Frásögn Geirmundar- Bátur sóttur

Skráð af Snorra Grímssyni

Ritstjóri áá:   Í tengslum við undirbúning ættarmóts á árinu 1996, bað Geirmundur Júlíusson Snorra Grímsson um að skrifa frásögn, sem hann vildi að lesin yrði á niðjamóti hans þá síðar um sumarið. Frásögnin er birt með góðfúslegu leyfi Snorra.

Á skíðum til Rekavíkur bak Höfn – og róandi heim.

 

 

Snorri:   Það er kunnara en frá þurfi að segja, að mörgum þykir svæði það, sem almennt er nefnt Hornstrandir, skemmtilegt til útivistar og ferðalaga. Flestir ferðast þar um gangandi að sumarlagi og þykir oft nógu strembið að ferðast um brattar brekkur og hvassar fjallseggjar. En færri eru þeir, sem hafa farið þessar leiðir að vetrarlagi. Meðan búið var þar norður frá, bar það að sjálfsögðu oft við, að menn þyrftu að fara milli staða og ekki alltaf við sem bestar aðstæður. Hér verður sögð ferðasaga nokkurra ungra manna, sem gengu á skíðum frá Atlastöðum í Fljóti fyrir rétt tæpum 70 árum. Sagan er tekin saman eftir frásögn Geirmundar Júlíussonar, en hann var einn ferðalanganna.

Geirmundur:   Það var veturinn 1928, að svo hafði til talast við Stefán Pétursson í Rekavík bak Höfn, að við mættum koma hvenær sem hentaði, til að líta á sexæring sem þar var. Í Fljóti vantaði plógbát til að taka upp kúfisk til beitu og var ætlunin að nota þetta skip til þess. Var síðan ákveðið, að við færum á pálmasunnudag, þrír saman, til þess að sækja skipið. Auk mín, sem þá var tvítugur, voru bræðurnir Vernharður og Finnbogi Jósefssynir með í för. Vernharður var þá 22 ára, en Finnbogi 15. Við vorum alvanir skíðaferðum um fjöllin; fórum á skíðum sem við smíðuðum sjálfir og notuðum einn staf til að styðja okkur og stýra förinni. Höfðum við þannig oft rennt okkur ofan allan Kjöl niður í Fljótið.

Mamma vakti mig snemma að morgni pálmasunnudags og klukkan 7 lögðum við upp frá Atlastöðum. Við gengum á skíðunum sem leið lá inn allar breiður og smáhækkuðum okkur þar til komið var upp á Snið, neðan Þorleifsskarðs. Skarðið er fremur leiðinlegt yfirferðar, bratt upp beggja vegna og grýtt. Við fórum yfir á Almenninga og þegar niður kom úr skarðinu héldum við hæð á hjalla, sem liggur þar undir fjallsöxlinni neðan undir skörðunum sem liggja að Kjaransvík. Skörðin eru tvö, Almenningaskarð, sem er utar og Kjaransvíkurskarð (á kortum nefnt Bergþóruskarð) ofar. Við völdum efra skarðið.

Þennan vetur var fremur lítill snjór, en frost hafði verið um nóttina svo snjórinn brast ekki undan í spori og færið var eins og best varð á kosið, mjög gott rennsli, enda runnum við ofan úr skarði alla leið að fjörukambi við Kjaransvíkurá. Kjaransvík var þá fyrir mörgum árum komin í eyði. Fyrir Álfsfell urðum við að ganga í fjöru, en lítill fannst mér Hlöðuvíkurós þegar að honum kom. Það mátti stika yfir hann. Mér fannst hann vart verðskulda ósheitið í samanburði við Atlastaðaósinn heima.

Klukkan hefur líklega verið um níu eða hálftíu þegar við komum að Búðum í Hlöðuvík. Bærinn var að mestu á kafi í snjó, þótt veturinn væri ekki snjóþungur eins og fyrr var getið. Á Búðum var tvíbýli og bjuggu þar annars vegar Guðni Kjartansson og Hjálmfríður Ísleifsdóttir, þá um sjötugt, og hins vegar Ingibjörg, dóttir þeirra, ásamt manni sínum, Guðlaugi Hallvarðssyni. Hafa þau verið um fimmtugt þegar þetta var. Hjá þeim stöldruðum við í um hálftíma eða svo og fengum að borða.

Þá skyldi lagt á hinn illræmda Skálarkamb. Fyrst lá leiðin upp Skálarbrekkuna, en síðan Kambinn sjálfan, sem var venju fremur auðveldur viðfangs í þetta sinnið. Lítið um klaka eða harðfenni, en leiðin að mestu auð með stórum staksteinum, sem auðvelduðu uppgönguna. Þegar upp kom, var stefnan tekin á Atlaskarð, en handan þess var Rekavík. Við héldum áfram viðstöðulaust, nema hvað við köstuðum steinum í dysina í Atlaskarði. Sagt var að þar hefði maður látið líf sitt, jafnvel í viðureign við bjarndýr, en ekki bar þó öllum saman um það.

Þegar Atlaskarði var náð, var eftirleikurinn næsta auðveldur. Við fengum gott rennsli og vorum komnir niður að bæ í Rekavík um klukkan hálf-tólf. Þar bjuggu þá bræður tveir, Sigurður og Jón Hjálmarssynir. Sigurður var hálffertugur, en Jón kominn eitthvað yfir fertugt. Með þeim bjó fósturbróðir þeirra á þrítugsaldri, Stefán Pétursson. Í Rekavík vorum við drifnir inn og fengum þar að borða hjá bústýru Sigurðar, Ingibjörgu Ásgeirsdóttur, móður Högna Sturlusonar. Ingibjörg mun þá hafa verið um þrítugt. Á meðan fóru þeir bræður ásamt Stefáni til þess að grafa bátinn úr fönn. Hann var alveg á kafi, því neðan við bæ í Rekavík eru miklir bakkar niður að sjó og skefur fram af þeim snjó á vetrum. Við fórum svo fljótlega ofan bakkana líka til að moka.

Loks var skipið orðið laust og því var hrundið fram. Þetta var fremur stór sexæringur og í honum fjórar árar. Frekar voru þær af stærri gerðinni, um 5 metrar á lengd og luralegar. Hlummarnir voru stórgerðir og nánast ferstrendir, svo ekki varð handgripið gott. Þeir bræður, Vernharður og Finnbogi, stukku þegar fram í barka og settust þar hvor undir sína ár. Ég sá þá að mér mundi ætlað að róa á bæði borð, settist á miðþóftuna og greip til áranna. Ærið fannst mér handtakið að róa þannig, því langt var milli ára enda ætlað tveimur mönnum. Hlummarnir voru óþægilegir, sem áður er lýst og auk þess voru árarnar stórar og eftir því þungar og erfitt að lyfta þeim úr sjó. Og þegar blaðið var í sjó í áratogi, þá voru hlummarnir svo hátt að ég varð að standa upp og leggja allan þunga minn í róðurinn. Einhvers staðar náði ég víst spyrnu, en mikið var þetta þó þreytandi.

Um klukkan hálfeitt eða eitt lögðum við af stað. Við héldum sem leið lá út með Hælavíkurbjargi og rerum svo vestur fyrir Víkur með stefnu á Hauga. Svo heppilega vildi til, að við fengum með okkur vesturfall allt vestur undir Sandvík. Það létti greinilega róðurinn. Það fundum við þegar fór að falla að og straumurinn lagðist á móti okkur. En allt hafðist þetta og við komumst fyrir Kögur og inn að naustum Atlastaðamanna.

Skömmu eftir að við komum að, kom pabbi ásamt fleirum heiman frá Atlastöðum og hjálpuðu okkur að setja bátinn. Þá var klukkan nálægt 7 um kvöldið og við höfðum því verið 12 tíma á ferð frá því við lögðum af stað að heiman um morguninn og þar af um 6 – 6½ tíma á sjó.

Það fór nú reyndar svo með þetta skip, að það var ekki notað nema þetta eina vor, því hvort tveggja var það þungt í vöfum og þurfti nokkurn mannskap til að nýta það, og var líka alveg hriplekt. Þurfti nánast að hafa mann í austri allan tímann meðan skipið var á sjó. Það sem hafði haldið því á floti þegar við sóttum það, var án efa klaki, því það var eitt klakastykki þegar búið var að moka það út úr skaflinum í Rekavík. Það fór því hér, sem stundum verður, að mikið var á sig lagt fyrir lítið.

 Snorri:    Þess má geta til gamans og fróðleiks, að leiðin, sem þeir félagar fóru gangandi og á skíðum á tæpum 5 klukkutímum, er rúmir 25 km og ferðamenn fara hana gjarnan fótgangandi á sumrin sem tvær dagleiðir. Er þá leiðin úr Fljóti að Búðum í Hlöðuvík farin á 8 – 10 tímum, en þaðan til Rekavíkur á 3 – 6 tímum. (Þá eru menn að vísu að skoða landið, en ekki að flýta sér um slóðir sem þeir gjörþekkja.) Auk þess þarf á fyrri hluta leiðarinnar að fara tvívegis upp í um 400 m hæð og lækka sig um rúma 100 m í millitíðinni, en Skálakambur og Atlaskarð eru um 300 m há en dalbotninn neðan Atlaskarðs, Hælavíkurmegin, rúmum 100 m lægri. Sjóleiðin er ámóta löng, eða nálægt 15 sjómílum. Hraði þeirra hefur því verið rúmir 5 km á klst á landi, sem telst góður gönguhraði á nær sléttu landi, hvað þá svo bröttu og mishæðóttu sem hér um ræðir. Hraðinn á sjó hefur verið um 2½ sjóm. á klst. í róðri.

Sjá einnig umfjöllun um Geirmund og Regínu 

Print Friendly, PDF & Email

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA