Örnefni Tungu ……….. Ari Gíslason

Jörð í Sléttuhreppi, í Fljóti, sem er næsta vík austan Rekavíkur bak Látur og austan við fjallgarð þann er skilur Aðalvík frá Fljóti. Er fyrst getið 3. maí 1458 við skipti eftir Vatnsfjarðar-Kristínu. Hún og aðrar jarðir í Fljóti eru eign Ögmundar 1541 og verður þá konungseign. Eru þá sjö jarðir í Sléttuhreppi, er verða konungseign. Árið 1710 er hún 6 hdr. og í eyði síðan 1706; er þá allt Fljótið í eyði og mun svo oft hafa verið, að ein eða fleiri jarðir hafa verið í eyði í þeirri vík.

Upplýsingar um örnefni eru eftir Sölva Andréssyni, Ísafirði, Vernharði Jósefssyni, Hnífsdal og Júlíusi Geirmundssyni, Ísafirði.

Bærinn í Tungu stendur á láglendinu rétt áður en landið fer að hækka upp í Tungudalinn. Norðan bæjarins er mikið láglendi en sunnan hans hækkar landið ört, upp á Tunguheiði. Land jarðarinnar liggur að víkinni Fljót og Atlastaðaós (1), sem er allmikið stöðuvatn í dalnum; fellur í það og úr. Sums staðar er það nefnt Atlastaðavatn (2) og annars staðar Fljótsvatn (3), en oftast er það skráð þessu nafni.

Fyrst er að taka láglendið og svo síðar hálendið. Meðfram víkinni er sjávarkambur, sem nefndur er aðeins Kambur (4). Þar niður við, þar sem ósinn fellur til sjávar, er stór sandklakkur, gróinn að ofan, sem heitir Julluborg (5); þar er uppsátur þeirra Tungumanna. Einhvern tíma hefur verið fært með skipi upp að Julluborg, en niður af henni til sjávar eru merki þriggja sjávarkamba, er sýna landauka þann, er hér er að koma. Hér upp af er svo stórt svæði, sandur og auðn, auðkennalaust og því nafnalaust. Utan við bæinn eru hólar, nefndir Tunguhólar (6), og miðhóllinn af þeim heitir Hjallhóll (7). Þar hefur verið einhver bygging; tóftin sést.

Nú er komið að Tunguá (8). Hún kemur hér ofan úr fjalli þar sem heitir Miðmundadalur og síðar getur, rennur svo niður hlíðarnar, rennur við túnið í tvennu lagi, önnur kvíslin utan við túnið en hin um það mitt, svo niður í Atlastaðaós, sem hér er mjór. Innan við sem hún fellur í ósinn myndast tangi sem heitir Barnatún (9). Þarna eru tættur og eins og gamalræktað land í kring. Þar meðfram ósnum móti Langanesinu á Atlastöðum heitir Vatnsbakki (10) eða Vatnsbakkar. Hér inn með vatninu eru svo nafnlausar engjar. Upp af þessu er blautlendur flói með nokkrum tjörnum sem trúlega hafa eitthvað heitið, en nú er aðeins nafn á því stærsta en það nafn er í fleirtölu og heitir Mávavötn (11). E.t.v. er það heildarnafn á öllum tjarnaklasanum. Engjar þessar ná inn að á, sem er á merkjum móti Glúmsstöðum og heitir Hvilftará (12); það er að segja árnar eru tvær og koma saman rétt áður en þær falla í ósinn og heita Ytri-Hvilftará (13) og Innri-Hvilftará (14). Svæðið milli þeirra var deiluland fyrir eina tíð, en svo var sæst á það að það skyldi vera óskipt. Rétt innan við Tunguá og Barnatún er vað á ósnum yfir í Langanesið sem nefnt er að fara Á skriðu (15).

Nú er að fara heim í tún. Eins og fyrr segir rennur Tunguá um túnið. Í miðju túni, framan við ána, er hóll sem heitir Ærhóll (16) og þar sem bærinn er, er hóll sem heitir Bæjarhóll (17).  Utan í Ærhól er Álagablettur (18) sem ekki má slá. Einu sinni sló maður, sem um er vitað, blettinn og hann missti skömmu síðar þrjár gimbrar.

Nú er að fara inn á merki móti Glúmsstöðum og halda þaðan út hlíðarnar. Hvilftarárnar koma ofan úr smáslökkum uppi í fjalli því er nefnist Hvilftardalafjall (19) og heita Hvilftardalir (20). Innan við þá er svo Hvilftarhorn (21). Þetta nafn er tekið úr sóknarlýsingu 1848 og reyndar fleiri.

Hér er þá óvart komið upp á brún.  Þá er að halda út. Ofan við láglendið utan við Hvilftardali tekur við hjalli sem heitir Svartihjalli (22). Hann nær út undir Silungalæk (23) en hann er undir horninu, er lengst sér frá bæ, rennur svo í mörgum krókum niður um engjarnar niður í vatn. Framan í Svartahjalla eru klettar. Uppi á Svartahjalla er graslendi, sem nefnt er Engi (24) og ofan þess er lítill hjalli sem heitir Hvilftarhjalli (25). Þar upp af taka svo við Tunguhlíðar (26) sem ná inn í Tungudal, er síðar getur. Hér upp og út af rís svo hátt hamrahorn er heitir Tunguhorn (27). Undir því eru brekkur sem heita Enni (28); eru heiman við Svartahjalla, smáhjallar, grjót og grasfoldir á milli.

Nú erum við komin heim að Horninu (29). Upp af láglendinu, blautlendinu sem sumir nefna Tunguflóa (30), heita svo Stekkjarbreiður (31). Þær ná frá Ennum upp undir hlíð og heim að túni alla leið. Upp af Stekkjarbreið (svo) kemur svo dalhvolf sem heitir Tungudalur (32). Tunguhlíðin fyrrnefnda er hér einnig. Upp af Stekkjarbreiðinni koma svo klettahjallar upp hlíðina. Neðstur er Nautahjalli (33), klettar að framan en gras að ofan; hann er stærsti hjallinn. Hann nær þvert yfir. Svo er Miðhjalli (34) og þar ofar er Vatnahjalli (35). Hann er grýttur og stystur, nær ekki nema hálfa leið. Þar upp af er svo Dalbotn (36) og í honum innanverðum eða upp af er svo Miðmundafjall (37).

Þá er að fara aftur niður og taka Tungudalinn vestanverðan; þykir þó rétt að taka fyrst heima við bæ utan ár sem eftir er. Grjótoddi (38) er kambur rétt neðan við milli ánna en Réttarholt (39) er utan til við ána. Þá má geta þess að ofan við Hólana (40), Tunguhóla, eru Ingunnarklettar (41) undir hömrunum. Við Réttarholtið fyrrnefnda er gömul rétt. Ofan við bæinn er svo fyrst hjalli sem heitir Bæjarhjalli (42). Þar ofar er svo Nautahjallinn áfram og Miðhjallinn, sem hér er ógreinilegur, og svo er Efstihjalli (43) í staðinn fyrir Vatnahjalla og ekki framhald af honum. Þar ofar er svo allstórt hvolf og upp af því er há og brött hlíð sem heitir Nónhlíð (44) og liggur utan í Nónfelli (45) sem hér er einstakt klettafell vestan dalsins og skagar fram í hann. Hér upp af er svo Nóngilsfjall (46) þegar komið er upp á fjall.

Nú er best að fara eina ferðina enn niður. Tunguhólar hafa fyrr verið nefndir. Þeir eru nokkuð fyrir utan bæinn og upp af þeim eru klettahjallar er heita Ingunnarklettar. Þeir eru niður af hlíð sem heitir Kóngahlíð (47) utanvert. Þetta er skriðuhlíð allmikil. Upp af hlíðinni er hamraberg allmikið og klettastandar sem heita Kóngar (48). Þeir eins og skaga fram úr fellinu og eru bundnir með hálsi við aðalfjallgarðinn. Út undir þessa Kónga liggur svo Nónhlíðin fyrrnefnda fyrir neðan Nónfellið. Kóngarnir eru með tveim eða þrem hamrabeltum.

Hér hefur raskast röð sem þó er ekki hættulegt. Ofan við Tungutún, utan ár, undir Kóngahlíð, er holt sem heitir Langholt (49). Eftir því liggur vegurinn upp á Tunguheiði. Af holtinu byrja svo brekkurnar, upp Kóngahlíð til að byrja með. Heitir sú neðsta Langholtsbrekka (50), og svo er efst í Kóngahlíð löng og há brekka sem heitir Klifbrekka (51). Þá tekur við lítil brekka sem heitir Kvígildisbrekka (52) og þar ofar er svo snarbrött brekka er heitir Ranghalabrekka (53). Hún liggur efst úr Nónhlíðinni og upp í Ranghalann (54) en það er lægðin bak við Nónfellið. Upp úr Ranghalanum er svo stutt brekka sem heitir Kjölbrekka (55). Er þá komið upp á Kjöl (56) á Tunguheiði (57), sem er hér hár fjallgarður yfir í Aðalvík. Hvert þetta Nóngilsnafn er sótt er mér ekki ljóst en þetta er sagt 1848.

Þá er enn utar; úr Kóngahlíð er hjalli út eftir sem vantar nafn á. Í hlíðinni fyrir utan bæinn heita Blettir (58). Fyrir utan Kónga frá Tunguhólum út í Hvestudali (59) er hlíð með klettaþræðingum og einni hillu sem heitir Breiðhilla (60). Hvestudalir eru tveir, Innri-Hvestudalur (61) og Ytri-Hvestudalur (62). Eftir þeim báðum renna lækir. Dalirnir eru grónir, aðskildir af  klettahöggi, en fyrir framan dalina er hamrabelti í sjó fram er heitir Kambur (63). Hlíð þessi er ógróin sandurð. Svo er utan við dalinn hátt fjall sem heitir Hvesta (64) og undir því utan við dalina heitir Teigur (65). Þar átti Vatnsfjarðarkirkja reka 1327. Þetta nafn er nú líklega glatað. Þar utar gengur svo tangi fram sem heitir Hvestutá (66). Nú eru talin þau örnefni sem fengust í Tungulandi.

Eyktamörk: Dagmál á Tunguhorni. Nón á Nónfelli.

Jónína Hafsteinsdóttir gekk frá handriti.

Atlastaðaós 1

Atlastaðavatn 2 = 3

Álagablettur 18

Á skriðu 15

Barnatún 9

Blettir 58

Breiðhilla 60

Bæjarhjalli 42

Bæjarhóll 17

Dalbotn 36

Efstihjalli 43

Engi 24

Enni 28

Fljótsvatn 3 = 2

Grjótoddi 38

Hjallhóll 7

Horn 29 = 27

Hólar 40 = 6

Hvesta 64

Hvestudalir 59

Hvestudalur, Innri- 61

Hvestudalur, Ytri- 62

Hvestutá 66

Hvilftará 12

Hvilftará, Innri- 14

Hvilftará, Ytri- 13

Hvilftardalafjall 19

Hvilftardalir 20

Hvilftarhjalli 25

Hvilftarhorn 21

Ingunnarklettar 41

Innri-Hvestudalur 61

Innri-Hvilftará 14

Julluborg 5

Kambur 4

Kambur 63

Kjölbrekka 55

Kjölur 56

Klifbrekka 51

Kóngahlíð 47

Kóngar 48

Kvígildisbrekka 52

Langholt 49

Langholtsbrekka 50

Mávavötn 11

Miðhjalli 34

Miðmundafjall 37

Nautahjalli 33

Nónfell 45

Nóngilsfjall 46

Nónhlíð 44

Ranghalabrekka 53

Ranghali 54

Réttarholt 39

Silungalækur 23

Stekkjarbreiður 31

Svartihjalli 22

Teigur 65

Tunguá 8

Tungudalur 32

Tunguflói 30

Tunguheiði 57

Tunguhlíðar 26

Tunguhorn 27 = 29

Tunguhólar 6 = 40

Vatnahjalli 35

Vatnsbakki (-bakkar) 10

Ytri-Hvestudalur 62

Ytri-Hvilftará 13

Ærhóll 16

 

 

EnglishUSA