Fransmannagrafir í Fljótavík?

Til að skrifa skilaboð skal velja hlekkinn sem tengist yfirskriftinni.

Í lok febrúar 2022 fékk ég skemmtilega og merkilega upphringingu frá Maríu Óskarsdóttur sem býr á Patreksfirði. Eftir að hún hafði kynnt sig og spurt hvort ég væri nú ekki sá sem “væri með” þessa síðu, sagði hún á sér deili.

María hefur í yfir tuttugu ár safnað upplýsingum um samskipti íslendinga við Fransmenn á skútuöldinni. Ég leitaði hennar á internetinu og þar má finna margt athyglisvert. Hún hefur gefið út bók um þetta grúsk sitt, og ríkisútvarpið (Landinn) ræddi við hana árið 2016.

Í Landanum kom fram að hún sé nú farin að einbeita sér að því að safna upplýsingum um grafir Fransmanna á Vestfjörðum. Talið er að hátt í 4 þúsund Fransmenn hafi látist við strendur Íslands. Margir þeirra hvíla í ómerktum gröfum við sjávarsíðuna. Oftast var farið styðstu leið í land og þeir grafnir jafnvel í fjöruborði eða því sem næst. Það mátti ekki missa tíma frá veiðunum.

María segir að sögur um Fransmannagrafir, þar sem eldri kynslóðir hafi sagt þeim yngri, séu enn lifandi, og hún vilji safna þeim.

Og þá er komið að Skiphól í Fljótavík. María hefur heyrt sagnir um að Fransmenn sé grafnir í Skiphól. Ég benti á að Skiphóll væri ansi langt frá sjó, sem stangast á við að mönnum lá á að komast aftur á veiðar.

María sagði frá heimildarmanni sem var ættaður frá Norðurfirði á Ströndum. Sá hafi sagt að hann hefði heyrt sagnir um að þarna séu grafnir (fleirtala) Fransmenn. Hún veit þó ekki hvaðan hann hafði þessar upplýsingar.

Samtal okkar stóð lengi og m.a. rætt að líkum sem skolaði á land í seinni heimsstyrjöld hafi verið komið fyrir og þau dysjuð en þau sótt að styrjöldinni lokinni.

María er ekki á Facebook og við komum okkur saman um, að ef eitthvað kemur út þessari fyrirspurn, muni ég hafa samband við hana.

Hefur einhver heyrt um svona Fransmannagrafir í Fljótavík?

Frétt frá árinu 1910

Það er ekki endilega markmið ritstjóra að vera fyrstur með fréttir. Það er frekar markmið að frétt hafi einhver tengsl við byggðina í Fljóti.

Hér kemur frétt sem segir frá því að mótorbátur hafi sokkið á Fljótavík, og ekki náðst upp aftur. Það virðist ekki skipta neinu máli hvort báturinn hét eitthvað, eða hversu stór hann var. Einnig virðist aukaatriði hvort einhver var um borð eða hvort allir hafi nú bjargast ef einhverjir voru um borð.

Fréttin hér að ofan er úr blaðinu Vestra sem var gefið út 24. september 1910. Seinni fréttin, sem er hér fyrir neðan, er úr Þjóðviljanum frá 12. okt. 1910.

Það er freistandi að halda að strax þarna árið 1910 hafi fjölmiðlar verið byrjaðir að vinna sínar fréttir upp úr fréttum sem þeir hafa lesið í öðrum fjölmiðli. Vélbátur í stað mótorbáts og ekki náðst á flot í staðinn fyrir ekki náðst upp.

Og svo gerir maður þetta sjálfur……. 🙂

Innrásarpramminn á hafsbotni

Nýlega rakst ég á umfjöllun um sjómælingar ársins 2020. Þar kemur fram að á hafsbotni í Fljótavík skannaðist innrásarpramminn sem sökk þar hegar hann var notaður við flutninga á byggingarefni milli Ísafjarðar og Fljótavíkur.

Mér vitanlega hefur frásögn um örlög prammans, ekki verið skrifuð. Ef mér skjátlast ekki eru tengsl á milli þess að pramminn sökk og þess að jeppinn góði komst aldrei til baka inn á Ísafjörð. Stundum er því haldið fram að gömlu, gengnu mennirnir – hefðu haft eitthvað með þetta að gera – þeir hafi séð notagildi í jeppanum í Fljóti.

Hér er tengin á frétt Landhelgisgæslunnar um sjómælingar

Kröflulýsing um þjóðlendumörk “í Fljóti”

Óbyggðanefnd hefur birt kröfulýsingu fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkisins um þjóðlendumörk á svæði 10B. Fljótavík fellur undir þetta svæði.

Ríkið vill lýsa svæði sitt hvorum megin við víkina sem Þjóðlendur. Annars vegar yst í Hvestu og heins vegar Almenninga vestari í norðaustanverðum Kögri.

Ekki verður hróflað við landareignum eins og þeim er þinglýst.

Kröfulýsingin sjálf er mikið plagg. Þar kemur margt fróðlegt fram, og leyfi ég mér að gera smá Copy/Paste úrdrátt úr þessu og búa til síðu vistaða undir flipanum “Örnefni” – enda koma þarna fram lýsingar sem ekki eru í örnefnalýsingum fyrir víkina.

Sævör nýtist sem björgunaraðstaða

Snemma vorið 2019 og fram á sumar, voru farnar vinnuferðir í þeim tilgangi aið byggja “hafnarmannvirki” í Fljótavík. Framkvæmdirnar gengu að mestu vel, og það er til skemmtileg myndaröð til að sýna framvinduna.

En hver er reynslan fram að þessu?

Það er sérstakt að átta sig á því að nú þegar hafa björgunaraðilar þurft að nýta þess bryggju í tvígang til að koma mannskap í land. Strax um hásumar 2019 þegar erlent par villtist í svarta þoku niður í Hvestudali í stað þess að koma niður í Tungudal í Fljóti. Það eru til magnaðar myndir af briminu og aðstæðunum, og merkilegt að hugsa út í það að þarna var björgunarþyrla Landhelgisgæslunar komin yfir víkina en gat ekki athafnað sig og varð frá að hverfa.

Úrhellisrigningar, þoka, mjög hvasst, brim í öllum flæðamálum – og fólkið þorði hvorki upp aftur eða niður. Þarna sýndi sig gagnsemi “rampans/bryggjunar/ Sævarar… já og skjólveggsins á rampanum.

Á þessu sumri – 2020 – þurfti að ferja leitarfólk í land – til leitar að göngufólki sem talið var að væri týnt í þoku í Þorleifsskarði, og hafði náð að biðja um hjálp. Það fólk komst reyndar niður og í skjól í Kjaransvík – en engu að síður kom Sævör sér vel þarna.

Hér er tengill á myndasíðu um tilurð Sævarar við “Stóru steina” í Fljótavík