Veiðar með snurvoð

 Hörður Ingólfsson

_______________________________________________________

Veiðar í snurvoð í Fljótavík hafa verið í umræðu meðal landeigenda og afkomenda undanfarið og sýnist flestum að veiðarnar séu mjög slæmar fyrir silunginn í Fljóti.Þegar horft er á veiðarnar frá landi má sjá togara uppi við land draga trollið meðfram ströndinni og þvert fyrir óskjaftinn. Auðveldlega má álykta að göngusilungur hljóti að veiðast í trollið og það í miklum mæli. Veiðar á göngusilungi í sjó eru háðar stöngum skilyrðum og þá hefur verið bent á að bannað er með lögum að stunda veiðar svona nálægt ósnum.

Í sumar (2008 áá) hafa veiðst nokkrir fiskar í Fljótavík með torkennilega áverka sem hugsanlega eru eftir snurvoðina.

Veiðitúr með Öldunni IS-47

Til að kanna betur staðreyndir málsins setti ég mig í samband við Gísla Jón, skipstjóra á Öldunni og fór í stuttan veiðitúr með bátnum til að fylgjast með þegar snurvoðin var dregin í Fljótavík. Myndband sem sýnir ferlið og veiðiaðferðirnar má nú finna á heimasíðu Fljótavikur –http://www.123.is/fljotavik/video/ .  Myndbandið eitt sýnir þó ekki nærri allt sem nauðsynlegt er að komi fram.

Þess verður að geta að þegar ferðin var farin (6.ágúst 2008) er silungurinn kominn upp í vatn og er minna eða jafnvel ekkert í sjónum. Til að mynda er hylurinn í Reiðá svartur af fiski þennan dag. Til að taka af öll tvímæli þyrfti að fara í aðra ferð t.d. í júní þegar silungurinn sækir stíft í sjóinn.

Ég leitaði m.a. til Kristjáns Jóakimssonar hjá Gunnvör sem fræddi mig um eitt og annað um snurvoðina og sömuleiðis er nýútkomin fróðleg skýrsla frá Hafró um snurvoðarveiðar sem nálgast má á eftirfarandi slóð: http://www.hafro.is/images/frettir/2008/fjolrit-140.pdf

Á leikmanna máli má lýsa því sem gerist þegar snurvoð er notuð við veiðar á eftirfarandi hátt:

Notaður eru tveir óhemjulangir kaðlar (800-1200 faðma langir hver)

Kaðlarnir eru lagðir á botninn í hálfhring – og nótin höfð í miðju

Strekkt er á köðlunum með spili skipsins

Við það er botnlægur fiskur “rekinn” saman og í átt að trollinu

Síðan er nótin toguð með vélarafli samtímis því að kaðlarnir eru dregnir inn

Við það safnast hluti fisksins inní trollið sem síðan er tekið inn.

Aðeins er hægt að nota snurvoðina á mjög sléttum botni.

 Áhrif á botn

Í skýrslunni frá Hafró er m.a. fjallað um áhrif kaðalsins á botninn. Staðfest er að kaðallinn rífur upp sandbotninn og rótar upp ýmsum skammlífum lífverum sem eru fiskifæða. Umrótið er þó talið vera minna en það sem á sér stað af eðlilegum sökum vegna strauma og veðra hér við land. Í Danmörku þar sem snurvoðin var fundin upp og hefur verið lengst notuð hefur verið staðfest að koli stækkar á svæðum sem snurvoðin er notuð, líklega vegna aukins fæðuframboðs sem hlýst af því þegar sandinum er rótað.

Veiðist silungur í snurvoð eða ekki?

Silungurinn er ekki botnlægur líkt og ýsa, þorskur og koli en þær tegundir geta ekki fært sig auðveldlega ofar í sjónum í skyndingu. Silungurinn á í engum vandræðum með það (hefur ekki sundmaga). Persónulega tel ég útilokað að silungurinn rekist undan kaðlinum, heldur ýmist skjótist strax yfir hann eða fælist frá þegar styggð kemur að honum við skruðninginn.

Fær silungurinn meiri fæðu vegna snurvoðarveiðanna?

Í samtali mínu við Kristján spurði ég einmitt hvort silungurinn fengi ekki aukinn aðgang að fæðu ef tegundir eins og ýsa, þorskur og koli eru veiddar úr víkinni. Kristján taldi það ekki útilokað. Fyrir leikmanni blasir einfaldlega við að ef fjarlægð eru reglulega úr víkinni mörg tonn af fiski hlýtur samkeppni um fæðuna að minnka.  Ef þetta eru tegundir sem lifa að hluta til á sömu fæðu og silungurinn sækist eftir (sandsíli, loðna) ætti silungurinn að dafna og stækka að því tilskyldu að veiðarnar verði viðvarandi. Sú ályktun getur verið kolröng því samspilið í gangverki náttúrinnar er oft flóknara en hentar okkur að skilja.

Sleppur silungurinn í gegnum nótina?

Möskvastærðin í snurvoðinni er 135mm og ætti því allur silungur sem á annað borð slysast í nótina að fara í gegnum hana fremur auðveldlega. Gísli Jón skipstjóri á Öldunni benti á að þar sem þeir eru að sækjast eftir að veiða lifandi smáþorsk verða þeir að haga drættinum þannig að fiskurinn skaðist sem minnst. Þegar dregið er af miklu afli strekkist á möskvunum og þeir þrengjast óhjákvæmilega. Ef mikið kemur af fiski í nótina getur magnið lokað fyrir að minni fiskur sleppi úr nótinni. Aðspurður sagði Gísli Jón að þann tíma sem hann hefur verið að veiða með snurvoðinni hafi ein bleikja komið í nótina, og þá líklega vegna þess að svo mikið af fiski var í henni að bleikjan hafi ekki komist út.

Má veiða með snurvoð svona nálægt ósnum?

Leitað var til Landhelgisgæslunnar um svör um lögmæti þess að draga snurvoð alveg upp að ströndinni og eins nálægt ósnum og gert er. Lögfræðingar á vegum gæslunnar skoðuðu málið og svöruðu því til að þetta væri á gráu svæði – lögin og reglugerðirnar eru ekki nógu skýr til að leggja ótvírætt bann við þessum veiðiaðferðum svona nálægt ósnum. Í lögum um lax og silungsveiði er lagt blátt bann við veiðar með “föstum veiðivélum” (net) nær ósum en í 1,5-2km fjarlægð. Dragnótin er hinsvegar ekki “föst veiðivél” og því eru þetta í besta falli óskýrt. Hinsvegar eru í lögunum skýr ákvæði um að enginn megi í raun stunda veiðar eða framkvæma neitt sem skaðar hagsmundi veiðiréttarhafa – án þess að til komi bætur fyrir skaðann. Með öðrum orðum, ef við verðum fyrir sannanlegum skaða getum við krafist úrbóta.

Skaðast silungur sem fer í gegnum snurvoðina?

Eftir þessa yfirlegu stendur í mínum huga eftir eitt atriði. Það er hvort verið getur að heilu silungatorfurnar fari í gegnum nótina og kremjist eða skaðist við að troða sér í gegnum möskvana. Við þessu er ekki til nema eitt úrræði, sem er að fylgjast vel með veiðinni næsta sumar og hvetja fólk til að taka ljósmyndir af þeim fiskum sem eru með einhverja sjáanlega áverka á roði eða holdi. Ef í ljós kemur sannanlega að silungurinn skaðast með þessum hætti hefur veiðifélagið ástæðu til að fyrirbyggja að veiðarnar haldi áfram með óbreyttum hætti.

16.ágúst 2008.

Hörður Ingólfsson

Formaður Veiðifélags Fljótavíkur

Netfang: hoin@simnet.is  – Sími 551 3358  – gsm 825 8252

 p.s. í myndbandinu um snurvoðaveiðarnar eru tvær villur:

A) Koli sem sýndur er á mynd er rangnefndur skarkoli. Rétt er að þetta er sandkoli.

B) Ný fisktegund er í myndbandinu nefnd “flyndra”. Á vef veiðimálastofnunar er þessi tegund hinsvegar nefnd “flundra”. Mér þykir flyndra vera fallegra.

________________________________________________________

17.08.2008 Ásgeir : Nú þegar myndband Harðar Ingólfssonar hefur verið birt, gæti verið að fólk verði að hugsa málin upp á nýtt – eða í það minnsta spyrja nýrra spurninga.  Það kemur mér á óvart að ekki hafi veiðst einn einasti silungur í snurvoðina. Kannski kemur það á óvart vegna þess að ég er ekki nógu vel að mér í þessu.  Möskvastærð virðist það stór að stór hluti silungs sleppur beint í gegn – og kannski syndir silungur svo miklu hraðar en þorskur og ýsa – þannig að hann nær að forða sér frá möskvunum áður en allt lokast. Hver veit. Þá er það líka spurningin hvort ALLUR silungur sé hreinlega genginn svona eftir fystu viku ágústmánaðar.
Hvað haldið þið – og hver veit?

18.08.2008 Davið Sigurðsson: Daginn. Ég var i Fljótavík i lok julí og varð var við bát sem var greinilega að veiða með snurvoð. Ég hafði nu ekki hugmynd um hvað hann var að gera þegar eg var á staðnum en hann hlýtur að hafa verið i þessum tilgangi. Ég tók líka eftir áverka á nokkuð mörgum fiskum sem ég veiddi á meðan á dvöl minni stóð en áttaði mig ekki alveg á þvi eftir hvað hann var, fannst þetta ekki beint netaför og gat ekki séð að þetta væri eftir neitt dýr heldur, þetta lýsti sér eins og einhver marningur á roðinu, eins og hann hafi lent einhverstaðar a milli. Við pældum svolítið í þessu meðan við vorum í víkinni en komumst ekki að niðurstöðu. En svona eftir á að hyggja þá sýnist mér þetta vel geta verið áverki eftir veiðafærið sem lýst er hér hér að ofan og í myndbandinu.
Eitt enn, þessu Flundra. þetta er fiskurinn sem er að rústa silungsstofninum á íslandi. Mér fannst mikið bera á einhverjum flatfisk í Fljótavatni nú þegar ég var á ferðinni í lok júlí. Og töluvert stærri heldur en fyrri ár. Síðast þegar ég fór (sumarið 2006) var ég á svipuðum tíma man ég bara eftir að hafa séð litla ‘tíkalla’ skjótast undan löpponum á mér þegar ég labbaði  í vatninu, núna voru þetta engir tíkallar, flestir fiskarnir líklega 10-20 cm á stærð. Ég reikna með því að þetta sé flundra. Ég reyndar fékk engann svona fisk og veit í rauninni ekkert hvort þetta er sandkoli, rauðspretta eða flundra. Er þetta samt sem áður ekki eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af ? Er eitthvað við þessu að gera ?
19.08.2008  Venni Guðna: Sælt veri fólkið.  Mig langar til að þakka Herði fyrir hans vandaða innlegg og rannsókn á máli málanna þ.e. snurvoðarveiðum í Fljótavík. Gísli Jón á sömuleiðis þakkir skyldar fyrir að bregðast vel við beiðni um að fá að fylgjast með veiðunum. Snurvoð er og verður afar umdeildur veiðiskapur. Margir vilja meina að með að því leyfa veiðarnar upp í harða landi sé verið að skaða ungviði fyrst og fremst. Það kemur vel fram í allri umfjöllun að það er einmitt fyrst og fremst smáfiskur sem veiðist inn á víkum og fjörðum. Það mætti svo sem deila um þetta fram og aftur og alveg klárt að sitt sýnist hverjum. Í mínum huga er málið einfalt. ÞETTA ER BANNAÐ MEÐ LÖGUM. Sumir segja óljóst aðrir ekki. Þeir sem stunda þessar veiðar eru meðvitaðir um að veiða ekki á viðkvæmum svæðum með tilliti til almenningsálits og að maður tali nú ekki um á svæðum þar sem þekktar laxagöngur eru og hafa skal það í huga að á flestum þeim svæðum eru mjög áhrifarík og sterk veiðifélög . Ég get tekið undir það að áberandi er hversu algengir ýmsir áverkar eru á silungi sem veiðist á stöng í Fljótavík.
Ég legg til að Veiðifélagið leiti allra leiða til að fá þessar veiðar af víkinni Fiskistofninn í Fljóti (silungurinn) á að njóta vafans.  Lifið heil, Venni Guðna
29.08.2008   Hörður Ingólfsson: Ég veiddi lítið í sumar, bara 3 fiska, og þar af voru mjög skrítin för á skrokknum á tveim þeirra. Förin voru eins og marningur – ekki netaför sem ég þekki vel, og ekki eftir steina. Því miður tók ég ekki myndir – en reyni að gera það næst.
17.09.2008   Ingólfur Gauti Arnarson :  Í framhaldi af umræðu um útbreyðslu “Flundru” í Fljótavík vil ég benda mönnum á grein í Mogganum þar sem flundra veiddist í Kópavogslæknum, veit ekki hvar sá lækur er en sýnir kanski hvað þessi fiskur er aðlögunarhæfur. Hér er slóðinn á fréttina:
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2008/09/17/flundra_i_kopavogslaek// .  Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af fyrir okkar góða fiskistofn ? veit einhver fróður maður hvaða áhrif þessi fiskur hefur á aðra stofna þar sem hann hefur fundist ?
02.12.2008 Davíð Sigurðsson  : Jæja, Ég var að forvitnast aðeins um þennan flatfisk sem við erum að sjá í meira mæli í víkinni og fann á vefnum áhugaverða tilraun sem áhugamanður gerði í bílskúrnum heima hjá sér.  Allavega fannst mér þetta áhugavert þó þetta svo sem ekki sömu aðstæður og við sjáum í víkinni, eingu að síður ekki ósvipaðar að öllu leyti.. fyrir áhugasama er slóð hér fyrir neðan á grein sem skrifuð er um tilraunina: http://www.angling.is/is/nr/76346/ (Aths: ég fæ hlekkinn ekki til að vísa á grein – hins vegar fer þetta á rétta síðu – setjið “flundra” í leitargluggann og þá koma margar greinar upp)
…og svo leyfi ég þessu að hanga hér áfram…. virðist sem fólk hafi pælt í gegn um heimasíðuna og bloggsíðuna – sennilega eftir að hafa hafnað þar við leit að einhverju um “Sigur Rós” , Straumnes og Fljótavík.
best resume service  skrifaði
Government create special places for fishing and hunter wich help to save nature. And pople try to go just there with their friends.
Cath Kidston Iphone 5 Case skrifaði
It’s nice to come across a blog every once in a while that isn’t the same outdated rehashed information.Excellent read!
N7189 phone skrifaði
I really appreciate the fact that you approach these topics from a stand point of knowledge and information.

 

 

Önnur útgáfa af myndbandinu

EnglishUSA