Pistill: 15. ágúst 2014

Mér finnst sem það hafi verið “í gær” sem ég skrifaði pistil sem birtur var 4.júlí. Þar var ég að pára um snjóþungt vor og að fólk væri rétt að byrja að vitja um og koma í bústaðina. Í gær birtust myndir á Facebook  á síðu Vernharðs Jósefssonar (síðan tengd hingað með leyfi hans) frá ferð til Fljótavíkur, þar sem greint var frá því að farið hafi verið að Brekku, til þess að loka húsinu og ganga frá því fyrir veturinn.  Þegar maður eldist finnst manni stundum sem tíminn líði sífellt hraðar og það kristallist svolítið í þessu.

Aftur – þegar ég hugsa til pistilsins þann 4. júlí, þá er merkilegt hvernig hlutirnir geta æxlast. Þar var ég að lýsa ánægju minni yfir því að tvær flugvélar sem tengdust Fljótavík og höfðu verið óflughæfar, voru aftur komnar í flughæft ástand – og svo liðu bara nokkrir klukkutímar uns tvær aðrar höfðu skemmst – önnur við lendingu, þar sem úr varð flugatvik sem greint var frá og skráð sem slíkt og hitt þar sem niðurnjörvuð vél sleit festingar í miklu hvassviðri og skemmdist lítillega við það. Það er ekki allt tekið út með sældinni.

En þið sem dvölduð í Fljótavík í sumar, hvort sem það var í stuttan eða langan tíma, mynduð nú gera vel í því að hugsa aftur til þess tíma, og svo skrifa mér nokkrar línur  – eða betra – skrifa sem “comment” hér – um hvað hafi nú verið eftirminnilegt frá sumrinu – hvað var famkvæmt – og svo framvegis, og í beinu framhaldi væri ljúft að fá ábendingar um hvað ætti rétt á að fara á “Tímalínu” ársins.

Ásgeir

Skemmtiferðarskip í Fljótavík

Rétt fyrir sveitastjórnarkosningar í vor (2014), samþykkti stjórnkerfi Ísafjarðarbæjar að fara fram á breytingar á reglum um umgengni um friðland Hornstranda, í þá veru að draga úr lágflugi flugfara, hvort sem um væri að ræða þyrlur eða flugvélar, og jafnframt að herða reglur um akstur vélknúinna ökutækja, – og þar var verið að horfa sérstaklega til kröftugra vélsleða.

Stuttu fyrr var fjaðrafok í kring um grein sem skrifuð var – meðal annars –  um hávaðamengun í friðlandinu, og fannst sumum sem þar væri verið að kasta steinum úr glerhúsi, enda væri höfundurinn sjálfur að selja ferðir inn á svæðið, þar sem hann hafði einmitt mikla hagsmuni af því að þarna væri kyrrð og friður…. ja nema hávaðamengunin stafaði frá hans fyrirtæki, að sjáfsögðu. Virtist vera samhengi á milli þessarar greinar og þess að bæjaryfirvöld tóku málefnið upp. Í  greininni var einnig gefið til kynna að landeigendur hefðu að einhverju leiti afsalað sér réttindum sínum við undirbúning friðlýsingarinnar. Þegar greinarhöfundur var beðinn um að benda á hvar hægt væri að afla sér upplýsingar um þetta – gat hann það ekki. (sjá umræður undir nefndri grein)

En – hvort sem landeigendum líkar það betur eða verr – og vel að merkja – hef ég aldrei heyrt amast yfir því að ferðamenn heimsæki Fljótavík – þá kemur það svolítið spánskt fyrir sjónir að finna myndskreytta ferðalýsingu sem sýnir skemmtiferðarskip – reyndar í minni kantinum – liggja úti á víkinni, og ferðamenn í tugatali komna upp á sandinn. Þessa frásögn má finna hér.

Sumum finnst að það sé túlkun margra að landeigendum beri að afsala sér sínum réttindum og varðveita landið ósnert að mestu – til þess að taka á móti ferðamönnum…….. og þá skítt með eigendur.

Ásgeir

Fljotavik Bay, Hornstrandir
Landing at Fljotavik Bay
Fjlotavik Valley
Sunlight Patterns on Flotjavik Valley
Emerging Wild Flowers