Örnefni Tungu … Jóhann Hjaltason

Tunga í Fljóti 

Örnefni, sagnir og landlýsing eftir sögn Vernharðs Jósepssonar bónda í Tungu. Skráð í frumriti haustið 1941 af J.Hj, en hreinritað og aukið að frásögn sumarið 1966.

Bærinn Tunga í Fljóti er vestan megin við Atlastaðaós (1) um það bil 1 km frá sjó, en um 1,5 km upp frá Ósnum, beint á móti Atlastaðabæ.  Tunga á land allt þeim megin Atlastaðavatns fram að landi Glúmsstaða, sem er fremst í Fljótinu við suðvesturhorn vatnsins.  Undirlendi er miklu meira þeim megin dalsins og liggur það að mestu undir Tungu.  Eru það einkum víðlendar og marflatar starengjar, undir svonefndu Tunguhorni, hallandi mómýrar og lágir holtahryggir í mynni Tungudals og síðan sandur mikill alla leið til sjávar.

Yfir þessu láglendi rísa svo snarbrött og há klettafjöll.  Ef við byrjum ferð okkar á landamerkjum Tungu og Glúmsstaða, vestan við suðurenda Atlastaðavatns, þá heita þar Hvilftarár (2) og Hvilft (3) uppi í fjallinu, sem er þar með allbreiðum undirhlíðum, en sjálf fjallsbrúnin eitt samfellt klettaþil.  Hlíðin þar fyrir heiman nefnist Tunguhlíð (4) og Tunguhorn (5), há og hvöss klettaöxl, er gengur þar út á milli dals þess, sem myndar Fljótið, og Tungudals (6).  Tungudalur er allvíð fjallaskál með hamra í brúnum og stendur bærinn Tunga niðri á láglendinu í mynni hans.

Undir Tunguhorninu, sem fyrr er nefnt, og norður að vatninu er hið marflata láglendi á þeim slóðum nefnt Engjar (7) einu nafni.  Þar eru nokkrar smátjarnir og vötn, er Mávavötn (8) kallast.  Þar sem engjarnar ganga lengst til norðurs, framan til á móts við Langanes í Atlastaðalandi norðan vatnsins er flæðiengi gott, er kallast Vatnshorn (9).  Er vatnið þar mjög mjótt á nokkrum kafla og kallast yfirleitt Ós (10) sá hluti vatnsins sem þar er fyrir neðan, en það mun vera um einn fjórði hluti vatnsins alls eða tæplega það.

Undir Tunguhorni er svonefndur Svartihjalli (11), en Ósbakki (12) meðfram Ósnum, neðan við Vatnshorn.  Niður Tungudal rennur Tunguá (13) frá fjalli því fyrir dalbotninum, er kallast Miðmundafjall (14).  Áin er mjög vatnslítil að öllum jafnaði eins og öll vatnsföll á þessum slóðum, þar sem vatnasvæðið er svo lítið, en farvegir margir og brattir um óteljandi smádali og daladrög.  Í bráðum leysingum vor og haust geta þessar svokölluðu ár, sem annars staðar á landinu myndu kallaðar gil eða lækir, þó verið illur farartálmi.

Í mynni Tungudals eru mómýrar eins og fyrr er að vikið, og viðbrigða gott mótak.  Er mólagið sums staðar 3 – 4 m á þykkt og mórinn svartur og harður sem kol, það er svokallaður steinmór.  Fyrir framan bæ eru Grafahjalli (15) og Miðhjalli (16).  En mór hefur einnig verið tekinn fyrir neðan bæ í seinni tíð og heita þar Grafir (17).

Í vestur frá Engjunum og mynni Tungudals út til sjávar er breiður sandur, sem einu nafni nefnist Tungusandur (18).  Neðarlega á honum og skammt frá Ósnum vestan árinnar er svo kölluð Julluborg (19).  Er það dálítil hæð eða hóll, þar sem fyrrum var hafður prammi sá eða julla, sem ferjað var á yfir Ósinn.  Fyrir framan bæ er Stekkur (20) og Stekkjarbreiða (21).

Upp Tungudal liggur vegurinn upp á Tunguheiði (22), sem farinn er vestur til Aðalvíkur og Látra.  Er þar bratt mjög upp að fara og sneiðingar margir og sumir krappir, uns brúninni er náð.  Vegurinn upp á heiðina liggur fyrst um svonefnt Langholt (23) niðri í dalnum, en síðan upp brattan hjalla sem kallast Nautahjalli (24).  Er mælt að hjallinn beri nafn af því, að nautpeningi sé eigi lengra gengt sökum bratta, ef sjálfráður er.  Fyrir ofan Nautahjalla er stutt en afar brött brekka, sem heitir Kúgildisbrekka (25).  Sagt er að brekkan beri nafn sitt af því, að lengra en að henni fari kvífé ekki, vegna þess hve brött hún er og óárennileg uppgöngu.  Má það rétt vera þegar skepnur eru sjálfráðar, enda ekki eftir neinum gróðri eða grasi að slægjast hærra til fjalls.  En þrátt fyrir brattann, krappa sneiðinga, mjóa og staksteinótta götu, er þó farið þarna upp með hesta undir áburði.

Á vinstri hönd Kúgildisbrekku, þegar upp er farið, þ.e. sunnan við hana, er dálítið klettafell, sem kallast Nónfell (26).  Er það nokkru lægra en sjálf heiðarbrúnin, sem heita má einn ókleifur klettaveggur nema á þessum eina stað.  Nónfellið er lítið um sig, en klettarnir framan í því mynda eins og hringlaga bungu niður til dalsins.  Eru þá klettalausir hryggir eða skriðuskörð sinn hvors vegar við það, en slakki sem er ofan við fellið upp að brún heiðarinnar, nefnist Ranghali (27).  Þegar upp kemur á heiðina er þar slétt og mishæðalítið, og heitir þar Tungukjölur (28).

Nú förum við aftur niður í Tungudal og staðnæmumst á fyrrnefndum Nautahjalla.  Ef við lítum þá til vesturs eða raunar réttara sagt til norðvesturs, þá sjáum við klettahnúka mikla bera við loft, og er nafn þeirra Kóngar (29).  Á milli þeirra og Nónfells eru svokallaðir Ingunnarklettar (30).  Niður af Kóngum við sjóinn og dálítinn spöl uppi á sandinum heita Hólar (31).  En lengra vestur með ströndinni lækkar fjallsbrúnin mjög, þótt klettótt sé, og kallast þar Kambur (32).  Ganga klettarnir þar alveg út að sjó og eru fremur lágir, en hvolf allstórt er upp af suður í fjallið og heita þar Hvestudalir (33).  Vestan við þá er fjallið Hvesta (34).  Eru þar klettar miklir og berghlöð út móti hafinu, en stórgrýtt fjara og lágar gróðursnauðar skriður hið næsta sjó.  Fyrir landi eru svokölluð Haugasker (35) og Hvestusker (36).  Þar fyrir vestan og framan í fjallinu móti norðvestri er stór lægð með litlu stöðuvatni, sem lækur rennur frá niður til sjávar.  Heitir lægðin Hvestuskál (37), en vatnið Hvestuvatn (38).

 

Atlastaðaós 1 = 10

Engjar 7

Grafahjalli 15

Grafir 17

Haugasker 35

Hólar 31

Hvesta 34

Hvestudalir 33

Hvestuskál 37

Hvestusker 36

Hvestuvatn 38

Hvilft 3

Hvilftarár 2

Ingunnarklettar 30

Julluborg 19

Kambur 32

Kóngar 29

Kúgildisbrekka 25

Langholt 23

Mávavötn 8

Miðhjalli 16

Miðmundafjall 14

Nautahjalli 24

Nónfell 26

Ós 10 = 1

Ósbakki 12

Ranghali 27

Stekkjarbreiða 21

Stekkur 20

Svartihjalli 11

Tunguá 13

Tungudalur 6

Tunguheiði 22

Tunguhlíð 4

Tunguhorn 5

Tungukjölur 28

Tungusandur 18

Vatnshorn 9

 

Ofanritað er fært í ritvinsluforrit, af Sigríði Jósefsdóttur, eftir ljósrituðu handriti Jóhanns. Þetta er síðan lesið yfir af Jónínu Hafsteinsdóttur fyrir hönd Örnefnastofnunar. Vinsamlega látið vita ef þið sjáið misritun.

.áá.28.mars 2006

 

 

 

EnglishUSA