Þá er ritstjóri mættur aftur. Eftir að hafa leitað til nokkurra aðila sem tengjast Fljóti, má skrifa smá póst um stöðuna.:
Örn Ingólfsson lenti TF-VIK á „Brúarbrautinni“ í byrjun maí, á leið frá útsýnisflugi um Hornvík. Að sögn var snjór að mestu farinn af láglendi og báðir lendingarstaðir fyrir flugvélar á grasi í landi Atlastaða snjólausir og að mestu þurrir.
Líklegt er að snjóalög séu í meðallagi í víkinni, þó margir hefðu e.t.v. talið líkur á að snjór yrði vel yfir meðallagi, miðað við úrkomu í föstu formi um allt land á nýliðnum vetri.
Bræðurnir Ásmundur og Vernharð Guðnasynir eru að undirbúa dagsferð í Lækjabrekku í þeim tilgangi að skoða verksummerki eftir jarðfallið sem varð um mánaðarmótin ágúst/september 2015. Í þeim hamförum, sem orsökuðust af gríðarlegum rigningum í langan tíma, féll hluti af háum bakka Bæjarár fram, í gili fyrir ofan Brekku. Mikið magn af jarðvegi fór í árfarveginn, og barst grjót niður á jafnsléttu fyrir ofan Bárubæ. Vatnsból Brekku og Lækkjabrekku eyðulögðust og ljóst að þarna verður verk að vinna. Tunna sem notuð var sem vatnsinntak fyrir Brekku barst langt niður á sand fyrir neðan Skjaldabreiðu.
Við þessa samantekt rifjaðist upp að Jósef H Vernharðsson birti myndir (á Facebooksíðu sinni) sem hann tók 1.september 2015, frá nefndu jarðfalli. Jósef gaf ritstjóra strax heimild til að birta eða deila þeim myndum….. en svo leið tíminn. Vonandi eru nú allir búnir að sjá þessar myndir, en til að auðvelda skoðun og vegna heimildarsöfnunar má sjá þessar myndir hér.
Ásgeir.
Fátt er svo með öllu illt…
Svo er að sjá að lindar-uppspretta sem rann í Bæjarána hafi komið skriðunni af stað. Þessa lind muni menn væntanlega nota fyrir neysluvatn framvegis, a.m.k. verða óhreinindi í Bæjará vegna leysinga eða úrfellis þá ekki vandamál.
En – kannski var það þessi lind sem var notuð fyrir neysluvatn frá upphafi og hún bara komið svona illilega í bakið á þeim.
Ef svo er verðum við í Atlatungu bara að vona að OKKAR lind geri ekki það sama einhverntíman…