Til landeigenda Atlastaða

Hörður Ingólfsson

“Til allra þinglýstra eigenda Atlastaða”

Hörður ritaði þetta bréf 2.desember 2008 og það var birt á heimasíðunni 5.desember 2008.

_______________________________________________________

Eigendur Atlastaða eru fjölmargir en hafa því miður engan sameiginlegan vettvang eða félag til að fjalla um og gæta sameignlegra hagsmunamála.

 Skylda landeigenda að tilnefna fyrirsvarsmann fyrir Atlastaði

 Þann 25. apríl 2007 sendi Sýslumaðurinn á Ísafirði út bréf sem ætlað var landeigendum Atlastaða í Fljótavík. Bréfið varðar skyldu landeigenda að tilnefna sér fyrirsvarsmann. Texti bréfs sýslumanns er sýndur hér með grænum lit:

___________________________________________________________

TIL LANDEIGENDA JARÐA Í UMDÆMI SÝSLUMANNSINS Á ÍSAFIRÐI

 Landeigendum jarða sem eru í sameign og ákvæði jarðalaga nr.81/2004 gilda um, er bent á að skv. ákvæðum laganna ber þeim í neðangreindum tilvikum að skipa fyrirsvarsmann fyrir jörðina og þinglýsa þeirri ráðstöfun hjá sýslumanni.  Í 9. grein jarðalaga segir:

9. grein. Fyrirsvar jarða í sameign o.fl.

 Ef eigendur jarðar eða annars lands sem lög þessi gilda um eru fleiri en þrír fjárráða einstakingar eða lögaðili er þeim skylt að tilnefna FYRIRSVARSMANN sem hafi umboð til að koma fram fyrir hönd annarra eigenda jarðarinnar við úrlausn mála sem lúta að réttindum og skyldum eigenda, taka ákvarðanir um daglegan rekstur og hagsmunagæslu vegna sameignarinnar, minni háttar viðhald og viðgerðir, svo og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Fyrirsvarsmenn skal tilkynna til sýslumanns er þinglýsi þeirri tilkynningu á viðkomandi fasteign, svo og tilkynningum um breytingar á fyrirsvarsmönnum.

 Brjóti landeigendur gegn ákvæði 9. gr. jarðalaga er sýslumanni óheimilt að þinglýsa skjölum um aðilaskipti að jörðinni, sbr. ákvæði 54. gr. sömu laga, en þar segir.

 54.gr. þinglýsing.

 Óheimilt er að þinglýsa skjölum um aðilaskipti að fasteignum sem lög þessi gilda um, nema fyrir liggi að ákvæði laganna hafi verið gætt.”

 Sýslumaðurinn á Ísafirði

(Ritstjóri feitletrar inni í málsgreinum til að leggja áherslu á textann)

 ____________________________________________

Fyrir utan áskorun sýslumanns eru aðrar ástæður sem kalla á að landeigendur Atlastaða komi sér saman um sameiginlega hagsmunagæslu. Þær helstu eru raktar hér á eftir án þess að vera raðað eftir mikilvægi:

 Atkvæðisréttur Atlastaða í veiðifélagi Fljótavíkur er ónýttur

Landeigendur Atlastaða þurfa að koma sér saman um fulltrúa sem fer með atkvæðisrétt Atlastaða í veiðifélagi Fljótavíkur sem stofnað var í byrjun árs. Lög og reglugerðir um veiðifélög gera ráð fyrir að eitt atkvæði fylgi hverri jörð sem veiðirétt á í Fljótavík. Á meðan landeigendur skipa sér ekki fulltrúa er atkvæðisréttur Atlastaða ónýttur og er sú staða jafn bagalegt fyrir Atlastaði sem aðra landeigendur í Fljótavík.

Nýtt aðalskipulag verður samþykkt án athugasemda frá eigendum Atlastaða

Á vegum Ísafjarðarbæjar er vinna við fyrsta aðalskipulag Hornstranda komin á lokastig. Í skipulaginu verða ákvæði sem ramma inn fyrirkomulag á byggingu sumarhúsa í Fljótavík með takmarkanir um fjölda og húsagerð svo eitthvað sé nefnt. Á undirbúningstíma skipulagsins hafa landeigendur Atlastaða ekki átt neina beina aðild að þeirri vinnu eða í ákvarðanatöku sem skipulagið hefur í för með sér. Enginn aðili hefur getað komið fram fyrir hönd Atlastaða og gert athugasemdir við þau drög að skipulagi sem birt hafa verið. Í drögunum eru ákvæði sem ganga skýrt gegn hagsmunum og vilja landeigenda. Sem stendur veltur það á einsökum landeigendum að gera athugasemdir.

 Væntanlegum kröfum Þjóðlendunefndar árið 2010 verður ósvarað

Fyrir liggur, að árið 2010 mun þjóðlendunefnd taka Vestfirði fyrir og gera kröfur fyrir hönd ríkisins í þjóðlendur, og þar með einnig á Hornströndum. Reynslan hefur sýnt að víðast hvar hafa jarðir tekið sig saman og stofnað félög til að verja eignarrétt sinn. Til að gæta hagsmuna Atlastaða þurfa þinglýstir eigendur jarðarinnar að taka af skarið og koma sér saman um sameiginlega hagsmunagæslu, ella verða kröfur nefndarinanr samþykktar með þögninni.

 Hvað er til ráða?

Eftir að hafa skoðað hvaða leiðir eru mögulegar úr þeirri ófæru sem landeigendur Atlastaða eru í varðandi sameiginlega hagsmunagæslu og margskipta landareign er það niðurstaða bréfritara að aðgengilegasta lausnin sé að landeigendur tilnefni fyrirsvarsmann sem komi fram fyrir hönd allra hinna, eins og kveðið er á um í jarðarlögum, frekar en að fara þá leið að stofna til landeigendafélags eða stofna hlutafélag utan um landareignina.

Tilnefning fyrirsvarsmanns felur ekki í sér afsal á eignum eða ráðstöfunarrétti landareignar.

Fyrirsvarsmaður getur ekki skuldbundið aðra landeigendur nema með skriflegu samþykki þeirra.

Landeigendur geta seinna ákveðið að breyta fyrirkomulaginu t.d. með því að stofna

landeigendafélag, en með því að skipa strax fyrirsvarsmann er grunnurinn lagður með fyrsta

skrefinu og brýnasti vandinn leystur. Þá verður loks til farvegur fyrir sameiginleg

hagsmunamál Atlastaða.

 Hvernig skipum við sameiginlegan fyrirsvarsmann?

Þegar þetta er skrifað eru þinglýstir landeigendur að Atlastöðum um 93 talsins. Hvernig velja megi einn úr þeim hópi til að fara fyrir landeigendur er eflaust ekki auðvelt mál því skoðanir á mönnum og málefnum hljóta að vera skiptar meðal þessa hóps eins og annara. Sú leið sem hér er verið leggja til er að virkja internetið og tölvupóst til að koma á samskiptum milli sem flestra landeigenda um þetta mál. Aðrar leiðir eru nánast ófærar.

Tekinn hefur verið saman listi yfir landeigendur sem inniheldur helstu upplýsingar, svo sem heimilisfang og svo öll netföng sem þeim tengjast. – Listinn fylgir bréfinu sem viðauki. (því bréfi sem Hörður sendi beint á landeigendur—áá). Af 93 eigendum eru 66 með skráð netföng (70%) eða netfang hjá tengilið í fjölskyldu sem kemur upplýsingum áfram til landeigenda. Til viðbótar eru á lista 72 netföng hjá afkomendum og fjölskyldum landeigenda. Sameiginlegur netfangalisti inniheldur um 138 netföng. Með póstlagningu bréfa til 11 aðila, nást samskipti við 90% landeigenda.

Sú ábyrgð fellur á móttakandann (þig) að lesa bréfið og kynna þér málið; fá umræðu af stað og koma með tillögur og viðbrögð við bréfinu. Þögn og afskiftaleysi eru ekki gildur valkostur.

Uppástungur um einstaklinga óskast!

 Hér með er óskað eftir uppástungum frá ykkur landeigendum um einstakling sem kemur til greina sem fyrirsvarsmaður Atlastaða. Fyrirhugað ferli á útnefningu fyrirsvarsmanns verður eftirfarandi:

1)    Uppástungur um nöfn viðkomandi sendist til bréfritara á netfangið hoin@simnet.is

2)    Listi með nöfnum þeirra sem stungið er uppá verður sendur til baka á netfangalista

Atlastaða ásamt helstu upplýsingum um viðeigandi eintaklinga og hve margir

landeigendur stungu uppá viðkomandi. (Allir verða upplýstir um tillögurnar).

3)    Þegar einn einstaklingur hefur stuðning meira en 50% landeigenda (miðað við

eignarhlut) telst sá vera samþykktur sem fyrirsvarsmaður landeigenda.

 4)     Aflað verður skriflegrar staðfestingar landeigenda á fyrirsvarsmanni og

staðfestingunni komið til Sýslumannsins á Ísafirði til þinglýsingar. – staðfestingarskjal

verður sent til landeigenda í tölvupósti til undirritunar.

Það er ekki eftir neinu að bíða með að hefja umræðuna, og svara þessum tölvupósti með uppástungu við fyrsta tækifæri. Allar upplýsingar sem sendar verða bréfritara verður farið með sem opinberar upplýsingar (ekki trúnaðarmál) og verða aðgengilegar öllum sem tengjast Atlastöðum í Fljótavík.

Ykkur er velkomið að senda mér tölvupóst með spurningum eða ábendingum.

 Með bestu kveðju og von um jákvæð viðbrögð.

Akureyri 2. desember 2008

 Hörður Ingólfsson

Þverholti 12, 603 Akureyri

 

 

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA