Þegar ég birti pistil, þann 18.júlí 2014, um skemmtiferðarskip sem kom inn á Fljótavík, voru nokkrar vikur liðnar frá því að ég fann myndirnar sem einhver farþega skipsin tók og sýna svo ekki verður um villst að farþegar af skemmtiferðarskipum eru að fara í land utan alfararleiðar og þar á meðal í friðlönd. Ég var líka búinn að skrifa hluta af pistlinum, en fannst einhvern vegin að þetta væri….”ekkert”. Svo ákvað ég fyrir rest að birta þetta – og þá var ég meðal annars með í huga hvernig önnur lönd eins og Bandaríkin eða Ítalía taka á málum þegar skip koma að landi þar sem ekki eru yfirvöld og eftirlistaðilar. Í þeim löndum yrðu þessir farþegar handteknir eins og skot!
Svo merkilega vill til, að fáeinum dögum eftir að ég birti pistilinn, kom viðtal við Hauk Vagnsson framkvæmdastjóra ferðaþjónustunnar í Bolungarvík um þetta sama efni (Athugið að það er hægt að hlusta á viðtalið með því að velja hljóðklippuna rétt undir myndinni). Ég gerði þá það sem ég hef aldrei gert áður – skrifaði inn á spjallsíður og vísaði í pistil minn og alveg sérstaklega myndirnar sem tengil.
Það var eins og við manninn mælt – að allir teljarar sem sýna „innlit“ á síðuna ruku upp í hæstu hæðir, svona miðað við það sem ég á að venjast, og það sem meira var – það fór af stað umræða bæði á www.bb.is og eins í öðrum fjölmiðlum . Það er ekki úr vegi að reyna að halda einhverju af þessu til haga hér.
En í ljósi þeirrar skoðunar sem finna má hjá að minnsta kosti hjá einum aðila sem skrifaðist á við mig á bb, vil ég enn og aftur hvetja alla sem teljast landeigendur í friðlandi Hornstranda að ganga eftir því að þinglýsingar jarðanna séu í lagi – og munið að fyrir hvern dag sem líður – styttist um einn í það að úrskurður Óbyggðarnefndar liggi fyrir. Ég vil ekki fyrir nokkurn mun þurfa að heyra eftir að sá úrskurður liggur fyrir – að landeigendur hefðu átt að gæta réttar síns betur.
Og enn og aftur – ritsjóri er ekki og verður aldrei landeigandi í Fljótavík.