Lagfært 5.ágúst 2018
Fólk sem flutti úr Sléttuhreppi, lítur á Sléttuhreppsbókina sem heilaga biblíu. Það á sem dæmi við um hverjir bjuggu hvar og hvenær. Hér að ofan er sérstakur flipi sem heitir “Ábúendatal”, og út frá þeim flipa má sjá lista yfir ábúendur, á þeim fjórum jörðum sem voru í Fljóti.
Ábúandi: Hvað merkir það?
Í núgildandi lögum stendur: Ábúandi merkir í lögum þessum einstakling sem hefur afnotarétt af jörð með réttindum og skyldum samkvæmt lögum þessum. Þar stendur líka: Ábúð merkir í lögum þessum afnotarétt af jörð eða jarðahluta til búrekstrar eða annars atvinnurekstrar á sviði landbúnaðar með réttindum og skyldum samkvæmt lögum þessum.
Listarnir eru ekki “tæmandi”
Í dagsins önn, getur maður freistast til að líta á ábúendalistana, sem unnir eru upp úr Sléttuhreppsbókinni, sem tæmandi um þá fullorðnu sem áttu heima á hverri jörð í Fljóti, á nefndum tíma. En því er nú ekki þannig farið – og langt í frá .
Það er manni holl áminning, að rekast í minningagrein á skrif um einstakling með bein tengsl við býli í Fljóti, og “þekkja” svo afkomendur hans, fólk sem maður var samtíða á Ísafirði á sínum tíma – og hafa ekki haft hugmynd um tengsl viðkomandi við Fljót.