Fransmannagrafir í Fljótavík?

Til að skrifa skilaboð skal velja hlekkinn sem tengist yfirskriftinni.

Í lok febrúar 2022 fékk ég skemmtilega og merkilega upphringingu frá Maríu Óskarsdóttur sem býr á Patreksfirði. Eftir að hún hafði kynnt sig og spurt hvort ég væri nú ekki sá sem “væri með” þessa síðu, sagði hún á sér deili.

María hefur í yfir tuttugu ár safnað upplýsingum um samskipti íslendinga við Fransmenn á skútuöldinni. Ég leitaði hennar á internetinu og þar má finna margt athyglisvert. Hún hefur gefið út bók um þetta grúsk sitt, og ríkisútvarpið (Landinn) ræddi við hana árið 2016.

Í Landanum kom fram að hún sé nú farin að einbeita sér að því að safna upplýsingum um grafir Fransmanna á Vestfjörðum. Talið er að hátt í 4 þúsund Fransmenn hafi látist við strendur Íslands. Margir þeirra hvíla í ómerktum gröfum við sjávarsíðuna. Oftast var farið styðstu leið í land og þeir grafnir jafnvel í fjöruborði eða því sem næst. Það mátti ekki missa tíma frá veiðunum.

María segir að sögur um Fransmannagrafir, þar sem eldri kynslóðir hafi sagt þeim yngri, séu enn lifandi, og hún vilji safna þeim.

Og þá er komið að Skiphól í Fljótavík. María hefur heyrt sagnir um að Fransmenn sé grafnir í Skiphól. Ég benti á að Skiphóll væri ansi langt frá sjó, sem stangast á við að mönnum lá á að komast aftur á veiðar.

María sagði frá heimildarmanni sem var ættaður frá Norðurfirði á Ströndum. Sá hafi sagt að hann hefði heyrt sagnir um að þarna séu grafnir (fleirtala) Fransmenn. Hún veit þó ekki hvaðan hann hafði þessar upplýsingar.

Samtal okkar stóð lengi og m.a. rætt að líkum sem skolaði á land í seinni heimsstyrjöld hafi verið komið fyrir og þau dysjuð en þau sótt að styrjöldinni lokinni.

María er ekki á Facebook og við komum okkur saman um, að ef eitthvað kemur út þessari fyrirspurn, muni ég hafa samband við hana.

Hefur einhver heyrt um svona Fransmannagrafir í Fljótavík?

EnglishUSA