Ferðaáætlanir ferðafélaganna

Nýverið fékk ég bæklinginn “Ferðaáætlun 2014” frá Ferðafélagi Íslands.  Þar er gaman að sjá mikla grósku  í kring um Ferðafélag Ísfirðinga, sem er deild í Ferðafélagi Íslands. Þeir sem standa þar að baki eiga hrós skilið fyrir dugnað.

Ég fæ ekki séð að Ferðafélag Íslands skipuleggi eina einustu ferð um Fljótavík sumarið 2014. Má vera að við sem sækjum í kyrrðina og friðinn í víkinni fögru, kærum okkur kollótt um það – en af hverju er þetta svona?

Það fylgir því ákveðinn beigur að sjá á bls. 45 í nefndum bæklingi, undir ferð sem heitir S-31 Hornstrandir, hvernig Flæðareyri er flokkuð með Hornströndum. Þó skigreining svæðisins geti verið á reiki hjá “leikmönnum”  hefði maður haldið að þeir sem skrifa svona bæklinga, að ég nú ekki tali um þá sem skráðir eru farastjórar, eigi að vita betur.

Hornstrandafriðlandið er skilgreint sem landsvæðið norðan við lægstu punkta vantasvæðisins á milli Hrafnfjarðar í Jökulfjörðum og Furufjarðar, um Skorarheiði. Síðan geta menn rætt það hvort Hornstrandir séu bara það svæði sem liggur frá Hornbjargi til suðausturs að Furufirði – eða hvort það eigi við um allt svæðið þarna fyrir norðan – Norðurstrandir, og/eða Víkurnar. Í öllu falli hlýtur það að vera mikilvægt fyrir farastjóra í þessari ferð, að sjá til þess að hópurinn fari norður fyrir Skorará, svo þátttakendur geti réttlætt það að hafa komið á svæðið.

EnglishUSA