Flundran er komin…..

Það þarf víst engum blöðum um það að fletta….. flundran er komin út um allan ós – þ.e.a.s. sjávarmegin við Langanes.  Hörður Ingólfsson hjá Veiðifélagi Fljótavíkur segir að eftir því sem hann best viti, hafi flundra ekki farið inn fyrir (fram fyrir) Langanes inn í vatnið. Þó getur flundra þrifist alls staðar þar sem silungur þrýfst og því mun minni selta í vatninu ekki koma í veg fyrir að flundran fari þangað og jafnvel fram að Reyðá – því miður. Hörður hefur þó upplýsingar sem benda til þess að flundra fari ekki yfir steinóttan botn eins og er í rennunni  meðfram innanverðu/framanverðu Langanesinu, heldur haldi sig alfarið við sendinn botn.   

Julí tæming 862

Veiðifélag Fljótavíkur hefur gert tilraunir með að leggja sérútbúið net í þeim tilgangi að grisja og meta stærð flundrustofnsins. Þarna er sú staðreynd nýtt að silungur heldur sig ekki alveg við botninn þar sem flundran er. Netin eru útbúin þannig að möskvarnir eru bundnir niður á blýteininn þannig að svo til allir möskvar aðrir en efsta röðin – þ.e.a.s. sú sem er næst flotunum – eru bundnir við sökkuteininn og netið liggur þá allt í botninum að undanskilinni smá rönd sem lyftist mest 15 cm frá botninum. Þessi litla rönd er nóg til að grípa flundruna – og hefur hún veiðst í tugatali í svona net – en enginn silungur hefur veiðst þannig.

Einnig hefur verið gerð tilraun með að binda netslitrur við steina og ánetjast  einnig töluvert af flundrunni í slíkt – en enginn silungur.

Á myndinni hér að ofan sést Hörður vera að vitja í svona útbúnað – og augljóst er að að það er gríðarlega mikið af flundru í ósnum – þarna eru 3 fiskar á eins meters parti og það grillir í fisk í botni álbátsins.  Með Herði er Jón Ólafur sonur hans. Eitthvað verða flundrur að éta, og líklegt að seiði bleikjunnar séu ofarlega á matseðlinum.

Ítrekað skal að þessar tilraunaveiðar voru á vegum Veiðifélags Fljótavíkur – og breyta ekki því að öll netaveiði á vatnasvæði Fljótavíkur að sjó – er bönnuð.

flunder En hvað er flundra?   Veiðimálastofnun er með lýsingu.   Flundran er matfiskur, en til þess að það sé eitthvert vit í að flaka hann þarf þyngdin að vera komin upp í minnst 300 g. Heimildir eru um að flundra hafi verið með allra dýrustu fiskum á matseðlum á fínum matsölustöðum úti í heimi.

Er þá ekki málið að safna uppskriftum um matreiðslu flundru – og veiða hana – eða húkka – með stöng.  Sláið inn “cooking flounder” í leitavélar og þið finnið helling af uppskriftum. Gegnumgangandi virðist þetta ganga út á að flaka fiskinn – steikja í einhverri fitu og kryddi,  og sjá svo til þess að safi úr appelsínum komi einhvers staðar nálægt – hvort sem það er í marineringu og/eða sósu. Hver er með bestu uppskriftina fyrir Fljótavík?

EnglishUSA