Ábúendatal

Uppfært 13.feb 2020

Atlastaðir   

Í Landnámu er nefndur Atli í Fljóti, þræll Geirmundar heljarskinns, sem frægur varð af viðtökum við Vébjörn Sygnakappa og systkini hans. Nær víst er að Atlastaðir dragi nafn af Atla þessum, enda kemur það vel heim við söguna af Vébirni, er þau systkinin lentu á Atlastöðum, er þau höfðu brotið skip sitt við Sygnakleif.  Lítið er annað vitað um byggð á Atlastöðum að fornu en þó er líklegt, að Einar bóndi í Fljóti, sem sendimenn Órækju Snorrasonar drápu 1234, hafi einmitt búið á Atlastöðum.

Næsta heimild sem kunn er um Atlastaði er jarðarskrá Vatnsfjarðar-Kristínar frá 1485. Þegar deilur stóðu um Atlastaði og aðrar nálægar jarðir á fimmtándu og sextándu öld, er hvergi annars getið en þeir væru byggðir.

Á fardögum 1906 tóku tveir ungir og dugmiklir bændur, Júlíus Geirmundsson og Jósep Hermannsson, Atlastaði til ábúðar. Sátu þeir jörðina með prýði til ársins 1946, er hún lagðist í eyði. Báðir höfðu þeir mikla ómegð, en komust þó vel af. Við manntal 1920 voru 28 manns heimilisfastir á Atlastöðum, og 22 fluttust þaðan 1946.

Tunga

Ekki verður annað séð en Tunga hafi verið í byggð á fimmtándu og sextándu öld, meðan deilur stóðu um hana ásamt fleiri jörðum. Þess er getið í Sléttuhreppsbók að Þorsteinn bóndi flosnaði þaðan upp árið 1681. 1703 hefur jörðin verið byggð og sjö manns átt þar heima.  Í jarðarbók 1710 stendur.: Hefur legið í eyði næstu fjögur ár. Hún byggðist þó 1746, en var komin í eyði aftur 1753. Síðan finnast ekki merki byggðar fyrr en 1787 á elstu búnaðarskýrslu, nema hvað Olavíus segir, að hún hafi lagst í eyði 1763. Síðan er hennar alltaf getið á tiltækum búnaðarskýrslum nema árið 1805. Jörðin lagðist í eyði 1945.

Glúmsstaðir

Ekki verður sagt með vissu, hve gömul byggð er á Glúmsstöðum. Þeir eru fyrst nefndir í skrá um jarðir Vatnsfjarðar Kristínar frá 1458. Glúmsstaðir hafa verið í eyði 1570. Ekki eru þeir nefndir í skránni frá 1681, og í manntali 1702 er jörðin sögð í eyði. Byggð mun þó hafa verið þar öðru hverju á þessu tímabili, því að í jarðarbók 1710 stendur: Hefur í eyði legið næstu 4 ár og margoft áður  köflum saman. Árið 1703 þegar manntalið var tekið, voru Glúmsstaðir í eyði. Enhver virðist hafa búið þar um 1706, en hver það hefur verið er ekki vitað. Síðan virðist kotið hafa verið í eyði meginhluta átjándu aldar. Það er ekki fyrr en 1791, að þar verður vart byggðar. Eftir það eru Glúmsstaðir í byggð, en slitrótt þó .

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA