Fáeinar endurminningar Helgu, Þórunnar og Boggu …

Síðast breytt 2.júní 2020

Á kvöldvöku á ættarmóti sem afkomendur Maríu Friðriksdóttur og Vernharðs Jósefssonar héldu í Reykjarnesi við Ísafjarðardjúp, í lok júní 2005 voru sögð nokkur stutt minnisatriði frá liðinni tíð. Hér er  samanþjappaður úrdráttur úr því sem tengdist Fljótavík.

Helga Hansdóttir (4.sept. 1925  – 3.júlí 2016 ):         Það voru aðrir tímar þá, en í sælunni nú þegar fólk fer til Fljótavíkur til að leika sér. Það er ekki upplífgandi að rifja svona upp, en hollt þeim sem ekki þekkja til.

Margir ef ekki allir voru mjög fátækir af peningum þarna fyrir norðan á þessum árum. Margt af því fólki sem var í Fljótavík og á Látrum þurfti að fá hreppsland. Veturinn 1934 – 1935 var mikill snjóavetur. Það þurfti að sækja matarbirgðir sem skamtaðar voru til eins mánaðar í senn, út að Látrum. Þetta er þriggja tíma ferð yfir Kjöl að sumri, en tók nú lengri tíma að vetri. Stundum var ekki hægt að fara yfir heiðina í heila viku eða lengur vegna veðurs.

Frá vinstri: Bogga, Bára, Sigrún, Þórunn, Helga og Jósef
Börn Maríu Friðriksdóttur og Vernharðs Jósefssonar

Eitt sinn vorum við orðin svo uppiskroppa með mat að við áttum ekkert nema lítilræði af haframjöli. Beljan stóð nærri geld á básnum. Þarna var ég að verða ellefu ára. Þegar hríðina slotaði um stund á láglendi komst Vernharð yfir að Atlastöðum til þess að fá lánað rúgmjöl og haframjöl. Aftur skall á bilur en þegar birti um stund, komst hann til baka í Tungu með því að fara yfir óskjaftinn úti við sjó. Ég man hvað við vorum hrædd um það hvort hann kæmist heim aftur. Mamma þurfti að upplifa þetta með okkur börnunum. Við urðum svo að slátra einni gimbur. Þá voru innan við 30 kindur í húsi. Það var mikil blóðtaka að þurfa að drepa þó það væri bara lamb frá því um vorið. Síðan var búið til slátur.

Ég man það, að kuldinn var svo mikill að við vorum látin liggja í rúmi heilu dagana vegna þess að það var ekki hægt að kveikja upp í rekavið eða mó vegna bleytu í þessu. Þið getið reynt að hugsa ykkur hvað þetta var erfitt.

En, svo birti upp og þá fór Vernharð út að Látrum. Hann kom sjóleiðina til baka frá Rekavík. Oddvitinn og fleiri komu með honum. Þeim tókst að lenda bátnum á sandinum Tungumegin, sem annars er ekki gerlegt nema í góðu veðri.  Í þessari ferð var komið með vistir til tveggja mánaða.

Þetta upplifðu gömlu hjónin. Þetta er lífsreysla sem þið þurfið ekki að upplifa í dag. Þið leikið ykkur í sælu og sól en það er öllum hollt að minnast liðinna tíma og þeirra sem hafa upplifað tímana tvenna.

Þórunn Vernharðsdóttir (25.janúar 1931):     Ég man eftir mér þegar ég var þriggja og hálfs árs. Ég man eftir húsinu hans afa, Jóseps. Það var stórt og fallegt hús – húsið sem brann (14.desember 1935). Það stóð neðar en önnur hús á hólnum á Atlastöðum. Loftið var óinnréttað. Mér er sagt að ég,  og Grétar (Sivertsen) frændi minn, hafi séð þar svartan kött uppi á loftinu. Það sá hann enginn nema við. En húsið brann mjög snemma.

Þá man ég eftir Ragnari bróður mínum (8.ágúst 1928  – 1.júní 1934). Ég man eftir honum veikum í rúminu, og mömmu að sinna honum. Ég man líka eftir honum þegar hann var dáinn. Hann var í hvítum klæðum og það var búið að færa hann niður í kuldann. Ég man líka eftir honum þegar hann var kominn í kistuna og kistan stóð úti á hlaði. Hann var borinn út að sjó og farið með hann til Aðalvíkur þar sem hann var jarðsettur við hliðina á Margréti (18.ágúst 1929  – 21.október 1929) systur okkar. Áður var hann búinn að liggja tvö ár í rúmi og mamma þurfti alltaf að sinna honum því hann var mjög mikið veikur.

Oft sá ég konu sem enginn annar sá, þegar ég var lítil. Mér hefur verið sagt að það hafi verið Margrét amma mín. Síðar hefur hún komið til mín á miðilsfundi.

Einu sinni elti ég konu fram á tún og kom að skurði sem er fyrir framan þar sem Atlatunga stendur nú. Ég komst ekki yfir skurðinn því hann var svo stór. Ég fór að grenja og sofnaði. Það næsta sem ég man er að Guðrún kona Júlíusar vekur mig og  tekur í fangið og ber mig heim.

Ég man óljóst þegar Bára fæddist (2.september 1934  –  14.febrúar 2011). Ég man þó þegar amma Þórunn kom og tók á móti henni og að það var svona eitthvað meira um að vera en vanalega.

Ég man vel eftir því þegar við fluttum að Tungu. Ég man sérstaklega eftir því þegar við fórum yfir ósinn, því það var ekki verið að fara yfir ósinn að gamni sínu, og allra síst með börn, nema fyrir því væri sérstök ástæða. Það var mjög bjart að koma í Tungu. Sjálfsagt hefur verið gott veður. Hlaðið var svo hvítt enda var jörðin búin að standa í eyði í eitt ár. Ég man lítið eftir bænum. Þó man ég það að við gengum inn í skúr sem mér fannst stór. Niðri voru eldhús og herbergi en uppi var baðstofan. Þarna bjuggum við í eitt ár.

Eftir eitt ár fluttu Brynhildur systir pabba og Ólafur maður hennar, með fjögur börn, að Tungu. Fyrsta sumarið sem þau voru þar, var fleira fólk þarna. Þórunn amma var hjá Ólafi. Hún var með lítinn ömmustrák hjá sér, og þá kom líka strákur í sveit til Ólafs. Mér þótti ákaflega gaman þetta sumar, því þarna var svo margt fólk. Sjálfsagt hefur nú verið þröngt í baðstofunni.

Fjölskyldurnar tvær bjuggu þarna næsta ár – í gamla bænum, en þann vetur fóru Ólafur og pabbi að undirbúa byggingu næsta sumar. Þeir sóttu rekavið í mörgum ferðum norður á Almenninga. Þeir söguðu allan viðinn sjálfir, og Helga tók líka þátt í söguninni. Allir voru látnir vinna sem vetling gátu valdið.

Næsta sumar byggðu þeir bæi, hvor fyrir sig. Þetta voru litlir, en hlýir bæjir, með stórum gluggum að okkur fannst, og það var meira að segja málað að innan.

Einu sinni fóru þeir norður á Almenninga að sækja við. Veðrið versnaði svo á meðan þeir voru í burtu, að Binnu og mömmu hætti að lítast á það. Þær fóru niður að sjó til að taka á móti þeim. Lendingin gekk ekki vel, því bátnum hvolfdi, og pabbi festist undir árum. Ólafur var snar að ná honum undan bátnum, en þá var hann orðinn rænulaus.Pabbi hresstist furðu fljótt og gat meira að segja gengið heim en var þó einn eða tvo daga að ná sér eftir þetta.

Samvinna Ólafs og pabba var afar góð allan tímann. Þeir urðu góðir vinir. Þeir byggðu líka upp öll útihús í Tungu.

Ég lærði að lesa hjá henni Binnu. Hún var nefninlega kennari. Hún vildi endilega senda mig í próf út að Látrum. Ég fór með fullorðnu fólki – það mun hafa verið Finnbogi (Jósefsson) frændi og fleira fólk. Þarna var ég bara sjö ára. Sumt fólkið gekk á skíðum og fór svo hratt yfir að ég var nærri dauð þegar við komum til ömmu á Ystabæ.

Bær Brynhildar og Ólafs brann eftir tvö ár. Þau fluttu því í burtu, og þá vorum við aftur orðin ein í Tungu. Allt gekk þó vel. Stelpurnar í Tungu voru látnar vinna við heyskap og að smala eins snemma og hægt var. Helga smalaði ein fyrstu árin þar til við Bogga tókum við. Við vorum alltaf tvær, svo þetta var betra fyrir okkur. Við fórum snemma að mjólka kvíærnar. Á haustin lékum við okkur að kindahornum en á veturna lékum við okkur að skeljum, því við áttum engin önnur leikföng.

Það var stórviðburður þegar Sigrún systir fæddist (29.júní 1940), því það hafði ekki fæðst barn í Tungu í á annan tug ára. Við Bogga vorum sendar fram á hlíðar til að gæta kinda, líklega til að heyra ekki hljóðin í mömmu. Við flýttum okkur eins og við gátum til þess að komast sem fyrst til að sjá barnið. Sigrún varð strax dekurdúkka enda þá yngsta stúlkan, því Bára var að verða 6 ára þegar Sigrún fæddist.

Þremur árum seinna fæddist Jósef (24.mars 1943) . Þá var allt í snjó. Brynhildur Jónasdóttir ljósmóðir kom löngu áður, og dvaldi í þrjár vikur alls. Loks kom drengurinn. Allir voru svífandi af gleði yfir því. Mér fannst gaman meðan Brynhildur var hjá okkur því hún var svo skemmtileg.

Þarna var ég farin að gera ýmislegt á heimilinu og Helga farin að heiman, og Bogga í skóla úti að Látrum. Ég man sérstaklefa eftir einu atviki. Ég var að skúra eldhúsið og Sigrún var að sniglast rétt hjá eldavélinni. Kjóllinn hennar var svo nálægt eldavélinni að það kviknaði í honum. Ég sá hvað gerðist svo ég skellti blautri tuskunni á eldinn svo það slökknaði og hún brenndist ekki neitt. Mamma minntist oft á þetta.

Þetta voru nokkur minningarorð sem mig langaði að segja ykkur.

 Herborg Vernharðsdóttir (29. janúar 1932 – 1. júní 2020) : Ég ætla að segja ykkur frá því hvernig við þurftum að hlaupa á eftir beljunni frá Tungu og niður í ós til að stöðva hana í því að stelast yfir ósinn til Atlastaða. Þetta var nefninlega selskapsbelja. Allir sem þekkja til vita að þetta er enginn smá spölur frá Tunguhólmum og niður að ós. Stundum sáum við hana lengst niðri á bökkum og urðum að ná í hana áður en hún fór í ósinn, því nitin minnkaði svo í henni ef hún fór yfir. Oft náðum við henni ekki fyrr en á síðustu stundu þegar hún var komin út á leirarnar – en stundum tókst það ekki. Við vissum það heima, að þá yrði minni mjólk að drekka á eftir.

Ég man líka eftir því hvernig við umgengumst hesta, þegar verið var að reiða hey heim í böggum framan af hlíðum – og víðar.

Á stríðsárunum fóru oft heilu flotarnir fyrir víkina. Ég man eftir því þegar flugvélar voru búnar að fljúga mikið yfir og sérstaklega man ég eftir því í eitt skiptið þegar farið var að skjóta. Við sáum eldglæringar úr byssunum. Við vissum svo sem að það var stríð, en einhvern vegin vorum við ekki hrædd, því þó það væri stríð þá var ekkert stríð hjá okkur. Í eitt skiptið þegar þeir voru að fara austur fyrir,  skutu flugvélarnar mikið, og líka á bak við Kögurinn. Við sáum skipin dálítið langt í burtu. Þau sigldu áfram – en svo fórum við að sjá reyk koma fyrir Kögurinn. Það rauk allan seinni part dagsins og fram á kvöld, og það rauk þegar við urðum að fara að sofa. Ég hafði annars ekki ætlað að missa af þessu, en – ég var rekin í rúmið. En við hugsuðum mikið til strákana á Atlastöðum – Geirmundarsona, því við hugsuðum að – NÚ – NÚ – færu þeir upp í Bæjardal og horfðu fram af hinum megin og sæju skipið stóra sem væri að brenna. Við vissum aldrei hvort þeir fóru þetta því það fréttist aldrei neitt af því.

Í stríðinu fréttist stundum af því að það ráku lík upp í fjöru. Einhvern tíma í seinni hluta stríðsins rak lík í Fljótavík. Þetta varð að tilkynna til yfirvalda. Enginn mátti skipta sér að reknum líkum. Þá komu hermenn frá Sæbóli og settu líkið í pappakistu og dysjuðu það rétt fyrir utan Naustirnar eins og það heitir. Þeir köstuðu steinum yfir kistuna og geymdu síðan þarna þangað til stríðið var að verða búið. Þá komu þeir og sóttu þetta.

Ég man að eitt sinn er ég var að fara út hlíðina var mér mikið hugsað til þessa manns sem lægi þarna. Ég var ekki hrædd, en ímyndunaraflið fór svo skart með mig að ég var farin að sjá andlit eins og það sneri fram að sjó. Þá varð forvitnin vakin og ég fór nær og sá þá að þetta var steinn.

Hér fóru systurnar að gantast sín á milli og vildu endilega fá Boggu til að segja sögu um viðureign  við naut. Hún áttaði sig ekki á því hvað þær voru að tala um og því sagði Þórunn söguna fyrir Boggu hönd.:

 Pabbi átti naut sem eitt sinn slapp niður undir Julluborgir. Við hlupum eins og við gátum og náðum því þegar það var komið eiginlega miðja vegu á milli Julluborgar og Kríuborgar. Bolinn var mannýgur – grimmur – og bölvaði og ragnaði, og sparkaði sandinum. Bogga var svo köld (reið skaut hún sjálf inn) að hún fann spítu og andskotaðist í nautinu. Ég stóð eins og aumingi fyrir aftan hana. Bogga sagði við mig  gerðu svona – og svona – og svo lamdi hún nautið aftur og aftur þangað til það lét undan og fór bara til baka. Eftir að nautið sneri við var það eins og lamb.

Bogga: Ég ætla ekki að segja meira nú frá liðinni tíð, en sé þegar ég horfi yfir salinn sé ég að ég er búin að temja helminginn af ykkur hérna inni – það eltir mig allt norður í Fljót. Ég er svo hamingjusöm að eiga þetta yndislega hús þar og yndislega afkomendur og skyldfólk sem er alltaf að koma til mín.

Þórunn:  Ég verð að fá að segja frá því að eitt af ömmubörnum mínu – Aron – segir að Bogga sé skemmtilegasta kona sem sé til.

Print Friendly, PDF & Email

One Reply to “Fáeinar endurminningar Helgu, Þórunnar og Boggu …”

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA