Mér finnst sem það hafi verið “í gær” sem ég skrifaði pistil sem birtur var 4.júlí. Þar var ég að pára um snjóþungt vor og að fólk væri rétt að byrja að vitja um og koma í bústaðina. Í gær birtust myndir á Facebook á síðu Vernharðs Jósefssonar (síðan tengd hingað með leyfi hans) frá ferð til Fljótavíkur, þar sem greint var frá því að farið hafi verið að Brekku, til þess að loka húsinu og ganga frá því fyrir veturinn. Þegar maður eldist finnst manni stundum sem tíminn líði sífellt hraðar og það kristallist svolítið í þessu.
Aftur – þegar ég hugsa til pistilsins þann 4. júlí, þá er merkilegt hvernig hlutirnir geta æxlast. Þar var ég að lýsa ánægju minni yfir því að tvær flugvélar sem tengdust Fljótavík og höfðu verið óflughæfar, voru aftur komnar í flughæft ástand – og svo liðu bara nokkrir klukkutímar uns tvær aðrar höfðu skemmst – önnur við lendingu, þar sem úr varð flugatvik sem greint var frá og skráð sem slíkt og hitt þar sem niðurnjörvuð vél sleit festingar í miklu hvassviðri og skemmdist lítillega við það. Það er ekki allt tekið út með sældinni.
En þið sem dvölduð í Fljótavík í sumar, hvort sem það var í stuttan eða langan tíma, mynduð nú gera vel í því að hugsa aftur til þess tíma, og svo skrifa mér nokkrar línur – eða betra – skrifa sem “comment” hér – um hvað hafi nú verið eftirminnilegt frá sumrinu – hvað var famkvæmt – og svo framvegis, og í beinu framhaldi væri ljúft að fá ábendingar um hvað ætti rétt á að fara á “Tímalínu” ársins.
Ásgeir