Einhvern rekur kanski minni til, að ég skrifaði á sínum tíma, pistil undir yfirskriftinni:
Hvort myndi reiður reiða reyð yfir Reiðá eða Reyðá
Ef þið veljið stóra textann, dúkkar sá pistill upp, frá október 2013. Eins og oftast er, fékk ég rýra umræðu um málið. En nú er búið að bera þetta undir sérfræðing og með hans samþykki, birti ég hér skrif Hallgríms J Ámundasonar hjá Árnastofnun :
“Samkvæmt heimildum er ýmist skrifað Reiðá eða Reiðará og ýmist með -i- eða -y-. Örnefnaskrár úr Fljótavík hafa flestar Reiðá. Landamerkjalýsing Atlastaða hefur Reiðará. Kort Landmælinga Íslands hafa Reiðá
Örnefni með -reið- vísa vanalega til staða sem farið var um ríðandi á hesti, sbr. Reiðholt eða Reiðskörð. Ég veit ekki hvort því er nokkuð að heilsa í tilfelli Reiðár og væntanlega eru flestar ár á Vestfjörðum vel reiðar og óþarfi að taka það fram.
Líklegast er að réttur ritháttur sé Reyðá og nafnið tengist annað hvort silungi eða hval enda eru til mörg örnefni sem vísa til þessara fyrirbæra, sbr. Reyðará eða Reyðarfjörður. Það að örnefnið hafi verið skrifað Reiðá á 19. öld er ekki röksemd í málinu því á þeim tíma slepptu margir því að nota -y- í ritmáli og skrifuðu þess í stað -i- alls staðar. Þannig var það t.d. hjá Fjölnismönnum og mörgum samtímamönnum þeirra. Líklega er ritmyndin beint úr talmáli þar sem enginn greinarmunur er gerður á framburði í nöfnunum Reiðá og Reyðá.
Ég held því að óhætt sé að taka upp ritháttinn Reyðá frekar en Reiðá og koma honum á framfæri. Ég mun senda Landmælingum ábendingu þess efnis og þannig má búast við að kortagögn þeirra í framtíðinni hafi Reyðá. Það er hins vegar óþarfi að taka upp ritmyndina Reyðará þótt hún komi fyrir í gamalli heimild, það er of mikil breyting. Segir nokkur Reyðará af þeim sem til þekkja?
Bestu kveðjur, Hallgrímur”
Ég kann Hallgrími bestu þakkir fyrir hans framlag.
Þó ég fái ekki betur séð, en að niðurstaða Hallgríms sé sú sama og mín og þeirra sem vilja nota -y- , þá kom það mér á óvart að það er meðal hlutverka Árnastofnunar, þar sem Hallgrímur vinnur, að tilkynna Landmælingum um að rétt sé að leiðrétta nafnið við útgáfu korta af svæðinu. Svo – enn og aftur – vil ég benda staðkunnugum á að láta heyra í sér, ef þeir geta með rökum, fullyrt að þarna skuli skrifa Reiðá í stað Reyðá.
Ásgeir
Ps: Nú þegar það er kominn eins konar úrskurður um Reyðá, gætum við e.t.v. tekið upp umræðuna um heiti vatnsins fyrir faman/innan Langanes. Sumir kalla það Fljót, aðrir Fljótavíkurvatn, og svo hef ég séð Glúmsstaðavatn……….
Ef silungs-tengingin sem Hallgrímur nefnir er ekki ótvíræð má minna á hvalhræið sem nú er í miðju vatni. Sem sagt, hval-tenging komin líka.
Reyðá skal það vera.
Ég lærði að segja Reyðará í gamla daga en var skotin í kaf með það í Fljóti af einhverjum sem töldu sig vita betur svo nú hef ég vanið mig á að segja Reiðá.
Ég hef aldrei heyrt neinn segja Reyðará, en það að Halldóra hefur heyrt það notað, staðfestir að þetta var gert, enda er þetta til í örnefnaskrá. Hins vegar breytir það ekki því hvort notað er -Y- eða – I – í ritmáli því slíkt heyrist ekki í framburði, en þetta snerist þó fyrst og fremst um það.