Lífið í Fljótavík – Jólablað “Vesturlands” 2013

Höfundur: Gunnar Þórðarson

Gunnar Þórðarson hefur skrifað ítarlegar göngulýsingar um Fljótavík. Í desember 2013 birti jólablað Vesturlands, sem gefið er út á Ísafirði, eftirfarandi skrif Gunnars, sem hann hefur góðfúslega heimilað að verði birt hér. Þetta er afritað frá bloggsíðu hans, sem þið getið opnað hér. Sagan er þessi: 

—————————————————————————————————————————

Júlíus Geirmundsson bjó ásamt konu sinni, Guðrúnu Jónsdóttur, að Atlastöðum í Fljótavík, og stóð gamli bærinn á Bæjarhólnum þar sem Atlastaðir standa í dag. Júlíus keypti Atlastaði í Fljótavík ásamt frænda sínum og félaga, Jósepi Hermannssyni árið 1906 og hófu þeir búskap þar. Samstaða og samlyndi einkenndi alla tíð sambýli Júlíusar og Jóseps og segja þeir sem til þekktu að aldrei hafi þeir vitað til þess að misklíð kæmi upp á milli þeirra.

Þessir menn voru alls ekki aftarlega á merinni hvað ýmsan aðbúnað varðaði og kom Júlíus sér upp útvarpi árið 1943. Í fyrstu var notast við rafgeyma sem bornir voru að Hesteyri til hleðslu, en seinna kom hann sér upp vinmillu til að leysa burðinn af hólmi. Í framhaldi kom talstöð í Fljóti og hægt að láta vita af sér við umheiminn og þurfti að fjárfesta í rafstöð til að fullnægja orkuþörfinni og var hún gangsett reglulega til að hlaða inn á rafgeymana. Var þetta mikil nýlunda fyrir víkurbúa, og ekki síst fyrir börnin sem hálf hræddust skellina í vélinni. Þótti þeim mikið til koma og fannst Júlíus mikil maður enda orðin “rafmagnsmaður”.

Júlíus skrapp eitt sinn í höfuðborgina og var mjög forframaður þegar hann kom til baka, með hatt og staf og reffilega klæddur. Það hefur verið upplit á sveitungum hans þegar hann lýsti fyrir þeim undrum „stórborgarinnar” og þegar hann fór í „lyftuvél” í útvarpshúsinu, en þangað fór hann til viðtals. Viðtalið var tekið upp á stálþráð sem enn er til. Sjálfsagt hefur þótt merkilegt að ræða málin við útvegsbónda norðan af Hornströndum sem aldrei hafði komið í höfuðborgina fyrr. Júlíus þótti tala mjög fallega íslensku, kjarnyrta og ómengaða á þeim tíma. Segir sagan að rithöfundar, þar á meðal Guðmundur Hagalín, hafi komið til að fá innblástur og eins tök á þessu kjarngóða máli sem hann talaði. Er sérstaklega til tekið að Guðmundur hafi dvalið í Fljóti áður en hann skrifaði „Kristrúnu í Hamravík” til að ná valdi á tungutakinu.

Högni Sturluson, ásamt mági sínum Geirmundi Júlíussyni byggðu sér heimili í Fljótavík árið 1941 og bjó þar til bændur fluttu búferlum úr víkinni 1946. Högni minntist þess hversu mikið verk var að bera á bakinu allt efnið í húsið frá sjó og upp að bæjarstæðinu. Í grunninn bar hann grjót út fjörunni, safnað var saman rekavið í rafta og sperrur en einnig var honum flett með stórviðarsög í borð. Smíðaefni var síðan keypt af Kaupfélaginu á Ísafirði og flutt með Fagranesinu í Fljót.

Högni minnist brottflutningsins úr sveitinni en segist ekki hafa tekið það mjög nærri sér enda vanur flakki frá einum stað til annars. Hinsvegar hafi þetta verið þyngri spor fyrir suma aðra þar sem menn þurftu að skilja eftir aleiguna og lífsstarfið, jafnvel með áhvílandi skuldum. Þetta var 16. júní 1946 og skildu menn féð eftir til að láta það ganga sumarlangt í grösugri sveitinni, en síðan átti að smala því að hausti og leggja endalega af búskap í Fljóti. Högni segist hafa tapað lófastórum steini, sem hann hafði rispað nafn sitt á þegar stund gafst milli stríða í verinu, við brottförina. 1999 fann Herborg Vernharðsdóttir steininn í fjörunni þar sem báturinn mun hafa flutt fólkið um borð í Fagranesið, áleiðis til nýrra heimkynna handan Djúpsins.

Herborg minnist vel þessa dags og segir menn hafa verið niðurlúta og augnablikið tregafullt. Fljótlega eftir að fjölskyldan kom til nýrra heimkynna í Hnífsdal réði hún sig til kaupavinnu, en þó með því fororði að hún færi um haustið til að smala fénu í Fljóti. Réttir fóru venjulega þannig fram að smalað var fyrst að Atlastöðum þar sem menn drógu sitt fé í dilka. Það fé sem ekki tilheyrði Atlastaðabændum var síðan rekið kringum vatnið til Tungu þar sem Tungumenn höfðu smalað sín megin. Féð var síðan rekið til Hesteyrar yfir Háuheiði þar sem það var dregið í dilka og síðan ráku menn sitt fé hver til sinna heima að Sæbóli, Miðvík, Látrum, Stakkadal eða Rekavík.

Við skulum gefa Herborgu orðið og láta hana lýsa með eigin orðum þessari síðustu smölun haustið 1946, en hún var 14 ára gömul þegar þetta var.

„Ég og systir mín Þórunn fórum í september ásamt föður okkar og öðrum bændum úr Fljóti til að smala fénu og koma því til Ísafjarðar. Við komum til Fljótavíkur í blíðu veðri og gisti hópurinn í húsi Júlíusar Geirmundssonar að Altastöðum. Fljótlega eftir komuna gerði norð-austan áhlaup með þreifandi byl sem stóð yfir í vikutíma.

Þegar veðrinu slotaði var allt komið á kaf í snjó og fórum á fætur um kl. sex um morguninn til smölunar en féð hafði komið niður af fjalli undan veðrinu, og þurfti því ekki að elta það þangað. Öllu fénu var smalað í réttina í Tungu þar sem Látra féð var dregið í dilka og ráku síðan bændur sitt fé þaðan heim yfir Tunguheiði. Töluvert var farið að grisjast búskapur á þessum tíma og því ekki um mikinn fjölda að ræða.

Síðan var féð rekið til Hesteyrar þaðan sem flytja átti það til Ísafjarðar. Það var það mikill snjór upp Glúmsdalinn að ég man eftir því að hann náði í mitti þegar við vorum að koma upp brekkuna ofan við Glúmsstaðartúnið. Það varð að troða undan fénu til að koma þeim yfir fannfergið og voru sumar kindurnar bókstaflega að gefast upp. Milli klukkan níu og tíu um kvöldið komum við til Hesteyrar þar sem féð var rekið inn í rétt og restin af fé nágrannana dregið í dilka. Fagranesið átti að koma þá um kvöldið að Stekkeyri, en þar var bryggja. Ekki varð úr því þar sem svo vont var í sjóinn og var skipskomu frestað. Féð var því skilið eftir í réttinni og við fengum gistingu hjá Sölva Betúelssyni og Sigrúnu á Reiðhól. Maður var blautur sko því nú voru ekki stígvélin til að vera í. Ég man að við vorum rennandi blaut og þegar við vorum búin að borða vorum við háttuð upp í heitt og fínt rúm. En klukkan að verða eitt, þá kom kallið. „Báturinn er að koma”

Það var kolniða myrkur, ég man það. Við þurftum að fara og þó Sigrún gamla á Reiðhól væri búin að vinda af okkur fötin og reyna að þurrka þau, hún tók svo rosalega vel á móti okkur, vóru þau ennþá rennandi blaut. Og takk fyrir, við urðum að fara í allt blautt en fötin voru þó heit.

Nú inn á Stekkeyri var farið með féð þar sem öllu var dengt út í bátinn og lagt af stað til Ísafjarðar. Við reyndum að leggja okkur á leiðinni en það var ekki möguleiki að sofna fyrir endalaust jarmi í rollunum. Við komum til Ísafjarðar klukkan sjö um morguninn en þá áttum við eftir að reka féð inn í sláturhús og var klukkan orðin um ellefu þegar því var lokið.

Þá fórum við systurnar labbandi heim út í Hnífsdal. Ég man ekki hvort klukkan var tólf eða hálf eitt þegar við kómum þangað en þetta var “einn” dagur í lífi mínu”.

Högni Sturluson telur ástæðuna fyrir brottflutning hafa verið öryggisleysi íbúanna. „Þetta var orðið dauðadæmt. Enginn læknir, engin ljósmóðir á Hesteyri” Sölvey Jósepsdóttir taldi ástæðuna vera ásamt því að unga fólkið vildi allt fara í burtu. „Þá hefðu þeir gömlu mennirnir orðið einir eftir og það hefði aldrei gengið”

Print Friendly, PDF & Email

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA