Ferð með sjúkling úr Fljóti

Kjartan T Ólafsson skráði 

Uppfært 19.maí 2020

Í  Sléttuhreppi voru búandi yfir 500 manns 1933, og mun fleira á sumrum, vegna vinnu í síldarverksmiðjunni Heklu á Stekkeyri í Hesteyrararfirði. Á haustdögum 1952 fluttu síðustu íbúar hreppsins í burtu eftir búsetu frá landnámsöld. Þarna varð algert byggðarhrun vegna breyttra atvinnuhátta í stríðslok.

Við sem erum fædd þarna og uppalin, sjáum æskustöðvarnar í ljósi minninganna. Útsýnið til hafsins á fögrum vor og sumarkvöldum, horft til skipa sigla fyrir víkina, eða farið til fjalla og horft af einhverjum toppnum, á síðkvöldi, er ólýsanlegt. Flest fjöllin ná allt að 500 metra hæð og útsýni því stórkostlegt. Sjá má þá Drangajökul, Grunnavíkursveit og Bjarnanúp, Jökulfirði og Ísafjarðardjúp, vestur um alla núpa, allt vestur að Kóp, vestan Arnarfjarðar, íshafið, oft með hafísbreiðum, svo manni fannst oft að stutt væri til Grænlands. Af Hornbjargi, sem er 534 metrar á hæð, er mér sagt að sjáist til fjalla við Eyjafjörð, ef skyggni er nógu gott.

Stutt sumur – langir vetur 

Vetrarríki á þessum norðægu slóðum var að sjálfsögðu mikið og þótt sumrin væru oft góð, þá voru þau yfirleitt stutt  og þegar fór að leggjast í rigningar, súld og sudda, sem algengt var, einkum á Ströndum, þá fór nú gamanið af.

Jón Eyjólfsson prestur á Stað í Aðalvík, segir í sóknarlýsingum Staðarsóknar 1848, um Atlastaði.:           ” Jarðbönn eru þar oftast öllum vetrum og á sumrum tíðast óþerrar með þokufýlu og stórslögum af norðri og því athvæði mun mega á ljúka, að vetur og sumar muni varla að jafnförnu, verra veður á nokkrum stað á Íslandi en þar. Það má hafa til marks hér um, að sumarið 1844 var Glúmsstaðavatn, sem er niðri í Fljótinu, milli bæjanna var, ekki alleyst í 19.viku, (24/8), enda voru það sjaldgæf harðindi, sem gengu veturinn fyrir “.

Erfitt að komast á sjúkrahús um hávetur 

Veturinn 1941 í endudum janúar, veiktist kona í Fljótavík, mjög alvarlega, og var aðkallandi að koma henni á sjúkrahús. Hún hafði og var með miklar blæðingar, og varð því að koma henni til Ísafjarðar. Veður hamlaði öllum aðgerðum, ófært fyrir Straumnes og ólendandi á Atlastöðum  (Athugasemd neðst) . Þrautalending athafna var, að safna saman mönnum og bera konuna frá Atlastöðum til Hesteyrar, en þar skyldi bíða bátur tilbúinn til að flytja konuna á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Lagt var á stað frá Látrum klukkan 10 fyrir hádegi. Við vorum tíu sem fórum þaðan. Ég tel mig muna það með nokkurri vissu eftir fimmtíu ár. Það var Friðrik Magnússon útvegsbóndi Látrum, Hermann Árnason Látrum. Valdimar Þorbergsson bóndi í Efri-Miðvík. Valdimar Valdimarsson á Látrum, dóttursonur Friðriks og yngstur í ferðinni og ég Kjartan T Ólafsson Látrum. Ég man ekki með vissu hverjir hinir fimm voru enda liðin 54 ár síðan, en líklega voru það Árni Friðriksson, Halldór Guðmundsson, Benedikt Benediktsson, Hermann Jakobsson og Vagn Jónsson.

Það teygðist úr hópnum á göngunni, eins og oft vill verða, þegar margir eru á ferð og við þrír þeir fyrstu komum í Tungu kl. rúmlega 12 eftir hörku göngu. Að Atlastöðum komum við stundu síðar. Veður var fremur hráslagalegt, ekki vel bjart, en úrkomulaust. Þetta var í fyrsta sinn sem ég kom í Fljót og eina skiftið sem ég hef farið það gangandi.

Á Atlastöðum var þá fjórbýli,og öllum var boðið inn. Ég fór inn ásamt fleirum hjá Júlíusi Geirmundssyni og var okkur veitt af rausn.

Frá Atlastöðum var lagt upp um klukkan fjögur síðdegis og vorum við 16 alls, sem ætluðum að bera og draga burðarrúm sem búið var að smíða, þannig frágengið að undir því var sleði, enda snjór yfir öllu og Glúmsstaðavatn al lagt og því auðveldur fyrsti áfanginn. Þeir sem komu frá Atlastöðum voru Július Geirmundsson, Guðmundur Júlíusson, Geirmundur Júlíusson, Högni Sturluson, Finnbogi Jósepsson og Vernharð Jósepsson úr Tungu.   Auk þess var ljósmóðir með, Friðgerður Finnbjörnsdóttir frá Efri-Miðvík.

Þegar komið var fram að Glúmsstöðum, urðum við að bera rúmið upp á Háuheiði, en sagt er, að brekkurnar upp Glúmsdalinn muni vera átján, en löng var gangan. Á brúninni sneru nokkrir af Fljótsmönnum til baka, enda ekkert nema konur og börn eftir heima á Atlastöðum. Háaheiðin er ekki löng yfirferðar á þessum stað, en svo tekur Hesteyrardalurinn við og hann er langur og brattur, enda oft eins erfitt að ganga undan brekkunni. Við komum með konuna inn að Heklu klukkan ellefu um kvöldið, en þar beið báturinn sem flutti hana á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Þetta tókst vel, konan náði heilsu á ný. Hún hét Guðmunda Regína Sigurðardóttir, kona Geirmundar Júlíusar Júlíussonar bónda, þá á Atlastöðum.    Hún var fædd 5.maí 1904 á Látrum og dó á Ísafirði  23.júní 1994. Til Efri-Miðvíkur komum við Valdimar Þorbergsson klukkan tvö um nóttina, þreyttir eftir langa og erfiða göngu.

Samhjálp var mikil hjá fólki við svona aðstæður, enda ekki búandi þarna með öðru móti. Þó harðbýlt væri þarna, eru minningarnar ljúfar, enda sækja íbúarnir og afkomendur þeirra mikið þanga á sumrum, þó allt sé löngu komið í eyði.

 6.nóv.l995.

Kjartan T.Ólafsson.

 ————————————————————————————————————–

Kjartan Ólafsson sendi seinna bréf til ritstjóra með eftirfarandi texta:

“Foreldrar mínir fluttu frá Skáladal haustið 1940 til Látra. Þar sem hús föður míns (Ólafshús) var setið af leigjanda, tók hann Steinhúsið á leigu (er nú örskammt frá skólagrunninum) sem var þá orðin eign banka á Ísafirði og bjuggum við í því til vors 1941. Þar átti ég heima þegar við fórum björgunarleiðangurinn til Fljótavíkur um mánaðarmót janúar-febrúar.”

Selfossi 6.febrúar 2006

Kjartan T. Ólafsson

Eins og oft vill verða, vakna spurningar vil lestur frásagna. Oft er um seinan að finna svör, en hér er enn tækifæri til að ná fram frekari upplýsingum. Þannig hafa samtöl Kjartans T Ólafssonar og Jósefs H Vernharðssonar leitt til þess að búið er að bæta við nöfnum þeirra sem tóku þátt í þessum leiðangri, en ekki voru taldir upp í upphafi. Áfram gildir að hafa skal það sem sannara reynist, svo ef einhver veit betur þá þarf endilega að láta vita af því.  Um þessa ferð gildir svipað og Snorri Grímsson skrifar í niðurlagi greinar sem hann skrifaði um ferðir þeirra sem fóru að sækja bát—að yfirferðin er ótrúleg. Maður sem í nútímanum gengur að sumarlagi þennan hring, með léttan dagpoka færi þetta varla á styttri tíma. Látrar—Fljót—Hesteyri—Látrar. Tíminn frá 10 að morgni til 02 næstu nótt gerir 16 tímar, og þó var áð í Fljóti.                                         

                                                  áá 8.nóvember 2006 

Athugasemd áá : Íslensk tunga er breytileg – og jafnvel þannig að orðatiltæki sem merktu eitt hér áður fyrr fá nýja (viðbótar-)merkingu seinna. Kjartan skrifar “ólendandi á Atlastöðum” . Eldra fólk veit nákvæmlega hvað hann var að meina…. : vegna brims þar sem skýlið er nú í Fljótavík, var ekki nokkur möguleiki á að komast með bát upp á sandinn eða upp að steinum og út aftur…. það var sem sagt ólendandi fyrir báta. Þar sem ritstjóri er að vona að með árunum reynist spennandi fyrir yngri kynslóðir að lesa sér til um þessa tíma – þótti honum ekki úr vegi að útskýra þetta aðeins…… það er ekki verið að tala um að lenda flugvélum”

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA