Glúmsstaðir í Fljóti . Jóhann Hjaltason skráði
Örnefni, sagnir og landlýsing, eftir sögn Júlíusar Geirmundssonar, bónda á Atlastöðum.
Skráð í frumriti haustið 1940 af J. Hj. en hreinritað og aukið að frásögn haustið 1966.
Jörðin Glúmsstaðir er innst í Fljótinu, vestanvert við syðri enda Atlastaðavatns, sem einnig hefur verið nefnt Glúmsstaðavatn (1). Jörðin er lítil og tún lélegt, enda löngum í eyði verið og því fallið í órækt. Þetta er mesta harðindakot og hundraðatala þess lág, eins og flestra ef ekki allra hinna gömlu svokölluðu kóngsjarða á þessum slóðum, en þær munu ekki hafa verið færri en sjö á sínum tíma og voru þá kallaðar Aðalvíkurjarðir eða Aðalvíkurumboð, sem sýslumenn Ísafjarðarsýslu höfðu þá venjulega að léni frá kónginum.
Þarna var þó búið öðru hvoru og síðast líklega í kringum 1920, í eitt eða tvö ár eða svo, en síðan ekki. Snjóþyngsli eru þar mikil á vetrum og erfitt til aðdrátta á öllum tímum árs. Silungsveiði er góð í vatninu og ám sem í það renna, en annað verður ekki til hlunninda talið. Að vísu eru þar sléttar engjar og grasgefnar að öllum jafnaði, en eigi jafn víðlendar sem í Tungu. Sumarbeit er þar kjarnmikil og þótti ásauður gera gott gagn meðar fráfærur voru í lensku en um vetrarbeit er ekki að ræða.
Land Glúmsstaða liggur í boga fyrir botni Fljótsins, þ.e. dals þess, sem einu nafni er nefndur Fljót. Eiginlegt láglendi er aðeins mjó ræma meðfram suðurenda vatnsins og í mynni Glúmsstaðadals (2), sem gengur suður í fjöllin upp frá vatninu, upp til Háuheiðar (3). Um dalinn og heiðina liggur vegur úr Fljótinu vestur til Hesteyrar. Landamerki Tungu og Glúmsstaða eru við svonefndar Hvilftarár (4), skammt fyrir neðan bæ og eru raunar frekar lækir en ár. Koma þær frá lægð einni hátt í fjallinu, er nefnist Hvilft (5). Þar fyrir framan eru Hvilftardalir (6), upp og vestur frá Glúmsstaðabæ.
Fjallabrúnin á þessu svæði sem víðar í Fljótinu er einn samfelldur klettaveggur, en þó er skarð í á einum stað, í suðvestur frá bænum og kallast það Tröllaskarð (7). Skarðið er mjög mjótt og klettar til beggja hliða. Þegar upp kemur á háfjallið heitir þar Fljótsheiði (8), sem liggur vestur í Aðalvík og Látra. Sjálft háfjallið er yfirleitt slétt að ofan en víðast hvar mjög mjótt, og er einu nafni nefnt Kjölur, sem nær alla leið norðan frá Hvestufjalli og suður á Háuheiði. Þó bera einstakir hlutar fjallsins nöfn af jörðum þeim, sem land eiga að því eins og t.d. Tungukjölur á milli Tungu og Rekavíkur, þegar upp kemur á Tunguheiði.
Sunnan megin við Tröllaskarð er klettaöxl, sem nefnist Glúmsstaðahorn (9). Þá tekur við Glúmsstaðadalur, sem fyrr er nefndur. Eftir honum rennur á, sem kölluð er Fossá (10) og er í henni allhár foss, nefndur Glúmsstaðafoss (11). Austan við Glúmsstaðadal er fjallshryggur nokkur, á milli hans og Jökladala, sem gengur út í dálitla klettagnípu fyrir miðjum Fljótsbotninum og heitir þar Glúmsstaðamúli (12). Niðri á láglendinu er svo nefnt Glúmsstaðasíki (13) og Glúmsstaðahólmi (14), en heima við bæ er svo kölluð Faxaeyri (15).
Ath. Í lýsingu Aðalvíkursóknar, eftir séra Jón Eyjólfsson, frá árinu 1848 eru nefndir Kofradalir (16), Kofradalamúli (17) og Kofri (18) í landi Glúmsstaða. Lýsingin er dálítið ruglingsleg og ber þess vott að ekki muni vera lýst af eigin sjón, en svo virðist sem hann kalli það Kofra eða Kofradalamúla, sem nú er nefnt Glúmsstaðamúli.
Sá kafli lýsingarinnar, sem um þetta efni fjallar er þannig: „Afdalir eru: Tungudalur. Utan- og vestanvert að honum heldur Hvesta, Tungukjölur, Nóngilsfjall, Miðmundafjall, Tunguhorn, Kofradalir (tveir). Að botni og norðurhlið hins eystra heldur sú afleiðing Háheiðar, sem liggur ofan að Fljótsbotninum, en að vestan hlið hins vestara, Kofradalamúli. Upp á milli þeirra gengur hryggur nokkur. Á undan þeim í röðinni átti að telja Glúmsdal. Að honum heldur Hvilftardalafjall, Háheiði og Kofradalamúli.“ (Sóknalýsingar Vestfjarða II. Reykjavík 1952, bls. 170).
„Ónafngreind á kemur úr mosató framan í Kofranum og rennur ofan í Glúmsstaðavatn. Í henni er foss, hinn eini teljandi í sókninni, þar sem hún rennur ofan af kletti. Hann heitir Glúmsstaðafoss, 5 faðma hár, 2 1/2 al. á breidd, beinn, sléttur, þvergnýptur.“ (Sóknalýsingar Vestfjarða II, bls. 177).
Stafrófsröð örnefna
Faxaeyri 15
Fljótsheiði 8
Fossá 10
Glúmsstaðadalur 2
Glúmsstaðafoss 11
Glúmsstaðahorn 9
Glúmsstaðahólmi 14
Glúmsstaðamúli 12
Glúmsstaðasíki 13
Glúmsstaðavatn
Háaheiði 3
Hvilft 5
Hvilftarár 4
Hvilftardalir 6
Kofradalamúli 17
Kofradalir 16
Kofri 18
Tröllaskarð 7
Ofanritað er fært í ritvinsluforrit, af Sigríði Jósefsdóttur, eftir ljósrituðu handriti Jóhanns. Þett er síðan lesið yfir af Jónínu Hafsteinsdóttur fyrir hönd Örnefnastofnunar. Vinsamlega látið vita ef þið sjáið misritun.