Uppfært 18. maí 2022
Jósef H Vernharðsson skráði
Það var árið 1974, 18 maí, sem nokkrir aðilar, Jón Gunnarsson, Ingólfur Eggertsson og Helgi Geirmundsson fóru á bátnum Sigurði Þorkelssyni til Fljótavíkur, með vél til að setja í jeppa sem stóð við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins og var notaður til að flytja farangur sem fólk hafði með sér, fram að sumarbústaðnum sem byggður var á Atlastaðahólnum árið 1969.
|
Með þeim í för var kona Ingólfs, Herborg, sonur þeirra, Hörður (f. 6. júlí 1958, 15 ára), sonur Helga, Helgi (f. 22. febrúar 1963, 11 ára) og sonur Jóns, Magnús (f. 6. des. 1963, 10 ára). Eftir landtöku héldu þau rakleiðis fram að Atlastöðum til að taka upp nesti og hita kaffi fyrir hópinn.
Þeir drösluðu vélinni í land og upp í jeppan, en þegar þeir voru langt komnir með að tengja vélina, lítur Jón upp úr vélarhúsinu og segir við félaga sína, “nei sjáiði nú þennan”. Þegar þeir líta upp, sjá þeir hvar fullvaxinn ísbjörn stendur skammt frá þeim. Og nú voru góð ráð dýr!
Það var þeim til bjargar að björninn var jafn hissa og þeir og þannig gafst þeim tóm til að skjótast inn í skýlið og grípa með sér byssu sem þeir höfðu haft með sér. En, – skotin voru í úlpu sem var neðar á kambinum.
Björninn var hinn rólegasti og kannaði svæðið, hnusaði af útvarpi sem var þar í gangi, át appelsínur sem voru í poka á kambinum og ráfaði síðan dálítið um.
Þegar þessi staða var komin upp, var úr vöndu að ráða. Von var á drengjunum til baka að kalla á þá í mat og hvað myndi þá verða um þá ef þeir hefðu mætt birninum. Ekki er hægt að lýsa í orðum þeirri sálarangist sem greip mennina í skýlinu meðan þessi atburðarrás átti sér stað, ef dýrið rásaði frá í áttina að bústaðnum. Ræddu þeir saman um hvað skyldi taka til bragðs. Ekki mátti tala, ganga um eða horfa út um gluggann, því þá gæti bangsi orðið þeirra var.
Talstöð var í skýlinu og kallaði Jón á loftskeytastöðina á Ísafirði og bað um aðstoð. Þess má geta að þegar Jón var búinn að hafa samband við Ísafjörð kallaði loftskeytastöðin á Siglufirði í hann og sagði honum að hann mætti ekki nota talstöðina nema í neyðartilfellum.
Á Ísafirði var kallað eftir flugvél í eigu Harðar Guðmundssonar flugmanns, en hún þurfti mjög stutta lendingarbraut.
Í millitíðinni hafði Helga tekist, eftir að bangsi ráfaði aðeins frá skýlinu, að ná í úlpuna með skotunum og koma skoti á hann, eftir það voru dagar hans taldir og var því öllu hættuástandi aflýst.
En þrátt fyrir það kom flugvélin með frétta- og sjónvarpsmenn og lenti rétt neðan við sumarbústaðinn. Þeir komu heim að húsinu og hittu þar fyrir Boggu og strákana og spurðu hana eftir ísbirninum sem hafði verið drepinn þar. Hana rak í rogastans, hún vissi ekki til að svo væri og spurði þá hvort þeir vær ekki með öllum mjalla. Skömmu síðar komu bjarndýrsbanarnir heim að bústaðnum og kom þá allur sannleikurinn í ljós. Þegar björninn var krufinn kom í ljós að í maganum var ekkert nema appelsínurnar sem hann hafði étið.
Til fróðleiks má geta þess, að þegar Helgi var kominn niður á bryggju snemma um morguninn, fær hann þá hugmynd að gott væri að hafa skotfæri með, en byssan var um borð í bátnum. Hann snýr því til baka heim til sín og sækir skotin og setur þau í úlpuvasann en, að öllu jöfnu var byssa ekki höfð með í slíkar ferðir. (Einnig var sú saga sögð um Ingólf, að þegar hann hafði augnsamband við bjössa, leysti hann vind svo hressilega að bjössi fékk hálfgert aðsvif og þess vegna fengu þeir svigrúm til að komast í skýlið.
Ísbjarnarblogg
Að neðan eru (ritstýrðar) umræður sem sköpuðust um frásögn Jósefs. Í þá umræðu fléttaðist ýmislegt annað sem ritstjóri tók út.
06.02.2006 08:34:49[Ásgeir] |
Bloggsíðan er hið besta tól til að koma með athugasemdir. Ef farið er inn á Tímalínuna við árið 1974, sést undirstrikun við sögu um ísbjörn. Ef maður fer með músina á þá línu og “klikkar”, opnast frásögn um viðureign við ísbjörninn. |
Nú er ekki endilega víst að öll sagan hafi verið sögð þarna, Hvar er Bjössi í dag? Hver stoppaði hann upp? Var það virkilega þannig að einhvers konar fjölmiðlafár hafi farið í gang – menn hafi ekki séð nauðsyn þess að ganga svona til verks… átti bara að leyfa honum að bryðja bein barnanna og senda hann svo til Grænlands með flugpósti eins og Keiko seinna? |
06.02.2006 12:42:44 » Selma Hjörvars » |
Sæl öll sömul aftur. Það er alltaf jafn gaman að lesa þessa sögu.Það er eins og maður hafi sjálfur verið viðstaddur, svo vel er hún orðin innprentuð í minnið að hún er orðin að minningu. |
Kveðja Selma. |
06.02.2006 21:30:30 » Ragnar Ingolfs » |
Eitthvad er nu vitlaust farid med aldur a Herdi, (ekki med Islenska stafi) eg var sjalfur 13 thannig ad thetta passar ekki alveg… En eg man ad eg var vakinn um morguninn og spurdur hvort eg vildi vera med. Kanski hefur letin bjargad mer fra thvi ad verda ad hadegisverdi thann daginn. |
Lísbet skrifaði |
ég var einmitt að ræða þetta við hann karl föður minn, og segist hann hafa verið að taka landspróf….svo er það ekki 16? |
07.02.2006 13:51:51 » Ásgeir » https://fljotavik.is |
Neglum nú niður staðreyndir: |
1) Björninn veginn: 18.maí 1974 |
2) Hörður Ingólfs fæddur 6.júlí 1958 og var því á sextánda ári |
3) Magnús H (Gunnarsson) Jónsson er fæddur 6.des. 1963 og var því á ellefta ári |
4) Helgi Helgason er fæddur 22.febrúar 1963 og var því á tólfta ári |
Ásgeir |
07.02.2006 14:56:04 » Sigga J » |
Sko, ef maður á nú að fara að vera hundleiðinlegur, þá er Magnús Hrafn Jónsson en ekki Gunnarsson…. nema þið vitið eitthvað sem ég veit ekki. |
07.02.2006 16:05:55 » Ásgeir » |
Góður punktur… ég virðist vera farinn að stunda þetta…. sorrý…. ég t.d. gerði pabba þinn og afa að sama manni nú nýlega….. eins gott að fylgst sé með manni… áá |
07.02.2006 23:05:23 » Jósef H.Vernharðsson » |
Komiði sæl öll sömul. Nú hlær marbendill. Þegar að ég skrifaði þessa frásögn, studdist ég við frásagnir þeirra sem tóku þátt í leiðangrinum þar á meðal Boggu systur. Ekki var ég að spá í aldur drengjanna, enda rýrir það ekki frásögnina á neinn hátt. En rétt skal vera rétt. Sammála Ásgeiri að gott er að hafa góða prófarkalesara. |
Sæl að sinni. |
08.02.2006 07:49:00 » Ásgeir » https://fljotavik.is |
Ég tek mér það bessaleyfi að setja fæðingardag og aldur strákana inn í sögu Jósefs, næst þegar ég uppfæri heimasíðuna. Mér finnst enn vanta neðanmáls – hvert Bjössi ferðaðist síðar og hvar hann er nú. Ég þykist vita að hann sé sá sem er á Geysi – veit einhver fyrir víst? |
09.02.2006 12:10:55 » Jósef H.Vernharðsson » |
Sæl aftur! Varðandi ísbjörninn, þá vonaði ég að menn skildu að aðstoð manna frá Ísafirði þýddi ekki fjölmiðlafár ,heldur vopnaða lögreglu eða var þetta ekki nógu skýrt að orði kveðið. Varðandi feril ísbjarnarins þá minnir mig að Kristján nokkur sem var með náttúrgripasafn í Breiðfirðingabúð í Reykjavík keypti hann og lét stoppa hann upp. Síðan held ég að Selfossbær hafi keypt safnið og þar sé hann nú. Ef einhver veit betur þá er það vel þegið. |
09.02.2006 12:26:53 » Ásgeir » https://fljotavik.is |
Sæll Jósef – það sem ég átti við með fjölmiðlafári er að mér hefur verið sagt að fregnir um björninn hafi komist snemma í fjölmiðla – jafnvel áður en fregnir bárust um að hann hefði verið skotinn (margir gátu hlustað á miðbylgjutalstöðvar) – og að einhverjir hefðu hneykslast á því næstu daga að hann hefði verið skotinn. Einhverjir eiga að hafa haldið því á lofti að það hefði átt að skjóta dýrið með deyfilyfi og flytja síðan úr landi. Fyrir okkur sem þekkjum aðstæður – og nálægðina í börnin – er þetta algjör fyrra. |
10.02.2006 11:23:28 » Jósef H.Vernharðsson » |
Sæl aftur! Ég hef ekki heyrt neitt um þetta fjölmiðlafár og því síður um deyfilyf fyrr en löngu síðar. Þetta var fyrir tíma þeirra sem héldu að ísbirnir væru ekki hættulegir og ætti því að spyrja þá fyrst hvort þeir ætluðu að rífa menn á hol. En sem betur fer þá sluppu allir ósárir úr þessum hildarleik. |
Þið eruð að misskilja ykkur sjálf með aldurinn á mér, þennan dag var ég réttilega 15 ára verðandi 16 á afmælisdeginum sem var ókominn þennan dag og þetta vor var einmitt landspróf. Jobbi var alveg með þetta á hreinu eins og mamma. Verst að 40 árum seinna er ég enn að gá úteftir þessari strönd hvort fleiri séu á leiðinni í mat. Annars er það að frétta að fyrir 20 árum voru 50% kvenísbirna með húna að vori við Svalbarða en í dag eru það aðeins 10% sem eiga afkvæmi. Væntanlega eru þeir að deyja út, sennilega vegna mengunar (PCB – PBDE HBCD) með meiru sjá líka http://www.ruv.is/frett/faerri-hunar-faedast-a-svalbarda –
Bíddu, bíddu, Hörður….. Hvaða misskilning erum við að misskilja?