Hvort myndi reiður reiða reyð – yfir Reiðá eða Reyðá?

Í Atlatungu eru mörg drykkjarílát sem eru alveg eins – og því hafa verið alls konar útgáfur af merkingum í umferð – bandspottar í hanka eða eitthvað í þá veru. Svo datt “einhverjum” í hug að nota merkivél til að merkja hluta ílátanna með örnefnum úr Fljótavík. Úr því hafa komið skemmtilegar umræður og margir velta því fyrir sér hvar þetta eða hitt er staðsett.

Þar sem ég verð að kannast við að vera sá “einhver” sem er nefndur í málsgreininni að ofan, er mér ljúft og skylt að segja frá því að það eru ekki allir sammála um hvernig beri að skrifa heiti sem ég skrifað á eitt glasið: – –  “Reyðá” . – –

Skúli Thoroddsen sýslumaður virðist hafa skrifað Reiðará árið 1899, ef eftirritið  er rétt. Þá er áin nefnd Reiðá á kortinu sem sýnt er hér. Ég fór yfir þau gögn sem eru á flipanum “Örnefni”  hér á síðunni og út kom þessi tafla:

Gunnar  Ari Jóhann
Reyðár Reiðá Reiðá
Reyðáreyrar Reiðáreyar  
Reyðársteinn Reiðársteinn  
Reyðárholt Reiðárholt Reiðárholt
    Reiðárholtasteinn

Spurningin er því – hver er uppruni orðsins? Reyður er gamalt orð yfir bleikju – ekki satt? Var áin hvítflyssandi reið – eða einhver öskureiður þegar hann gaf ánni nafn? Eða vísar nafið til þess að þarna hafi einhver verið að reiða einhvern yfir ána?

Orðið er laust – veit einhver fyrir víst?

Ásgeir

PS: Hér er hlekkur á leit í www.snara.is – sem virkar stundum og stundum ekki – en alla vega kemur þar skýrt fram hvernig reyður var notað yfir silung hér áður fyrr……

Hvernig gengur?

Í byrjun október 2013  rak ég mig á það að eldri fundargerðir Umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar voru í rúst – í þeirri meiningu að þær nýjustu voru finnanlegar en eldri ekki. Ég hafði einmitt verið með tengingar í fundargerðir í Publisherútgáfunni – og gat nú ekki unnið þetta upp á nýtt þar sem fundargerðirnar voru hreinlega ekki í netheimum.

Þarna kom sér vel að vera vel tengdur – svo ég nýtti mér klíkuskapinn – og það leiddi til þess að það liðu bara einhverjar klukkustundir frá því að ég sendi póst á “Upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar” uns fundagerðirnar voru komnar aftur á netið. Svo….. ég er búinn að fara með töluverðan tíma í að lesa fundargerðir og byggja upp tengingar í þær sem tengjast Fljótavík… svona í þeiri meiningu að allt sjónarsviðið sem sjáist frá láglendi Fljótavíkur – komi okkur við. Þess vegna kemur Straumnes okkur við – að sjálfsögðu.

Ég er nú ekki alveg sannfærður um að allir sem uni Fljótavík – hafi endilega brennandi áhuga á skipulagsmálum og stjórnkerfinu yfir höfuð – vilji helst sem minnst um slíkt vita – en þetta er nú samt hluti af kerfinu – og þá er bara um að gera að nýta sér það.

Eitt þurfa  allir að gera sér glögga grein fyrir. Lýðræðislegt sjórnkerfi eins og við búum við er eitthvað sem hægt er að hafa áhrif á – og – lýðræðið gengur einmitt út á það að ef ÞÉR finnst sem eitthvað ætti að vera öðru vísi – þá átt ÞÚ að geta haft áhrif. Þarna skiptir miklu máli, sem dæmi, að gera athugasemdir við mál sem kunna að vera í ferli hjá yfirvöldum, á réttum tíma – og allir verða að gera sér grein fyrir að ef athugasemdir eru ekki gerðar fyrir uppgefna fresti yfirvalda – verður það of seint. Þessu má aldrei gleyma.

En  – ég hef undanfarið verið að ná mér í upplýsingar sem ekki voru fyrir á gömlu www.fljotavik.is. Það ætti svo að vera tiltölulega fljótlegt að byggja gömlu síðurnar upp á nýtt.

Ég held samt að ég hætti að horfa á áramót sem upphafsdag nýrrar síðu….. nú seinkar því eitthvað.

Ásgeir

 

Þetta er náttúrulega bilun……

Hér sit ég undir kvöld, í októberbyrjun árið 2013, í um 30 gráðu hita í skugga – Guð forði mér frá því að giska á hitann í sólarljósi,  hvað þá á einhverju svörtu….. – og reyni að smá mjaka því áfram – að færa gömlu heimasíðuna yfir á nýtt form.

Ég er loks farinn að skilja þetta –  svona aðeins – og kanski verður þetta bara í lagi fyrir rest. Alla vega ætti að vera á hreinu um “alla framtíð” að þó tölvan mín eða einhvers annars sem nú kann að taka við af mér – hrynji – ætti að vera til afrit einhvers staðar ….. sem hægt verði að komast í til að halda síðunni gangandi,

Ég er sjálfur úti í heimi… Boca Raton, Florida – sem er á austurströnd skagans, tiltölulega sunnarlega. Það tekur um klukkustund að keyra eftir hraðbrautunum til Miami og um þrjár og hálfa klukkustund að keyra til Sanford flugvallar, sem er laust fyrir norð-austan Orlando.

Sólarkveðjur frá Florida.

Þetta var svo tilraun til að skrifa blogg.

Ásgeir

EnglishUSA