Dvöl í Fljótavík – á Þorra árið 2003

Bogga Venna og Einar Már Gunnarsson um borð í Patton. Hluti af Tungulandi í baksýn
Bogga Venna og Einar Már Gunnarsson um borð í Patton. Hluti af Tungulandi í baksýn

Frásögn Vernharðs Guðnasonar, að mestu orðrétt úr gestabók Atlatungu á nefndum dögum. 

 Á Patton voru Einar Már Gunnarsson og Sævar Óli Hjörvarsson (í báðum ferðum) en með í seinni ferðinni var einnig Þorsteinn Tómasson sem tók aðrar myndir en þá síðustu,  birtar með leyfi hans, en afritaðar úr frétt  www.bb.is.

Laugardagur 8.febrúar 2003 :   Langþráður draumur er loksins að rætast. Bogga og Venni komin „heim“ á sjálfum Þorra. Rekja má upphaf þessarar ferðar aftur til ársins 1994. Þá varð Bogga samferða mér frá Ísafirði suður til Reykjavíkur. Höfðum við tekið okkur far með Fagranesinu inn í Djúp til að losna við firðina. Er við fylgdumst með glæsilegu útsýninu á leið Faggans fyrir Arnarnesið, datt upp úr mér að það væri gamall draumur að fara til Fljótavíkur yfir hávetur og upplifa víkina á þeim árstíma, með öllu sem því getur fylgt. Bogga var nú ekki sein á sér að tjá mér að hún hefði hugsað þetta í mörg ár – bara ekki þorað að nefna þetta við nokkurn mann af ótta við að verða send til dvalar við sundin blá. Þetta var rétt eftir páskahelgina og veðrið alveg frábært, og að sjá yfir fjöllin var greinilega sólskin í Fljóti. Hvað annað?

Þarna á efsta þilfari Faggans tók Bogga af mér það loforð að ef ég færi, þá kæmi hún með.

Það var svo skömmu eftir sjötugsafmæli Boggu árið 2002 að ég færði henni gjafabréfið fyrir Fljótarvíkurferð í endaðan janúar eða byrjaðan febrúar 2003, – og hér erum við komin.

Ferðaáætlunin hljóðaði upp á  að Einar Már Gunnarsson ásamt Sævari Óla Hjörvarssyni myndu fara með okkur á Pattoni frá Ísafirði þann 7.febrúar 2003. Þar sem vestan bræla hafði verið ríkjandi dagana á undan, reyndist ófært sjóleiðina þann dag.

Það var svo kl. 12:50 þann 8.febrúar að við lögðum af stað frá smábátahöfninni á Ísafirði, í hægum suð-vestan. Ferðin sóttist mjög vel þrátt fyrir talsverða undiröldu, sem aftur gerði okkur áhyggjufull um það hvort lendandi yrði í Fljóti.

Sá ótti reyndist ástæðulaus. Reyndar var smá kvika og brim en ekkert til að hafa áhyggjur af. Sævar kom með okkur í land og höfðum við band út í Patton til að auðvelda Sævari að fara út aftur. Landtakan gekk mjög vel – við sættum lagi og náðum öllu þurru í land.  Við lentum í fjörunni ca 300 metrum utan við „stóru steinana“. Eftir að hafa þakkað Sævari og kvatt, ýttum við honum á flot og Einar dró hann út úr briminu á Patton. Allt hafði gengið að óskum. Ekki þarf að taka það fram að það var  sólskin í Fljóti (það eru vitni því til staðfestingar).

Við byrjuðum á að koma dótinu frá sjó og síðan inn í skýli. Þegar kom að skýlinu sáum við að ytri hurðin lá frammi á kambinum og innri hurðin var opin. Töluverður snjór var á gólfi skýlisins. Byrjuðum við á að moka út og loka til bráðabirgða. Fundum því næst snjóþotu og stöfluðum öllu okkar hafurtaski þar á og beittum síðan mér fyrir og Bogga gætti að jafnvægi á öllu dótinu. Af afloknum kakósopa lögðum við í hann fram að Atlatungu.  Ferðin gekk ljómandi vel og þurftum við ekki að hagræða hlassinu nema einu sinni á leiðinni. Þess má geta að í ljósi sögunnar var haglabyssa höfð með í för, til verndar ferðalöngum. Ekki hefur reynt á hana enn og gerir væntanlega ekki.

Aðkoma að húsinu var mjög góð og allt virtist í fínu standi. Ekki leið á lögu uns rjúka tók frá ofni og kaffiilmur fyllti loftið. Það var um kl. 17:30 sem við vorum komin með allt okkar í hús, þannig að af því sést að allt gekk mjög vel.

Þetta kvöld hituðum við dýrindis saltkjötskássu sem Bogga hafði útbúið og haft með. Restin af kvöldinu var notuð til að koma okkur vel fyrir , búa um rúm og annað það er þurfti að gera. Síðan var settst að spjalli og drukkinn kaffisopi eftir að hafa náð sambandi við „19“  (Aths. 1) til að láta vita af okkur. Sambandið var nokkuð erfitt sökum erlendra kjaftara og annarra truflana í loftinu.

Sævar Óli Hjörvarsson siglir með Boggu, Venna og ekki má gleyma Tinnu frá Atlastaðalandi að Patton
Sævar Óli Hjörvarsson siglir með Boggu, Venna og ekki má gleyma Tinnu frá Atlastaðalandi að Patton

 Sunnudagur 9.febrúar 2003:   Vöknuðum fyrir allar aldir, alla vega miðað við Fljótavíkurtíma, þ.e upp úr kl. átta. Rjómablíða og um tveggja stiga hiti og nokkuð bjart. Að afloknum morgunverði fengum við okkur morgunlúr að hætti Móru  (Aths.3). Ákváðum eftir hádegi að finna vatnslögnina og tengja inn á húsið. Eftir töluverða leit og nokkrar holur fannst slangan og grófum við hana upp. Kom á daginn að kraninn á endanum hafði verið skilinn eftir lokaður og allt því frosið í slöngunni. Það urðu nokkur vonbrigði að geta ekki komið vatni á húsið. En í veikri von að okkur tækist að þýða úr slöngunni, settum við undir hana, þannig að hún lægi ekki í snjónum. Þá er bara að bíða og sjá, því það spáir hláku næstu daga.

Eftir snjómokstur og slönguleit bjó ég mig út með verkfæri til að laga hurðina á skýlinu. Gekk það ljómandi vel og tel ég að viðgerðin ætti að halda í vetur, en nauðsynlegt er að fá nýja hurð og lokunarbúnað á skýlið. Munum við taka mál af hurðinni og koma því til hlutaðeigandi.

Restin af deginum fór svo í að sýsla við eldivið og annað smálegt. Göngutúr að hinum húsunum leiddi í ljós að allt þar virtist í stakasta lagi.

Ég fór líka niður að óskjafti. Mikið brim var fyrir landi en ósinn var samt opinn. Mjóstur var hann um það bil 10 metrar og mikill straumur þar, en varla gætir flóðs eða fjöru upp fyrir Kríuborgir.

Ég athugaði einnig lendingarmöguleika fyrir flugvél í fjörunni. Sýnist mér það gerlegt á háfjöru og þá eins nálægt sjó og hægt er. Sandurinn er gljúpur ofar í fjörunni. Frá flakinu af Gunnvöru og um 400 metra inn eftir fjörunni ætti að vera hægt að lenda, sé vindur skaplegur.

Sjóalög eru með minnsta móti og víða eru grasbalar upp úr og jafnvel töluverð græn slikja á gróðrinum.  Af þessu má draga þá ályktun að þessi vetur hafi hingað til ekki aðeins verið snjóléttur heldur líka mildur í alla staði. Ósinn er auður töluvert inn fyrir Bæjarnesið og sá ís sem er á vatninu virðist ótraustur.

Í kvöldmat grilluðum við lambalæri í grillhúsi Boggu. Slegið var upp veislu með bökuðum kartöflum og öðru meðlæti. Hljómar hálf ótrúlega hér í febrúar en staðreynd engu að síður.

Þó ótrúlegt megi virðast, sátum við eftir uppvask og frágang til klukkan 3 um nóttina, spjallandi um gamla daga og annað það er Bogga taldi nauðsynlegt að fræða frænda sinn um.

Þess má geta að ekkert talstöðvarsamband náðist sökum truflana. Biðum við svo eftir vonda veðrinu sem búið var að spá, en eitthvað lætur það á sér standa.

Mánudagur 10.febrúar 2003:   Veðrið kom. Klukkan tíu mínútur yfir átta kom kviða sem náði að vekja mig, og þarf nú töluvert til. Versnandi verður fram undir hádegi með ansi öflugum strengjum. Horfðum við Bogga nokrum sinnum á ísinn á vatninu fjúka. Meira að segja mynduðust hljóð í húsinu sem Bogga hafði aldrei heyrt áður. Það fór að draga nokkuð úr vindi þegar leið á daginn, en þó komu stöku sinnum rokur, svona eins og til að minna okkur á að við værum eftir allt, nokkuð háð veðri og vindum.

Vorum í sambandi við „19“ í hádeginu og töluðum bæði við mömmu og Ingólf. Allt gott að frétta að heiman og sögðum við frá grillveislunni kvöldið áður, ásamt því hversu frábært er hér hjá okkur í Fljóti. Annars var morgninum eitt í bókalestur og að fylgjast með veðrinu.

Eftir hádegi var farið út til að reyna að koma einhverju viti í vatnsmálin. Tók kranann af slöngunni og náði töluverðu af klaka úr henni, en þó ekki nógu til að losa klakastífluna. Gafst upp við svo búið, enda orðinn verulega vindbarinn og rennblautur.

Um kaffileitið, sátum við Bogga og vorum að fá okkur í svanginn og hlusta á fjögurfréttir. Allt í einu heyrum við að Jói Baddi byrjar að flytja frétt um að Herborg Vernharðs dveldist nú í sumarhúsi sínu norður í Fljótavík, ásamt systursyni sínum. Þetta væri síðbúin sjötugsafmælisgjöf. Síðan var talað um vel heppnaða grillveislu í blankalogni. Við áttum von á ýmsu, en alls ekki þessu og litum við bara á hvort annað og hlógum.

Þegar samband náðist við „19“ um kvöldið reyndum við að grennslast fyrir um heimildarmanninn en fengum það svar að það væri leyndarmál og yrði ekki gefið upp. Það læðist að okkur sá grunur að húsbóndinn á efri hæð „strætis 19“, sé nú ekki alveg saklaus í þessu máli. En hvað um það – það var rosalega gaman að heyra þessa frétt.

Eftir kvöldmat, fórum við út aftur og nú skyldi gerð lokaatlaga að frosnu vatnslögninni. Fyrr um daginn hafði ég tekið lögnina í sundur og sömuleiðis grafið hana úr fönn langt upp á tún til að freista þess að hlýindin hjálpuðu til. Viti menn: Þegar ég var búinn að hrista og skaka slönguna nokkrum sinnum, ældi hún út úr sér nokkrum kílóum af ís og vatnið fór að renna. Þá var bara að setja hana saman aftur og tengja inn á húsið. Tókst það vonum framar og þrátt fyrir myrkur, rok og rigningu, enda naut ég aðstoðar Boggu sem gat sagt frænda sínum hvernig best væri að bera sig að. Bogga lýsti með vasaljósi og ég tengdi. Allt gekk upp nema að það vantar þrýsting á vatnið. Annað hvort hefur komið gat á lögnina eða það er enn klaki í henni. Við skoðum það nánar á morgun. Nú er kominn „rakkatími“ og svo í háttinn.

Þriðjudagur 11.febrúar 2003:   Vaknaði snemma – meira að segja miðað við venjulegan tíma. Dundað við sögur og kennileiti þar sem fásagnargleði húsfreyjunnar í Atlatungu naut sín sérstaklega vel. Þvílíkur munaður að dvelja hér. Hægt að bregðast við „nappattack“, nánast hvenær sem er, og öðrum þeim þörfum er skyndilega gera vart við sig, svo sem svengd og kaffiþorsta.

Eftir hádegi var komin rjómablíða og stóðu fjöllin á haus í ósnum. Fórum í frekari vatnsveituvinnu, til að reyna að fá aukinn þrýsting. Grófum lögnina meira upp og hristum úr henni klaka. Ekki virðast hafa komin nein göt á hana. Við erum búin að grafa hana upp, langt upp á tún. Lentum í basli með að koma henni saman aftur, þar sem okkur tókst ekki að fá samsetninguna þétta, fyrr við uppgötvuðum að gúmmípakkningin var týnd. Höfðum ekki trú á að við myndum finna hana aftur eftir allan vatnselginn í snjónum, enda hafði stórt svæði breytst í krapa. En – viti menn. Eftir  skamma leit fundum við pakkninguna og gátum komið lögninni saman aftur og er mun betri þrýstingur á vatninu nú. Eftir vatnssullið þurfti ég að komast í hús til þurrkunar og fá yl í kroppinn.

Seinni partinn fórum við í göngutúr niður að óskjafti og þaðan inn að Gunnvöru. Lítið sem ekkert virtist renna úr ósnum, vegna mikils brims. Óskjafturinn er nú heldur ekki nema 7-8 metrar á breidd þar sem hann er mjóstur. Ósinn er enda bakkafullur.

Við athugun á aðstæðum til lendingar, sýndist okkur að ef ekki versni, verði vel reynandi að sæta lagi til að komast fram.

Er heim kom, var enn slegið upp veislu. Nú var soðinn hangiframpartur með uppstúf, kartöflum, rauðkáli og Bíldudals grænum (reyndar bara Ora grænar). Snætt við kertaljós og vantaði ekkert nema jólatré, og malt og appelsín, til að ná fram alvöru jólastemmingu. Restin af kvöldinu fór í frágang, rakka og sögustundir.

Um klukkan hálf eitt fór ég til að hleypa Tinnu út, sem ekki er í frásögu færandi, nema fyrir það að beint fyrir framan útidyrnar, stendur Rebbi og er að gæða sér að blönduðum ávöxtum sem Bogga hafði hent út á skafl fyrr um daginn. Rebbi var ótrúlega rólegur og fór ég inn aftur til að láta Boggu vita. Hún ætlaði nú ekki að trúa mér, en varð að gera það, þegar hún stóð augliti til auglitis við vin sinn. Ég bauð Boggu að skjóta Rebba en hún aftók það með öllu þannig að ég lét mér nægja að siga Tinnu á Rebba. Hún elti hann niður að ós og lét þar við sitja. Fuglavernd hvað?!

Miðvikudagur 12.febrúar 2003:   Sennilega er komin í mann ferðahugur, því ég var komin fram í morgunmat og til að taka veðrið um klukkan sex. Reyndi  að gera mér í hugalund, hvernig liti út með heimferð. Miðað við ástandið á þessum tíma leit það ekki vel út. Enn var hann bálhvass úr suð-vestri og örugglega ekki fýsilegt að reyna lendingu.

Ég var búinn að tala við mömmu, kvöldið áður um að vera í sambandi klukkan ellefu. Fór inn aftur um kl. 8 og náði að sofa yfir mig, því ég vaknaði ekki fyrr en um klukkan hálf tólf. Um tólf, reyndum við að ná sambandi vestur, en það voru svo miklar truflanir í lofti að ekkert heyrðist. Að sjá, var haugasjór langt inn á vík og alls ekki árennilegt að sigla fyrir Straumnes. Mjög var óþægilegt að hafa ekki náð sambandi heim, því við vissum ekki hvort lagt hefði verið af stað frá Ísafirði til að sækja okkur. Heldur þótti okkur það samt ólíklegt, miðað við sjólag. Við gerðum samt allt klárt í að geta yfirgefið húsið með stuttum fyrirvara. Er kom fram á daginn, ákvað ég að fara út að sjó og skoða aðstæður og reyna að ná sambandi í gegn um stöðina í skýlinu. Er ég kom út að sjó, staðfestist það sem mig hafði grunað að nánast ólendandi var, en þó með áræðni og lagni, mætti reyna. En erfitt yrði það.

Ekki tókst mér að ná neinu sambandi úr skýlinu. Reyndi bæði Siglufjarðarradíó og einnig togara sem ég sá úti fyrir Straumnesi. Lítið gagn var því af þessari  „neyðartalstöð“. Fór við svo búið heim aftur.

Venni Guðna og Tinna komin um borð í Patton að lokinni Þorradvöl í Fljótavík
Venni Guðna og Tinna komin um borð í Patton að lokinni Þorradvöl í Fljótavík

Á leiðinni kom ég við á sandinum við Bæjarána, þar sem tjörnin myndast stundum. Þar er að mínu mati príðisaðstaða til að lenda flugvél. Rennislétt ca 300 metra braut og ekki markaði í „snjóísinn“ þó ég hoppaði og trampaði  – og til eru léttari menn en ég. Gæfist veður væri vel reynandi að fá Halla til að ná í okkur. Reyndar gefur veðurspáin engin fyrirheit um það, þannig að það er orðin staðreynd að við Bogga „sitjum í Fljóti“,  og getum ekki annað. Áætlunin hljóðar upp á að reyna sjóleiðina á morgun. Ef ekki gengur  – er hugsanlegt að við göngum yfir á Hesteyri á föstudag og verðum sótt þangað. Jafnframt er Jósef frændi að kanna hvort gæslan er í grennd og hvort þeir geti sótt okkur og kíkt á stöðina í skýlinu í leiðinni. Kemur í ljós.

Náðum sambandi í kvöldmatnum við „19“ og fengum þessar fréttir, og gátum látið vita að það væsti ekki um okkur hér í Atlatungu. Það er ljóst nú þegar, að ég er að verða manna fróðastur um lífið í Fljótavík. Þökk sé frænku.

Fimmtudagur 13. febrúar 2003:   Vaknaði fyrir átta til að taka veður og spá í spilin. Heldur er hann hægari, og í birtinu kom í ljós að sjór er alveg dottinn niður.  Ætluðum að vera í sambandi við „19“ klukkan 10, en ekkert heyrðist þaðan. Sjáum til hvort við náum ekki sambandi klukkan 12.  Frá okkur séð, virðist sjóleiðin vera vel fær.

Ekki náðist samband við „19“ í hádeginu sökum truflana í lofti. Ég er að vona að strákarnir leggi af stað frá Ísafirði til að sækja okkur þrátt fyrir þetta lélega samband. Bíðum bara og sjáum til. Erum   tilbúin að fara fram að sjó, með engum fyrirvara.

Þessi tími sem við Bogga erum búin að dvelja hér í Fljótavík, er búinn að vera alveg einstakur. Að vera hér á þessum árstíma er eitthvað sem hefur verið fjarlægt í huga manns, og því er það enn sterkari upplifun þegar kom að því. Okkur vitanlega hefur enginn dvalist í Fljótavík á þessum árstíma, frá því að byggð lagðist hér af. Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að fólk fari að huga að dvöl yfir vetrartímann. Húsakostur og allur annar aðbúnaður er orðinn það góður.

Við fengum sannarlega fjölbreytt veður á meðan á dvöl okkar stóð. Bæði logn og sólskin upp í storm og illviðri.   (Aths. 2)

Venni Guðna skrifar hluta af ferðasögu björgunarleiðangursins sem fór í janúar 2015 til að bjarga fasteignum sem skemmst höfðu í óveðri. Myndina tók Ásmundur Guðnason, í Atlatungu.
Venni Guðna skrifar hluta af ferðasögu björgunarleiðangursins sem fór í janúar 2015 til að bjarga fasteignum sem skemmst höfðu í óveðri. Mynd Ásmundar Guðnason, í sumarbústðnum Lækjabrekku, Fljóti.

SURPRICE! Við erum búin að fylgjast með bátsferðum í dag, en sáum ekkert. Allt í einu er bankað! Sævar er mættur að sækja okkur. Hlaupum af stað. Takk fyrir allt.

Vernharð Guðnason  

Herborg Vernharðsdóttir

___________________________________________________________

Aths 1:      Þegar sumarhöllin Atlastaðir var orðin til, árið 1969 kom fljótlega miðbylgjutalstöð – og svo önnur og önnur. Þetta voru hlunkar sem tóku mikinn straum – og voru því ekki notaðar nema mikið lægi við, og helst á fyrirfram ákveðnum tímum. Leigubílstjórar og mörg atvinnutæki voru með svona stöðvar, enda gátu þær jafnvel náð landa á milli, og þá um leið trufluðu erlendar sterkar stöðvar. Seinna – á áttunda áratugnum, komu CB-stöðvar, sem notuðu miklu hæri senditíðni, en drógu mum styttra, en gátu samt orðið fyrir truflunum erlendis frá. Þær var meira að segja hægt að fá sem handstöðvar sem þá kölluðust “labb-rabb“. Þessar stöðvar urðu svo algengar að það varð að koma einhverju skikki á hlutina. Bara það að kalla einhvern upp, með fullu nafni, tók tíma og á meðan komust aðrir ekki að. Félag radíóamatöra fékk eigin rásir og þær máttu aðrir ekki nota nema fylgja reglum félagsins og halda sig við sitt kallnúmer. En það var mismunandi hver var á Atlastöðum, og númerið fylgdi einstaklingnum en ekki stöðinni. Í Fjarðarstræti 19 bjuggu þær systur Bogga og Sigrún – og á neðri hæðinni var heljarinnar  talstöð – sem ekki féll undir þetta númerakerfi. Það var því þrautalending að nota húsnúmerið “19” í stað þess að nota FR númer sem var ekki til – og það gekk bara vel öll þau ár sem svona stöðvar voru i notkun…..

Aths 2:     Það er merkilegt hvernig hlutirnir æxlast. Hér var ritsjóri búinn að hafa augastað á skrifum Venna í gestabók Atlatungu – og svo birtist  mynd af Venna að skrifa í gestabók á sama tíma og verið er að leggja lokahönd á þessa síðu. Hvort sem það er tilviljun eða ekki – er staðreynd að það er mikilvægt að gera sér góða grein fyrir því hversu mikilvægt það getur orðið seinna, að hafa punktað eitthvað niður…… svo Venni – næsta skref er að nota þessi nýlegu skrif þín sem stuðning við söguna um þennan nýja leiðangur

Aths.3.     Bogga – og reyndar stundum systur hennar hafa oftar en ekki verið þær síðustu til að koma til byggða frá Fljótavík. Þær fengu þetta “gælunafn”. Oft eru mórur settar í samband við drauga eða illa vætti – en orðið var einnig notað um kindur sem komu sér undan smalamönnum  á haustin og þurfti þá oft að fara í aðrar leitir til að ná í þær – á eftir öllum öðrum.

 

Print Friendly, PDF & Email

One Reply to “Dvöl í Fljótavík – á Þorra árið 2003”

  1. Það vantar frásögnina af heimferðinni,var hún ekki dálítið blaut?

Comments are closed.

EnglishUSA