Örnefni Glúmsstaða … Ari Gíslason

Jörð í Sléttuhreppi, í Fljóti, næst sunnan Tungu. Um hana er allt það sama að segja og Tungu; hún er einnig í eyði 1710 frá 1706, er fjögur hundruð og hefur oft verið í eyði, enda er erfitt hér um upplýsingar.

Upplýsingar um örnefni eru frá Júlíusi Geirmundssyni, Ísafirði, og fleirum, svo og úr sóknarlýsingu 1848.

Bærinn stóð vestanvert við vatnsendann. Skal hér byrjað á að benda á að sums staðar er nafn vatnsins Glúmsstaðavatn (1), og þá mundi Atlastaðaós ekki vera fyrr en það fer að mjókka, t.d. við Langanes. Skulum við þá fyrst fara lágt utan frá Hvilftará (2) sem er á merkjum móti Tungu og inn með vatninu. Innri-Hvilftardalur (3) er í Glúmsstaðalandi. Svo höldum við áfram inn með vatninu. Þá er utan við bæinn lækur sem heitir Glúmsstaðaá (4). Þar sem hún rennur í vatnið heitir Síki (5) og þar er hólmi í ánni. Fram með vatninu er þar næst eyri sem heitir Faxeyri (6), vaxin stórgerðri flæðistör sem bylgjast eins og fax á hesti. Nokkuð innan við hana kemur á  niður sem heitir Reiðá (7) og er á merkjum móti Atlastöðum. Upp af Hvilftardölum er svo Hvilftarfjall (8) og bæjarmegin við dalina gengur fram Hvilftarhorn (9).

Glúmsstaðaá kemur eftir dal er gengur upp frá suðvesturhorni vatnsins. Dalur þessi heitir Glúmsdalur (10). Upp úr botni hans er svo skarð yfir í Bjarnardal í Látralandi; þetta skarð heitir Tröllaskarð (11). Utan við það er Hvilftardalsfjall (svo) sem fyrr getur, en Háheiði (12) að sunnan eða innan.

Upp af bænum á Glúmsstöðum er brekka sem heitir Bæjarbrekka (13). Þar ofar er svo Byrgisbrekka (14). Á henni eru grjóthólar sem eru nefndir Byrgi (15); þar munu skepnur hafa tekið á sig náðir.

Þar ofar heitir Kofradalsmúli (16) er nær upp undir Háheiðina fyrrnefndu. Kofradalirnir eru tveir, Vestri-Kofradalur (17) og Eystri-Kofradalur (18). Þeir ná frá Kofradalsmúla að vestan og austur að hálendisrana er liggur niður frá Háheiðinni niður í botn víkurinnar. Glúmsstaðakjölur (19) er hryggurinn nefndur frá Dagmálaskarði og að Tröllaskarði fyrrnefndu. Upp úr botni Kofradals lá svo það sem nefnt er Glúmsstaðaskarð (20) er lá suður til Hesteyrar úr Fljóti. Þetta er varla kallandi skarð heldur er þetta Háheiðin eða Glúmsstaðakjölur ef hann verður látinn ná frá Tröllaskarði að Fljótsskarði eins og sumir vilja.

Nafnlaus á kemur úr mosató framan í Kofranum (svo) og rennur niður í Glúmsstaðavatn. Í henni er foss, sá eini teljandi í sókninni, fimm faðma hár og tvær og hálf alin á breidd; hann heitir Glúmsstaðafoss (21). Er það ekki sama og aðrir vilja nefna Tröllafoss (22)? Austan við Kofradalinn, austan við fossinn framan í Háheiðinni, sem hér er nefnd Glúmsstaðamúli (23), heitir svo Dagmálahorn (24). Reiðá hefur fyrr verið nefnd, kemur ofan úr brún í miðju Fannalágarfjalli (25), rennur um Jökladali (26). Upp úr þeim er svo Fljótsskarð (27) sem liggur yfir í Hesteyrarland og hefur fyrr verið getið. Jökladalir heita svo af því að það leysir ekki úr þeim snjó. Vestan við Fljótsskarð endar Háheiðin í svonefndri Fljótsskarðsöxl (28).

Eyktamörk vantar hér nema Dagmálahorn.

Jónína Hafsteinsdóttir gekk frá handriti.

Örnefni í stafrófsröð.      Tölur vísa til umræðu í greininni hér að ofan

 Byrgi 15

Byrgisbrekka 14

Bæjarbrekka 13

Dagmálahorn 24

Eystri-Kofradalur 18

Fannalágarfjall 25

Faxeyri 6

Fljótsskarð 27

Fljótsskarðsöxl 28

Glúmsdalur 10

Glúmsstaðaá 4

Glúmsstaðafoss 21

Glúmsstaðakjölur 19

Glúmsstaðamúli 23

Glúmsstaðaskarð 20

Glúmsstaðavatn

Háheiði 12

Hvilftará 2

Hvilftardalur, Innri- 3

Hvilftarfjall 8

Hvilftarhorn 9

Innri-Hvilftardalur 3

Jökladalir 26

Kofradalsmúli 16

Kofradalur, Eystri- 18

Kofradalur, Vestri- 17

Reiðá 7

Síki 5

Tröllafoss 22

Tröllaskarð 11

Vestri-Kofradalur 17

 

 

EnglishUSA