítt lak breitt á þakið
Herborg minnist þess hvernig fylgst var með tímanum í Tungu. Yfir hásumarið í heyskapnum var hádegi þegar sólin var yfir Tunguhorni þar sem bar í Ennið. Þegar klukkan var þrjú var hún yfir Nónfelli en klukkan sjö var hún komin yfir Kóngana. Þannig gat fólkið stillt saman tíman til að hvílast og matast saman. Einnig segir hún frá því að ef eitthvað kom fyrir heima á bæ, var breitt lak á bæjarþakið og þýddi það að fólk ætti að hraða sér heim. Eins ef ekki sást til sólar og fólk var t.d. í Gröfum að vinna mó, var lakið breitt á þakið til að kalla fólkið heim í mat.
Áfram með leiðarlýsinguna
Nú tökum við stefnuna til sjávar og göngum í brekkurótum þar sem sæmilega þurrt er, en miklir mýrarflákar eru undir Ingunnarklettum. Í víkurkrikanum undir Kóngunum er falleg fjallasýn, og gott að standa á gömlum jökulruðningum sem þarna eru og mynda stóra hóla sem kallast Hólarnir, og horfa út með Hvestunni. Fyrst ber við hlíð með klettaþræðingum og er Breiðhilla þeirra mest áberandi en síðan taka Hvestudalir við og vestar gengur Kambur alla leið í sjó fram. Þetta er klettarani sem myndar ófæru þannig að ekki verður fyrir komist. Lengra út með ströndinni, en sést ekki frá þessum stað, er Hvestuskál með vatni sem heitir Hvestuvatn. Hvestusker og Haugasker eru síðan skammt undan landi. Héðan séð eru Kóngarnir einkar tignarlegir þar sem þeir gnæfa yfir göngumanni og ekki laust við að manni finnist þeir valdsmannslegir. Ef horft er við rétt birtuskilyrði mynda skuggar andlit kóngsins undir klettunum.
Við göngum til baka fram víkina og þegar staðið er undir Ingunnarklettum og horft í norður, taka við miklir sandflákar alla leið að Julluborg. Hér hefur myndast stór dalur í sandinn þar sem sjá má greinilega gömul setlög sandsins þar sem grilla má í moldarlög inn á milli allt að meters þykk.
Höldum nú fram Fljótið og enn er best að halda sig í brekkurótum þar sem mikill mosi og ójöfnur eru á Bæjarhjallanum. Héðan sjást vel eldri bræður Grjótodda en greinilegir gamlir sjávarkambar með slípuðu grjóti liggja fram víkina. Framundan er Hvarf sem er sá staður þar sem bæirnir hverfa sjónum. Töluvert áður en þangað kemur göngum við fram á Silungalæk. Þetta er merkilegur lækur sem sameinast úr tveimur smærri lækjum, með töluverðu rennsli og fullur af lækjarlontum. Það sem gerir hann merkilegan er að á langri leið út í Ósinn hverfur hann reglulega undir yfirborðið og má sjá vatnsstrauminn þar sem hann hverfur sjónum. Tugum eða hundruðum metrum seinna dúkkar hann aftur upp, stundum sem vök en stundum til að liðast hundruð metra sýnilegur á yfirborðinu. Hófsóley vex meðfram læknum og gefur honum fallegt svipmót þar sem hann liðast niður Barnatún. Silungur gengur upp í lækinn enda er hann töluvert vatnsmikill og tær fram yfir mitt sumar.
Frá Hvarfinu er góð sýn yfir Stekkinn og Stekkjabreiður sem breiða sig austur frá bænum ofan á hjallanum. Einnig yfir Engi í norður frá göngumanni og eflaust hafa það verið þessar endalausu grónu sléttur sem heilluðu ungan búfræðing og fékk hann til að setjast að á afskektum stað eins og í Tungu. Í norðaustur frá Stekkjabreiðum teygir Vatnshorn sig og austan við það myndast vík við Ósinn sem heitir Tunguflói. Nes þetta var yfrileitt kallað Stagggarður í mynni þeirra sem síðast ólust upp í Fljóti. Upp yfir gnæfir Tunguhornið en niður undan því eru Tunguhjallar og enn neðar framundan að sjá er áður nefndan Svartahjalla. Hann er nánast orðin gróinn í dag en grillir þó í svarta kletta í honum hér og þar.
Land milli Hvilftaránna taldist “almenningur”
Framundan núna eru Hvilftarár en þær eru eyktamark Tungu og Glúmstaða. Árnar eru tvær og var áður fyrr ágreiningur um hvora ánna ætti að miða við. Sá Salómonsdómur var upp kveðinn að heimra megin við Heimri Hvilftará væri land Tungu en framan við Fremri Hvilftará væri land Glúmstaða en milli þeirra væri almenningur. Árnar renna úr Heimri Hvilftardal en í öðrum heimildum er talað um Kofradali, Vestari Kofradal og Eystri Kofradal.
Horft frá Tungulandi yfir í Atlastaðaland
Í góðu skyggni er gleðiríkt að skoða fjallasýnina handan fljótsins. Fremst eru Jökuldalir sem ná allt að Fljótskarði. Úr þeim renna Reyðár. Síðan tekur við Þorleifsdalur með Sniðöxl framar en Hvannadalshorn utar, og sést vel Þorleifsskarð sem liggur í Almenninga eystri. Síðan tekur við Hvannadalur en Dagmálahorn heldur um það í austri í því heitir Hvannadalsskarð en það mun ekki hafa verið notað til ferðalaga. Úr dalnum rennur Hvannadalsá og kemur í fljótið við Hvannáreyrar. Þar utar er Svínadalur sem Bæjarfjallið heldur um austanmegin og úr honum rennur Svíná. Greinilega má sjá héðan hvernig dalurinn skiptir sér í austur og heitir það Rangali en fjallgnípan á milli heitir Tafla. Breiðuskörðin blasa við sem er önnur leið yfir til Almenninga eystri á leið yfir Altaskarð til Hlöðuvíkur. Að lokum er það Bæjardalur sem Kögur heldur um í austri.
Við höldum nú göngunni áfram og enn erum við í brekkurótinni. Neðan við okkur verður lækur eða síki okkur samferða þar sem hann liðast endalaust fram dalinn áður en hann rennur í fljótið upp undir Glúmstöðum. Framundan blasir við Tröllafoss sem heitir eftir Glennu og Króknef sem sagt verður frá í gönguferð um Glúmstaði.