Kröfulýsing ríkisins um þjóðlendumörk

KRÖFULÝSING
FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐHERRA F.H. ÍSLENSKA RÍKISINS
UM ÞJÓÐLENDUMÖRK Á SVÆÐI 10B,
ÍSAFJARÐARSÝSLUR

4.1.29. Hvestudalir

i. Sérstaklega um kröfusvæðið

Í sóknarlýsingu Vestfjarða segir m.a. Fyrir norðan Rekavík bak Látrum, gengur fyrst fjalla, inn frá sjó, Hvesta inn að Tungudal Fljóts megin, og inn að Fjárdal Rekavíkur megin. […] Hvestuskál er bolli vestan til ofan í Hvestuna utanverða. Norðan til í Hvestunni eru Hvestudalir, Fljótsmegin. Þeir eru fyrir utan undirlendið í Fljóti. (H: 306)

Í lýsingu á afréttarlöndum Staðarsóknar í sóknarlýsingu Vestfjarða eru Hvestudalir
sagðir afréttarland. Kemur þar fram að þeir liggi undir Stað.(H: 307)

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. um kröfusvæðið í lýsingu á
jörðinni Stað: Lambaupprekstur á Staður í Hvestu, það er eitt dalverpi, sem liggur frá Túngulandi í Fljótum þar á almenníngum. Það brúkast átölulaust. (H:308)

ii. Tunga


Í sóknarlýsingu Vestfjarða segir m.a. um Tungu: 6 Hdr. að dýrleika, neðan til í nærfellt miðjum Tungudal. Tún vott, engi mikið, gott og þurrt. Heybandsvegur ágætur. Skammt til fiskjar, en ógæftasamt vegna brima. Mótak er þar. Útigangur í minna meðallagi. (H: 309).


Landamerkjabréf Tungu er dags. 19. október 1889, þar sem merkjum er lýst: Milli Tungu og Glúmsstaða ræður merkjum á, sem rennur af fjalli ofan miðjan Hvylftardal í Fljótsstöðuvatn. Milli Tungu og Atlastaða ræður Fljótsós merkjum, og rennur hann úr Fljótsstöðuvatni til sjávar. Að öðru ráða fjallabrúnir.


4.1.30. Almenningar vestari


i. Sérstaklega um kröfusvæðið


Í lýsingu sóknarlýsingar Vestfjarðar á Staðarsókn í Aðalvík er er fjallað um almenninga
vestari þar sem segir m.a.: Þá er fremst af fjöllunum, út með nyrðri hlíð fljótsins, Fannalágarfjall, þá Sniðaöxl, þá Hvannadalshorn, þá Dagmálahorn, þá Töflufjall fyrir Svínadalsbotni, þá Bæjarfall, þá Beila fyrir Nautadalsbotni, þá Kögur, fram við sjó. Þá tekur við af honum, austur með sjónum, Sandvíkurfjall, upp yfir Sandvík, og nær það norður að Almenningum. Þá gengur Kjalarnúpur fram í sjó fyrir norðan Almenninga. (H: 312)

Almenningar eru reyndar mjög breiður, en að samjöfnuði stuttur dalur upp í fjöllin, utan frá Sandvíkurfjalli austur að Kjalarárnúpi en fyrir botninum á þeim dali, eða fyrir Almenningum öllum, liggur Geldingafjall að austanverðu, en svo vestur eftir afleiðing af því, sem ekki er neitt nafn gefið. (H: 313)

Í lýsingu afréttarlanda Staðarsóknar er gerð grein fyrir að víknamenn reki á Almenninga. (H: 314)

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir m.a. um kröfusvæðið: Almenníngar og óbygðir liggja norður með sjónum frá Kögri, sem skilur Atlastaðaland og almennínga, og er talið hálf önnur vika sjálfa að Kjalarárnúp, sem er norðasta takmark á Ströndum og skilur Kjaransvíkurland frá almenníngum, og eiga nokkrir kirkjustaðir hjer viss takmörkuð rekapláts og þessum almenníngum, og nýta staðarhaldarnir hvör eftir því sem hann fær við komið. […] Þessir almenníngar eru mjög graslitlir, hrjóstrugir með björgum og klettum og ófærir fyrir menn og hesta yfirferðar, og verða því að öngvu nýtti nema það lítið sem menn sækja þángað á skipum, sem þó er ekki fært utan í allra bestu veðráttu. (H: 315 )

Í lýsingu jarðabókar á jörðinni Stað í Aðalvík segir m.a.: Staðurinn á eftir kirkjunnar máldaga Kagaðarvík, Sandvík og Grjótaleiti allt að Svignakleif. Þessi örnefni eru í almenníngum norðurfrá Fljóti hjer í sveit, og hefur staðurinn notið nokkurs viðarreka þaðan þegar aðsókt hefur orðið, sem mjög er langt og hættusamt. Hvali hefur þar ei reikið so menn viti. Rekaítak, allan tóftúng hvals og viða með ágóða (segir máldaginn) á staðurinn í Rekavík, Baklátrum. Þessa ítaks hefur staðurinn notið átölulaust. (H: 316 )

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1949 segir m.a. um Kögur og Almenninga vestari: Út með sjónum frá Atlastöðum heitir Atlastaðahlíð. Meðan búið var í Fljótinu, var á hlíðinni uppsátur Atlastaðabænda, sem einkum stunduðu vorfiski, enda eru góð fiskimið nálæg. Upp af hlíðinni er hömrum sett fjall. Það er Kögur (480 m). Yzta tá fjallsfótarins stefnir í norðvestur og kallast Kögurnes. Austan við Kögur heitir Sandvík, gegnt Sandvíkurdal. Sandur er þar þó enginn, heldur stórgrýtt malarfjara og brattar leirskriður með hömrum yfir. Neðarlega í klettunum er allþykkt surtarbrandslag. Austan við Sandvík er Sygnahlein, þar sem Vébjörn sygnakappi braut skip sitt forðum. Austur þaðan er Haugahlíð og Almenningar hinir vestari frá Töflu að Kjalarárnúpi. Í Landnámu segir, að Geirmundur heljarskinn átti bú „á Almenningum enum vetrum“. Það varðveitti Björn þræll hans, er sekur varð um sauðatöku eftir dag Geirmundar. Af hans sektarfé urðu Almenningar. Fyrir innan Sygnahlein eru grjótdyngjur miklar við sjóinn á tveimur stöðum, sem úthafsbrimið hefur barið þar saman. Heita það Haugar, vestari og nyrðri, niður af Haugahlíð. Suðaustur þaðan eru Almenningar. Háir hamrabakkar eru þar víðast með sjó, en dalverpi upp af með allmiklu og kjarngóðu grasi. Þykir það fé vænt til frálags, sem á sumrum gengur á Almenningum. Nyrzt á Almenningum eru Breiðuskörð. Er þar yfir mjóa og klettótta fjallsegg að fara vestur til Svínadals í Fljóti. Allmiklu sunnar og austur er Þorleifsskarð, sem áður er nefnt, vestur til Þorleifsdals í Fljóti. Skarðið sjálft er klettalaust eins og mjótt hlið milli hárra bergveggja. Austur af ofanverðum Almenningum er Bergþóruskarð yfir til Kjaransvíkur. Norðaustur af því er Almenningaskarð, einnig austur til Kjaransvíkur, og er Kjalarárnúpur milli þess og sjávarsins. Oft er ókyrr sjór við strönd Almenninga og þau skip orðin mörg, er þangað hafa haft hina sömu för sem skip Vébjörns og systkina hans. Þar er trjáreki mikill. (H: 317)


ii. Atlastaðir


Í sóknarlýsingu Vestfjarða segir um Atlastaði: Atlastaðir, 6 Hdr. að dýrleika, vestan undir Bæjarfjalli, á ósbakkanum að kalla, góðan kipp frá sjó, andspænis Tungu. Tún gott, útslægjur nógar og frábærlega kjarngóðar, en heybandsvegurinn eins frábærlega vondur af bleytu og slörkum. Mótak langt í burtu og þerrirvallarlaust. Afar hægt til fiskjar. Silungsveiði býðst þar og mikil. Jarðbönn eru þar oftast öllum vetrum og á sumrum tíðast óþerrar með þokufýlu og stórslögum af norðri, og því atkvæði mun mega á ljúka, að vetur og sumar muni varna að jafnförnu, verra veður á nokkrum stað á Íslandi en þar. Það má hafa til marks hér um, að sumarið 1844 var Glúmsstaðavatn, sem er niðri í Fljótinu, milli bæjanna þar, ekki alleyst í 19 viku, enda voru það sjaldgæf harðindi, sem gengu veturinn fyrir.(H: 318)

Landamerkjabréf Atlastaða er dags. 19. október 1889, þar sem merkjum er lýst: Frá Kögurtá við sjó fram upp á fjallsbrún, og svo sem Fjallabrúnin segir fram í Fljótsskarð.
Frá Fljótsskarði ræður Reiðará merkjum milli Atlastaða og Glúmsstaðam uns hún rennur
í eystra horn Fljótsstöðuvatnsins. Síðan ræður vatnið og ós úr því (Fljótsós) landamerkjum
til sjávar milli Atlastaða og Tungu.

Nr Listi yfir heimildir
306Ísafjarðar- og Strandasýslur. Sóknarlýsing Vestfjarða. Samband vestfirzkra átthagafélaga (1952), bls. 165
307Ísafjarðar- og Strandasýslur. Sóknarlýsing Vestfjarða. Samband vestfirzkra átthagafélaga (1952), bls. 188
308Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Ísafjarðar- og Strandasýslur (VII. bindi), bls. 291
309Ísafjarðar- og Strandasýslur. Sóknarlýsing Vestfjarða. Samband vestfirzkra átthagafélaga (1952), bls. 186 .
312Ísafjarðar- og Strandasýslur. Sóknarlýsing Vestfjarða. Samband vestfirzkra átthagafélaga (1952), bls. 165
313Ísafjarðar- og Strandasýslur. Sóknarlýsing Vestfjarða. Samband vestfirzkra átthagafélaga (1952), bls. 170-171
314Ísafjarðar- og Strandasýslur. Sóknarlýsing Vestfjarða. Samband vestfirzkra átthagafélaga (1952), bls. 188
315Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Ísafjarðar- og Strandasýslur (VII. bindi), bls. 300-301
316Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, Ísafjarðar- og Strandasýslur (VII. bindi), bls. 290-291
317Árbók Ferðafélags Íslands 1949, sbr. 156-158
318Ísafjarðar- og Strandasýslur. Sóknarlýsing Vestfjarða. Samband vestfirzkra átthagafélaga (1952), bls. 186-187
Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA