(Athugasemd 9.okt. 2016: Einhverra hluta vegna birtir forritið hlekkinn hér í næstu greinarskilum með striki í gegn um textann. Ég er ekki enn búinn að finna út úr því hvers vegna – en yrði þakklátur ef einhver gæti leyst það fyrir mig. áá)
Undir lok janúar 2016 birti Jósef H Vernharðsson færslu á Facebooksíðu sinni, með 8 myndum af óskjaftinum í Fljótavík. Myndirnar spanna rúmlega 10 ára tímabili, og sýna vel hversu gríðarlegur flutningur af sandi hefur átt sér stað.
Þessar myndir Jósefs, voru tilefni þess að mig langar að safna myndum sem sýna óskjaftinn og nánasta umhverfi – og að raða í tímaröð.
Margt hlýtur að hafa áhrif á tilfluting sands. Frárennsli ferskvatns, innstreymi sjávar, sjávarstraumar, þar á meðal meðfram landinu frá og fyrir óskjaftinn, langvarandi (vestan) stormar, einkum þegar saman fer stórstreymisflóð, hlykkir í árfarveginum og svo dýpt, svo eitthvað sé nefnt.
Stafrænar myndir nútímans eru með upplýsingar um nákvæma tímasetningu í sjálfri myndinni, að því gefnu að vélin hafi fengið þær upplýsingar. Annað gildir um gamlar myndir og þá verður að reyna að giska á ár og helst mánuð, ef ekkert hefur verið skráð af þeim sem á myndina.
Hér lýsi ég því eftir gömlum – og líka nýjum – myndum af þessu svæði og sérstaklega eftir því að reynt sé að afla upplýsinga um hvenær myndirnar eru teknar. Þið getið sent mér myndir með tölvupósti eða Dropboxi (asgeirsson54@gmail.com) – eða bara bent mér á og gefið leyfi til að afrita af Facebooksíðu eða öðru slíku.
Sama gildir um aðrar myndir eða myndasöfn sem þið mynduð vilja leyfa okkur hinum að njóta með ykkur – en þá gildir að því fleiri sem myndirnar eru því æskilegra er að nota Dropbox.
Fyrst um sinn birti ég myndir sem ég og fjölskyldumeðlimir hafa tekið. Margar hafa komið fram áður í öðrum myndasöfnum.
Meðal nýrra ljósmynda eru myndir sem Ásgeir Már Ásgeirsson tók í ágústbyrjun 2016 úr drónanum / flygildinu sínu. Þær myndir eru teknar frá mismunandi sjónarhornum og sýna óskjaftinn bæði beint ofan frá úr 500 metra hæð og eins úr sjónarhornum sem sýna stóran hluta af láglendinu við sumarbústaðina Atlastaðamegin. Þessar myndir hafa ekki komið fram áður.
Að lokum kemur hér hlekkur á myndasafnið um óskjaftinn.
Ásgeir