Örnefni Atlastaða

Uppfært 20.ágúst 2018

Ari Gíslason ritar

Jörð í Sléttuhreppi; hún er 1710 talin 6 hundruð og fór í eyði í bólunni 1707.

Upplýsingar um örnefni eru frá Jósef Hermannssyni, er þar bjó, og Júlíusi Geirmundssyni; einnig er nokkuð tekið úr sóknarlýsingu 1848, og ef ekki ber saman verður hún tekin fram yfir þó hins sé getið.

Bærinn stendur sunnan undir háu fjalli á sléttlendi við Atlastaðaós. Aðallega hallar landi jarðarinnar til suðvesturs.

Víkin heitir Fljót. Afmarkast hún af Hvestunni að sunnan og Kögrinum að norðan. Svæðið upp frá víkinni er einnig nefnt Fljót og víkin öll með landinu og öllu sem fjallahringurinn afmarkar er nefnd þessu nafni. Í víkina rennur ós sem heitir Atlastaðaós (1). Er hann mjór fremst þar sem hann rennur í sjó en breikkar fljótlega er innar dregur; þar heitir hann svo Fljótsvatn (2) eða Glúmsstaðavatn (3). Ósinn og vatnið eru sunnan við land Atlastaða, en vatnið gefur stefnuna suðaustur til norðvestur.

Norðanverðu við Fljótsvík rís upp hátt fjall, eitt þeirra hrikalegu annesja er einkenna þessa sveit. Þetta fjall heitir  Kögur (4). Vestan í móti er [hann] hjöllóttur og brött grasi gróin hlíð sem heitir Kögurhlíð (5). Hún er móti vestri. Þar nyrst er tangi sem heitir Kögurtá (6). Þar eru merki móti svonefndum Prestvíkum; þar breytir ströndin um stefnu, hér er hún norður og suður. Fram af Kögurtá er allmikil straumröst er heitir Kögurröst (7). Við suðurhorn Kögurhlíðar snarbeygir ströndin við nef sem heitir Kögurnef (8) eða Klömp (9). Nú fær ströndin stefnu norðvestur til suðausturs, það er sú hlíð er snýr að Fljótsvíkinni. Næst við Kögurnefið er þar utast vík sem heitir Kænuvík (10). Bæjarmegin afmarkast hún af kletti er skagar í sjó fram og heitir Engelskur (11). Á honum eru sjávarföll mörkuð frá Atlastöðum. Þá er næst vík sem heitir Skerjavík (12), dregur nafn af skeri sem er í miðju mynni víkurinnar. Þá kemur þar næst nafnlaus gilskorningur. Upp af Kænuvík er rétt upp undir brún í Kögrinum grasi vaxin skál sem heitir Kögurskál (13).

Hlíðin frá Kögurnefi og heim að Grundarenda, er síðar getur, heitir Heimrihlíð (14) eða Atlastaðahlíð (15). Undir henni er gott hlé fyrir skip. Þessi hlíð er klettótt efst en skriðurunnin hið neðra. Grasi vaxin er hún neðst og teygjast grasteigar upp hlíðina. Utast í hlíðinni, upp af Kænuvík, heitir svo Naust (16), er þar við Klömpina, þar eru þrjár rústir stórar. Þetta er gamalt uppsátur. Þar frammi af Naustinu er Lendingarsker (17). Upp af Naustinu, í hlíðinni, heitir Klettabelti (18). Á það verður gengið beggja vegna frá; uppi á því er grasi vaxið. Þar upp af í hlíðinni eru urðarnef, nefnd Hnausar (19). Svo er gil frekar innarlega í hlíðinni sem heitir Heimragil (20). Nokkuð hátt uppi í fjalli eru fjórar hillur sem heita Sandvíkurhillur (21). Þær liggja í hring frá Kögurskál og inn á dal þann sem nú er nefndur Bæjardalur. Er þá skammt á brún þegar komið er á efstu Sandvíkurhillu.

Grundarendi (22), þar sem talið er að Atlastaðahlíð endi, er endirinn á sléttum grundum, sem lágu heiman frá Atlastöðum og undir allri hlíðinni út að Naustum. Í Grundarenda var haft fjárhús; það stóð undir grasi vöxnum urðarhólum er hétu Neðri-Hnaus (23) og Efri-Hnaus (24). Stórar grasi vaxnar lautir voru beggja vegna við Hnausana. Í þeim bjó huldufólk.

Förum nú heim frá Grundarenda að Bæjará. Frá Grundarenda tekur þá fyrst við grasi vaxið svæði sem heitir Skjaldbreið (25), er valllendi. Þarna var einu sinni reist nýbýli. Upp af Skjaldbreið eru svo grösugar brekkur er liggja upp í svonefndan Bæjardal og síðar getur. Neðan við Skjaldbreið taka við melar og sandhólar sem heita Ytri-Skjöldur (26) og Heimri-Skjöldur (27). Djúpt jarðfall aðskilur þessa Skildi. Neðan þeirra er svo það sem kallað er Melasund (28). Betúel Betúelsson mundi eftir því að fyrir svo sem 80 árum var allt það gras sem nú er sandur. Eftir jarðfallinu, sem aðskilur Skildina, rennur lækur sem heitir Drápslækur (29). Hann rennur niður á Melasundin. Nafn sitt hefur hann af því hve skepnur drápust oft í honum. Gras lá að honum og hann er holbekktur. Ef við höldum svo niður með sjó og förum eftir Kampinum (30), sem liggur alla leið að Atlastaðaós, þá er hér að norðanverðu við ósinn svonefnd Kríuborg (31) móti Julluborg sem er sunnan við ósinn. Þetta er sandklakkur eins og Julluborg.

Þegar kemur upp fyrir Dalabrekkur (32) sem fyrr er getið og liggja upp frá Skjaldbreið erum við komin upp í Bæjardal (33). Þó gæti skeð að allur dalurinn hafi áður fyrr verið nefndur Nautadalur (34), sbr. sóknarlýsingu. Bæjardalur er þá myndaður af Kögrinum að vestan og Bæjarfjalli, er síðar getur, að austan. Þessi dalur klofnar í tvennt; að ofan er þar há fjallsgnípa heldur hærri en Kögurinn. Þessi gnípa heitir Beyla (35). Vestan við hana, milli hennar og Kögurs, gengur dalur sá sem heitir Nautadalur (36). Þar ofan úr svonefndu Hellubergi (37)  í Beylu kemur svo á sem heitir Nautadalsá (38) og verður ekki betur séð en hún haldi því nafni til sjávar en það er það sem nú er nefnt Bæjará. Vel má vera að Bæjará (39) heiti hún eftir að hún er komin niður á jafnsléttu. Vestan við Beylu eru tvö vötn sem heita Sandvíkurvötn (40). Þau eru bæði lítil og eru kennd við Sandvík sem er ein af Prestvíkum og þar fyrir botninum heitir svo milli Beylu og Kögurs Sandvíkurfjall (41). Atlastaðir eiga hér fram á bjargbrún.

Austan við Beylu er svo annar dalur, Krossadalur (42), sem sagt er 1848 að sé afdalur úr Nautadal (þá er eins og Nautadalur sé öll hvilftin) og liggur inn milli Beylu og Krossa, en Krossar (43) eru há fjallsgnípa og hvöss. Voru þar glufur í gegn og myndaðist þar kross svo glöggt sást í gegnum. Þetta er sagt 1848, en 1952 er sagt það séu tindar á háfjalli. Voru hestmyndaðir en svo hrundi miðstandurinn. Vel geta báðir sagt satt um þetta, hér er aðeins veðrunin á ferðinni. Í Krossadal sprettur upp lækur, Krossalækur (44). Hann kemur í Bæjarána (Nautadalsá) á Dalabrekkubrún nokkuð langt fyrir framan Leiti er síðar getur.

Í vestanverðum Krossadal, undir Beylunni sem er öll hamrar, er svonefndur Sjónarhóll (45). Af honum sést vel í báða dalina og af honum er gott að ganga í Rangalann er síðar getur og er þá farið bak við Bæjarfjallið. Í Krossadal eru margir hólar. Þar eru á einum stað austan til í botni dalsins einkennilegar klettamyndanir. Það eru karl og kerling með tvö börn og hest á ferðalagi. Þau hafa komið úr Rangalanum og dagað þarna uppi. Vestanverðu við þessa dali er svo hátt fjall, hryggmyndað, og heitir Bæjarfjall (46), og niðri í dalmynninu þar sem sést frá bænum heitir Leiti (47). Fremst á Bæjarfjalli heitir Bæjarfjallsöxl (48). Rétt ofan við bæinn, undir fjallinu, heitir Bæjarhjalli (49) og uppi á honum er Bulluholt (50).

Þá er komið heim að Bæjará og Bæjardalurinn búinn með Bæjarfjalli að vestan. Utan við túnið er smánes inn að túni frá Bæjará, sem heitir Bæjarnes (51). Utan við bæinn er svo Bæjarlækur (52), að honum náði gamla túnið. Framan við Bæjarnesið var gengið upp á Bæjarhjalla. Þetta stykki hét Vinnumannspartur (53). Þetta var slétt engjastykki næst Grafarhól (54), en sá hóll er eins og skip í laginu og liggur upp undir Bæjarhjalla; ofan við hann er smátjörn. Þessi hóll var grænn og mátti ekki slá hann. Eitt sinn gerði Júlíus það og tveim dögum síðar var hryssa, sem hann átti, lærbrotin.

Rétt neðan við gamla bæinn var Skiphóll (55). Þar átti skip Atla að vera grafið. Þar eru stórir bakkar eins og hróf. Þar var eitt sinn grafið nokkuð djúpt, þó komst ekki niður úr hellum og brenndum viði. Svo er Bæjarhóll (56), þá er Fjárhúshóll (57). Ofan við hann er nú sléttur bali sem heitir Tófubali (58). Á Bæjarhjalla er tún sem nefnt er Hjallahöfði (59), nú vanalega Höfði (60).

Nú förum við niður fyrir tún og niður að Fljótsvatni. Nokkuð inn af Bæjarnesi gengur þar annar tangi fram í vatnið og heitir það Langanes (61). Af því er vað sem nefnt er hér Langanesvað (62), en þeir handanmenn frá Tungu nefna það Á skriðu (63). Er þarna eins og liggi rif þvert yfir vatnið. Á nesinu eru svo bakkar nefndir Langanesbakkar (64) og þar ofar eru Langaneseyrar (65); er þar allmikið æðarvarp. Upp af eyrunum eru nokkrir nafnlausir hólar. Utan við Langanesið, meðfram vatninu, er Hvarfeyri (66) og frá Langanesinu inn að Svíná, er síðar getur, heita Grafarbreiður (67). Á þessum eyrum eða breiðum ofan til er mótekja undir Háubökkum. En Háubakkar (68) ná alla leið heiman frá bæ inn að Svíná ofan við láglendið. Á þessum bökkum heitir Hvarf (69) upp af Hvarfeyrinni þar sem fyrst sér heim.

Svínadalur (70) er allbreiður dalur og yfirleitt grösugur er liggur upp í hálendið innan við Bæjarfjall. Eftir honum rennur svo Svíná (71) sem fyrr hefur verið nefnd. Verður nú farið um Svínadal. Upp af Hvarfinu og Háubökkum er hjalli sem heitir Grafarhjalli (72). Hann er eins og framhald af Bæjarhjallanum fyrrnefnda og liggur inn Svínadal. Áður en farið er lengra er best að geta þess að undan ytri Bæjarfjallsröndinni rennur Engilækur (73) og niður í ósinn utan túns. Neðst í Svínadal vestanverðum eru svo Svínadalsbrekkur (74). Niður þær rennur mikill fjöldi af smáuppsprettum niður í Svíná. Upp af þessum brekkum, ofan við hjallana, taka svo við aðrar brekkur sem nefndar eru Bæjarfjallsbrekkur (75). Rangali (76) er mjór dalkimi er liggur úr botni Svínadals til vesturs inn í Bæjarfjallið. Fjöllin fyrir botni Svínadals ganga upp í hvassa egg en þegar kemur fyrir botn dalsins að austan tekur við fjallsgnípa ein mikil er heitir Tafla (77). Hlíðin þar niður af frá Töflu er örnefnasnauð og heitir í heilu lagi Kinn (78). Austur af Töflu heita Breiðuskörð (79); er þar farið yfir á Almenninga stundum en ekki er það greið leið. Svíná kemur upp úr klettaups úr Rangalanum. Utan við þar sem hún rennur í vatnið heita Heimri-Svíneyrar (80) og ofar Fremri-Svíneyrar (81), svo er Svínholt (82) við ána ofan eyranna. Upp af þessu er klettahyrna er afmarkar dalinn að innanverðu og heitir Dagmálahorn (83).

Þegar kemur fyrir hrygginn er liggur frá Dagmálahorni niður á láglendið opnast einn dalurinn enn, sá heitir Hvannadalur (84). Eftir honum rennur á sú er Hvanná (85) heitir og kemur úr brún í Dagmálahorni. Ef við höldum okkur fyrst frá Svíná og Svínáreyrum komum við á rennisléttar eyrar sem heita Hvanneyrar (86). Þar gæti flugvél sest með góðu móti. Nær Svíná er Illakelda (87) og Heimribreið (88). Upp af þessu heitir Hlíð (89), upp undir Dagmálahorn.

Framan við ósinn á Hvanná, niður við vatn, er gamalt Sel (90). Þar upp af eru hjallar, nefndir Seljahjallar (91). Móts við þá er stór foss í Hvanná. Seljahjallarnir eru allt grashjallar. Þar fram með hlíðinni eru brekkurnar nefndar Snið (92) og laut upp af þeim heitir Smjörhlíð (93). Hornið austan við Hvannadal heitir Hvannadalshorn (94) en upp úr botni dalsins er Hvannadalsskarð (95) yfir á Almenninga. Ekki mun það vera fjölfarin leið og ef til vill ekki til nema hjá fuglum fljúgandi.

Næsti dalur heitir Þorleifsdalur (96). Eftir honum rennur lækur sem heitir Þorleifslækur (97). Selhjallarnir fyrrnefndu ná alla leið frá Hvanná að Þorleifslæk. Utan í honum er nafnlaus hlíð og smávatn er í botni hans. Upp úr honum liggur Þorleifsskarð (98) yfir á Almenninga. Sniðin fyrrnefndu liggja þannig að þau halla upp undir Þorleifsdal. Dalur þessi er nokkuð grösugur. Austan við Þorleifsdal heitir Sniðaöxl (99).

Stutt er milli ósa Þorleifslækjar og Reiðár (100) sem er hér á merkjum móti Glúmsstöðum. Hún kemur ofan úr brún á miðju Fannalágarfjalli (101) og niður í vatn. Hér eru niður við vatn Reiðáreyrar (102), og í ánni er hólmi sem heitir Álftarhólmi (103). Þessar eyrar eru valllendi. Í Reiðá kemur þvert fyrir á sem heitir Þverá (104), og á bakka Reiðár ofan við eyrarnar er Reiðárholt (105). Á því er stór steinn sem heitir Reiðársteinn (106); þar við er rúst. Rétt fyrir utan og neðan þennan stein  eru Seljahjallar (107). Það eru tveir stórir hjallar fyrir ofan svonefnda Urðarfætur (108). Þetta er byrjunin að fyrrnefndum Seljahjöllum. Grænabreið (109) heitir undir hjöllum þessum.

Nú fer landið að hækka. Hér koma margir skorningar niður hlíðina og heitir það einu nafni Jökuldalir (110). Mun það dregið af að seint eða aldrei leysir hér alla fönn. Þetta eru þrjú dalverpi með hryggjum á milli. Upp úr Jökuldölum liggur Fljótsskarð (111).

Eyktamörk: Miðmundi fram undan Bæjarfelli. Náttmál undan Kögri. (Líklega hvort tveggja rangt.)

Jónína Hafsteinsdóttir gekk frá handriti.

Örnefni í stafrófsröð 

Atlastaðahlíð 15 = 14

Atlastaðaós 1

Álftarhólmi 103

Á skriðu 63 = 62

Beyla 35

Breiðuskörð 79

Bulluholt 50

Bæjará 39 = 39

Bæjardalur 33 = 34?

Bæjarfjall 46

Bæjarfjallsbrekkur 75

Bæjarfjallsöxl 48

Bæjarhjalli 49

Bæjarhóll 56

Bæjarlækur 52

Bæjarnes 51

Dagmálahorn 83

Dalabrekkur 32

Drápslækur 29

Efri-Hnaus 24

Engelskur 11

Engilækur 73

Fannalágarfjall 101

Fjárhúshóll 57

Fljótsskarð 111

Fljótsvatn 2 = 3

Fremri-Svíneyrar 81

Glúmsstaðavatn 3 = 2

Grafarbreiður 67

Grafarhjalli 72

Grafarhóll 54

Grundarendi 22

Grænabreið 109

Háubakkar 68

Heimragil 20

Heimribreið 88

Heimrihlíð 14 = 15

Heimri-Skjöldur 27

Heimri-Svíneyrar 80

Helluberg 37

Hjallahöfði 59 = 60

Hlíð 89

Hnaus, Efri- 24

Hnaus, Neðri- 23

Hnausar 19

Hvannadalshorn 94

Hvannadalsskarð 95

Hvannadalur 84

Hvanná 85

Hvanneyrar 86

Hvarf 69

Hvarfeyri 66

Höfði 60 = 59

Illakelda 87

Jökuldalir 110

Kampur 30

Kinn 78

Klettabelti 18

Klömp 9 = 8

Kríuborg 31

Krossadalur 42

Krossalækur 44

Krossar 43

Kænuvík 10

Kögur 4

Kögurhlíð 5

Kögurnef 8 = 9

Kögurröst 7

Kögurskál 13

Kögurtá 6

Langanes 61

Langanesbakkar 64

Langaneseyrar 65

Langanesvað 62 = 63

Leiti 47

Lendingarsker 17

Melasund 28

Naust 16

Nautadalsá 38 = 39

Nautadalur 34 = 33?

Nautadalur 36

Neðri-Hnaus 23

Rangali 76

Reiðá 100

Reiðáreyrar 102

Reiðárholt 105

Reiðársteinn 106

Sandvíkurfjall 41

Sandvíkurhillur 21

Sandvíkurvötn 40

Sel 90

Seljahjallar 107

Seljahjallar 91

Sjónarhóll 45

Skerjavík 12

Skiphóll 55

Skjaldbreið 25

Skjöldur, Heimri- 27

Skjöldur, Ytri- 26

Smjörhlíð 93

Snið 92

Sniðaöxl 99

Svínadalsbrekkur 74

Svínadalur 70

Svíná 71

Svíneyrar, Fremri- 81

Svíneyrar, Heimri- 80

Svínholt 82

Tafla 77

Tófubali 58

Urðarfætur 108

Vinnumannspartur 53

Ytri-Skjöldur 26

Þorleifsdalur 96

Þorleifslækur 97

Þorleifsskarð 98

Þverá 104

 

Print Friendly, PDF & Email
EnglishUSA