Vorið 1971 : Frumvarp um þjóðgarð á Vestfjörðum

Síðast breytt 22.feb 2019

Þjóðgarður á Vestfjörðum

Myndin er frá frumvarpi til laga um þjóðgarð á Vestfjörðum

Áður en kom til stofnunar friðlands Hornstranda var reynt að fara aðra leið, þar sem taka átti allar landareignir í Sléttuhreppi af eigendum og gera að þjóðareign.

Ritstjóri hefur bent á að eignarnámsleiðin gæti verið reynd aftur þegar, Óbyggðanefnd tekur Vestfirði fyrir í heild sinni. Skynsamir menn hafa reynt að róa ritstjóra með því að eignarrétturinn sé svo sterkur á Íslandi að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. En það er öllum sem una gamla Sléttuhreppi í heild sinni, holt að kynna sér eftirfarandi ferli:

Þingmannafrumvarp 

3.febrúar 1971 var  þingskjali nr. 322 útbýtt á Alþingi. Þar gerðu Matthías Bjarnason og meðflutningsmaður hans, Pétur Sigurðsson, að tillögu að stofnaður yrði Þjóðgarður á Vestfjörðum. Með lagafrumvarpinu fylgdi greinagerð (á bls. 3 í skjalinu) sem athyglisvert er að lesa. Strax í annari grein frumvarpsins kom fram að þjóðgarðurinn skyldi vera eign íslensku þjóðarinnar, og í 7.gr var talað um að gera mætti eignarnám í jörðunum ef ekki tækist samkomulag um sanngjarnt verð. Hafa átti hliðsjón af því hversu mikils virði jarðirnar voru taldar í skattframtölum áranna á undan.

Stuðningur Morgunblaðsins

4.febrúar 1971 sagði Morgunblaðið frá frumvarpinu. og það var ekki falið inni í blaðinu heldur á áberandi stað á baksíðu. Á þessum árum var forsíða blaðsins oftast eingöngu með erlendar féttir og öfugt – innlendar á baksíðu.

5.febrúar 1971 kom Morgunblaðið til og með með forustugrein um frumvarpið!  Fyrir ofan forustugreinina má sjá hverjir voru ritstjórar þá.

Sauðnaut og hreindýr

10.febrúar 1971  mælti Matthías Bjarnason fyrir frumvarpinu og þá kom meðal annars fram að reyna ætti að auðga dýralíf t.d. með því að flytja hreindýr og sauðnaut inn á svæðið.

Hannibal Valdimarsson tók svo til máls og reifaði málið. Hann ýjaði að því að hann vissi til þess að flutningsmenn frumvarpsins hefðu ekki leitað til hagsmunaaðila til að bera frumvarpið undir þá, eins og venja er um þingmál.

Næst veitti Matthías andsvör og fóru menn svo að að karpa um hvernig Sjálfstæðismenn vildu nú allt í einu afnema eignarrétt einstaklinga en gamli kommúnistinn Hannibal vernda hann.

16.febrúar 1971 birti Tíminn fréttatilkynningu frá fundi í Átthagafélagi Sléttuhrepps. Athyglisvert þykir að hvort sem greinin var nú send til Morgunblaðsins og/eða Alþýðublaðsins þá var það aðeins Tíminn sem birti hana. Þarna voru Sjálfstæðis- og Alþýðuflokkur í stjórn en Framsókn í stjórnarandstöðu.

Ekkert samráð við landeigendur

18.febrúar 1971 er umræðum haldið áfram á Alþingi. Fyrst tók Hannibal til máls. Hann segir nú staðfest að frumvarpið hafi ekki verið borið undir landeigendur eða eigendur fasteigna á svæðinu. Niðurstaða Hannibals var að hann myndi ekki styðja frumvarpið, enda sæi hann engar forsendur fyrir eignarnámi.

Matthías hafði verið upptekinn við embættisstörf og því var það hinn flutningsmaður tillögunnar, Pétur Sigurðsson,  sem tók til máls. Snerist hans mál fljótlega upp í gagnrýni á umfjöllun sem hafði komið fram í fjölmiðlum, sem vildu tengja málið við hagsmuni Matthíasar frá þeim tíma sem hann var framkvæmdasjóri h.f.Djúpbátsins.

Aftur var komið að Hannibal sem ræddi það að vitað hafi verið að falast hefði verið eftir kaupum á jörð á Horni, og gefur í skyn að það að viðkomandi hefði ekki fengið jörðina hafi verið í beinu sambandi við það að þetta frumvarp væri komið fram,  en svo hristir hann aðra gagnrýni af sér, en benti aftur á það að eignarrétturinn ætti að standa, og hann gæti  ekki séð forsendur fyrir eignarnámi.

Að lokum fór fyrsti flutningsmaður frumvarpsins aftur yfir málið.  Það er svolítið merkilegt að horfa á þingræðurnar svona löngu síðar og velta fyrir sér hvað Matthías var “heppinn” að vera upptekinn við önnur embættisstörf akkúrat á upphafsmínútum umræðunnar en geta svo komið inn til að halda lokaræðuna. Það læðist að manni sá grunur að það hafi ekki verið tilviljun.

Frumvarpið svæft í nefnd

Við atkvæðagreiðslu var frumvarpinu vísað til annarar umræðu í neðri deild Alþingis með 22 atkvæðum – en líka til Menntamálanefndar, með 23 samhljóða atkvæðum.

Síðan virðist frumvarpið hafi sofnað værum blundi í nefndinni.

Skildulesning 

6.mars 1971 birti Morgunblaðið grein eftir Ingimar Guðmundsson sem skrifar fyrir hönd Átthagafélags Sléttuhrepps. Þessi grein er byggð á þeirri grein sem Hannibal vitnaði í 18.febrúar, og ætti að vera skildulesning allra sem tengjast á einhvern hátt Sléttuhreppi. Frábærlega vel skrifuð og rökfærð grein og við ættum öll að hugsa til þess hvað Ingimar hefur lagt mikla vinnu í þessi skrif – fyrir tölvuöld, þar sem við nú getum klippt og skorið setningar og flutt til og frá í því sem við skrifum.

Að lokum …….

Hér er aðeins stiklað á stóru um þetta mál. Að sjálfsögðu er orðið laust ef þið hafið einhverju við að bæta – að ég nú ekki tali um ef þið sitjið inni með greinar sem tilheyra þessu. En, málið kom aldrei úr Menntamálanefnd. Sennilega voru menn þá þegar búnir að sjá það að :

a)   málið færi aldrei óbreytt í gegn um Alþingi og/eða

b)   voru þá þegar farnir að plotta þá leið sem svo var farin, með einfaldri yfirlýsingu um Hornstrandafriðland.

 

2 Replies to “Vorið 1971 : Frumvarp um þjóðgarð á Vestfjörðum”

  1. Svo kjaftasagan er ekki alveg tilhæfulaus, þ.e. að afkomendur eiganda jarðarinnar að Höfn í Hornvík hafi gripið inn í þegar Mathías falaðist eftir jörðinni. A.m.k. vitnar Hannibal í “opinberar blaðagreinar” þar um.
    Matthías bí-þrætir vissulega fyrir slíkt í sinni ræðu, en hann var stjórnmálamaður, og sagan hefur sýnt að stjórnmálamenn segja sjaldnast satt, og ALDREI þegar um er að ræða hugsanleg eigin afglöp.

    Þetta er stórskemmtileg samantekt hjá þér Ásgeir, og ég er sammála því að grein Ingimars ætti að vera skyldulesning.

  2. Eins og kom fram í lagafumvarpinu, átti að meta jarðirnar í eignarnámsferli út frá skattframtölum eigenda. Fer ég ekki nærri lagi þegar ég segi að það hljóti að vera öllum ljóst, að fjárhagsleg verðmæti jarðanna – hvort sem það var árið 1971 eða nú undir lok ársins 2014, nálgast töluna núll, í þeirri meiningu að jarðirnar koma ekki til sölu. Sumarbústaðir sem standa á mörgum jarðanna í dag eru þó skattlagðir og þeir með landareignum taldir fram til skatts. En það eru sennilega ekki margir sem líta á þessar eignir – sem “eignir”.

    En hvers virði eru tilfinningar? Hvernig metur maður tilfinningar í eignarnámi?

Þín ummæli eru vel þegin ....

EnglishUSA