Útdráttur úr skrifum Gísla Hjartarsonar
Uppfært 14.mars 2020
Jón Hansson vinur minn er látinn á 73. aldursári og verður borinn til grafar í dag í Skutulsfirði. Lífshlaup hans var fyrir marga hluti merkilegt og sérstætt. Sérstaklega sagan af fátæktarbasli foreldra hans og fjölskyldu sem svo algengt var á fyrri hluta þessarar aldar.
Jón Hansson var fæddur að Skipagötu 14 á ísafirði 17. júní 1926 og því nefndur Jón Sigurðsson eftir frelsishetjunni, sverði íslands, sóma og skildi.
Faðir hans var Hans Bjarnason, hálfbróðir Þórleifs Bjarnasonar, rithöfundar og námsstjóra, fæddur á Marðareyri í Jökulfjörðum og er í Grunnavíkursveit.
Þegar Jón, sem var annað barn þeirra hjóna, fæddist, bjó fjölskyldan á ísafirði. Þar hafði komið upp taugaveikifaraldur og Hans fengið snert af veikinni. Að ráði Vilmundar Jónssonar, læknis á ísafirði, fluttust þau norður að Tungu í Fljótavík í Sléttuhreppi skömmu eftir fæðingu Jóns, eða sumarið 1926.
Foreldrar Hans fluttust einnig norður með fjölskyldunni;
Á Ísafirði hafði fjölskyldan búið um hríð í gömlum Djúpbát, Ásgeiri litla, sem stóð þar uppi á kampi. Þá átti fólkið ekki í annan stað að venda sökum fátæktar. Stóð ég lengi í þeirri trú að Jón hefði fæðst í Asgeiri litla og trúi því reyndar enn þótt prestþjónustubókin segi annað.
Hreppaflutningar
Veturinn 1926-27 var afar snjóþungur og harður. Tungubærinn var sem þúst upp úr hjarninu. Hans varð að rífa útihúsin til þess að halda hita á heimilisfólkinu. Lítið var til að borða. Heimilisfólkið að Atlastöðum hafði fært fólkinu mat, en færð var þung og erfitt að komast yfir Atlastaðaós með vistir.
Seint á góu var fjölskyldan í Tungu flutt hreppaflutningi að Sætúni í Grunnavíkursveit. Fólkið hafði verið bjargarlaust í eina til tvær vikur og orðið máttfarið. Konurnar höfðu fengið skyrbjúg. Bjarni faðir Hans og konurnar, Kristjana eiginkona Bjarna, og móðir Hans Jónína, ásamt börnunum Guðrúnu á þriðja ári og Jóni á fyrsta ári, voru dregnar af sex mönnum á sleða yfir Háuheiði að Hesteyri, og var fólkið flutt þaðan sjóveg yfír í Grunnavík á sína heimasveit. Hans gekk sjálfur óstuddur yfir heiðina. Sleðinn var sérstaklega smíðaður í þetta erfiða verk.
Síðan var fjölskyldan í Sætúni, Sútarabúðum og Höfðaströnd til ársins 1942 að hún flutti til Hnífsdals og þaðan til Keflavíkur fljótlega eftir stríð. Þar komst Hans vel til bjargálna. Þetta voru fyrstu kynni Jóns Hanssonar af lífinu, basl og fátækt.
Jón var 15 ára gamall þegar hann flutti vestur yfir Djúp norðan úr Jökulfjórðum.
Heimild: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=186464&pageId=2426294&lang=is&q=J%F3n%20Sigur%F0sson%20Hansson
Að neðan er saga um téðan Jón – frá Sjómannablaðinu Víkingi 66.árgangi frá árinu 2004, 4 tölublaði, bls. 52. Sagan er eins og minningargreinin skrifuð af Gísla Hjartarsyni :
Sjónvarpstækið
Jón Sigurðsson Hansson var góður karl og orðheppinn. Hann var á langri ævi vinnumaður á mörgum bæjum við Djúp og afrekaði það að hafa mokað skít á flestum bæjum við Djúp og í Dýrafirði.
Jón heitinn hlakkaði mikið til þess að ná þeim aldri að verða löglegt gamalmenni og komast á ellistyrk og fá greiðslur úr Lífeyrissjóði sjómanna, en hann var oft við sjósókn á yngri árum. Hann var síðustu starfsár sín vinnumaður hjá nafna sínum Guðjónssyni á Laugabóli í ísafirði í Djúpi. Þar leið Jóni vel.
Þegar hann komst á ellistyrkinn langþráða fluttist hann til ísafjarðar og bjó þar síðustu árin sem hann lifði. Eitt sinn auglýsti Jón gamla sjónvarpstækið sitt í smáauglýsingum Bæjarins besta. Hugðist hann fá sér nýtt og betra tæki.
Í auglýsingunni kom fram að tækið væri afar litið notað.
Maður nokkur kom til Jóns og spurði um tækið. Jón sýndi honum tækið sem augsýnilega var gamalt og lúið. Þetta er eldgamalt og gersamlega búið að vera, sagði maðurinn. Þú auglýstir að það væri lítið notað.
Já, ég hef alltaf horft á það einn, svaraði Jón Sigurðsson Hansson
Heimild: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=290114&pageId=4254871&lang=is&q=Sigur%F0sson%20Hansson