Hér skal vísað á umfjöllun sem sýnir snögga árás, sem gerð var vorið 1971, á eignarrétt þeirra sem áttu land og eða fasteignir í Sléttuhreppi. Ég geri þetta í formi tímalínu og læt lesendur um að lesa þingskjöl og dagblaðaumfjallanir um málið. Þetta er holl og góð áminning til okkar allra. Mig langar að benda alveg sérstaklega á síðustu blaðagreinina sem er fábærlega skrifuð af Ingvari Guðmundssyni.
Ef farið er með bendil inn á bláan texta – oftast inni í miðjum setningum – á að opnast möguleiki á að klikka með músinni og þá farið þið á þann texta sem liggur þar að baki. Textinn opnast í nýjum glugga sem þið svo lokið eftir lestur, með því að velja “x” efst í þeim glugga og þá farið þið aftur inn á á www.fljotavik.is.
Þegar ég birti pistil, þann 18.júlí 2014, um skemmtiferðarskip sem kom inn á Fljótavík, voru nokkrar vikur liðnar frá því að ég fann myndirnar sem einhver farþega skipsin tók og sýna svo ekki verður um villst að farþegar af skemmtiferðarskipum eru að fara í land utan alfararleiðar og þar á meðal í friðlönd. Ég var líka búinn að skrifa hluta af pistlinum, en fannst einhvern vegin að þetta væri….”ekkert”. Svo ákvað ég fyrir rest að birta þetta – og þá var ég meðal annars með í huga hvernig önnur lönd eins og Bandaríkin eða Ítalía taka á málum þegar skip koma að landi þar sem ekki eru yfirvöld og eftirlistaðilar. Í þeim löndum yrðu þessir farþegar handteknir eins og skot!
Svo merkilega vill til, að fáeinum dögum eftir að ég birti pistilinn, kom viðtal við Hauk Vagnsson framkvæmdastjóra ferðaþjónustunnar í Bolungarvík um þetta sama efni (Athugið að það er hægt að hlusta á viðtalið með því að velja hljóðklippuna rétt undir myndinni). Ég gerði þá það sem ég hef aldrei gert áður – skrifaði inn á spjallsíður og vísaði í pistil minn og alveg sérstaklega myndirnar sem tengil.
Það var eins og við manninn mælt – að allir teljarar sem sýna „innlit“ á síðuna ruku upp í hæstu hæðir, svona miðað við það sem ég á að venjast, og það sem meira var – það fór af stað umræða bæði á www.bb.isog eins í öðrum fjölmiðlum . Það er ekki úr vegi að reyna að halda einhverju af þessu til haga hér.
En í ljósi þeirrar skoðunar sem finna má hjá að minnsta kosti hjá einum aðila sem skrifaðist á við mig á bb, vil ég enn og aftur hvetja alla sem teljast landeigendur í friðlandi Hornstranda að ganga eftir því að þinglýsingar jarðanna séu í lagi – og munið að fyrir hvern dag sem líður – styttist um einn í það að úrskurður Óbyggðarnefndar liggi fyrir. Ég vil ekki fyrir nokkurn mun þurfa að heyra eftir að sá úrskurður liggur fyrir – að landeigendur hefðu átt að gæta réttar síns betur.
Og enn og aftur – ritsjóri er ekki og verður aldrei landeigandi í Fljótavík.
Pistill dagsins – 10.október 2014 – er bara enginn pistill, heldur bendi ég á síðu sem sett er undir flipann Örnefni.
Þar neðst er komin síða um frábært upplýsingaskilti sem er á Bolafjalli. Á skiltinu eru sýnd örnefni fjallstinda og fjalla í Fljótavík, sem sjást frá Bolafjalli. Skoðið þetta…:
Fyrir nokkrum dögum fékk ég tölvupóst frá Gunnari Þórðarsyni. með nýju Örnefnakorti. Kortið er gert fyrir hönd afkomenda Þórðar Júlíussonar. Ég rauk til og birti þetta hið snarasta og kom fyrir undir flipanum “Örnefni” – sjá hér.
Ég verð að viðurkenna að ég átti von á að sjá fjölda athugasemda, enda ætti kortið að skipta það miklu máli að margir myndu vilja leggja orð í belg, þó ekki væri til annars en að lýsa þakklæti til þeirra sem standa að gerð þess. Ég vil alla vega ítreka mitt þakklæti.
Við þurfum að skoða kortið og koma með ábendingar um það sem kann að vanta og eins að benda á það sem betur má fara.
Mig langar að ná fram umræðu um eftirfarandi:
Þegar við horfum á það hvernig kortið skiptist upp í 3 liti eftir því hvaða (landnáms-) jörð nöfnin tilheyra, set ég spurningarmerki við það hvort nöfn kennileita sem eru við Fannalágafjall tilheyri Atlastaðalandi eða Glúmstaðalandi. Ég hélt satt best að segja að þessi örnefni ættu að fylgja Atlastaðalandi.
Nýlega kom ritstjóri úr þriggja nátta ferð til Fljótavíkur. Einhvern vegin hefur það æxlast þannig að þrátt fyrir tvær ferðir í sumar, urðu næturnar aðeins sex samtals. Það verður ekki við allt ráðið.
Laugardaginn 30.ágúst komu tvær flugvélar til Fljótavíkur. Annars vegar til að sækja þá sem voru í Atlatungu og hins vegar til að ganga frá Atlastöðum og Bárubæ fyrir veturinn. Þar með hafa allir bústaðir Atlastaðamegin í víkinni verið yfirgefnir þetta árið. Eigendur Tungu dvelja eitthvað lengur í víkinni.
Ég veit ekki alla hluti – en mér sýnist sem framkvæmdir hafi verið töluverðar í sumar. Verið er að bæta við og stækka í Tungu, og Bárubær sem aðeins sást sem undirstöður í júníbyrjun, hefur verið byggður upp í fokhelt hús. Reyndar kemur svolítið spánskt fyrir sjónir að sjá fullbyggt hús sem þó er gluggalaust, en þetta er sniðug aðferð þar sem ekki þarf að negla fyrir glugga eða setja karma í strax – það kemur væntanlega næsta sumar. Haldið var áfram að hólfa Lækjabrekku niður og er þetta hinn glæsilegasti bústaður. Ýmislegt annað hefur verið gert, þó ég kunni ekki að segja frá því öllu.
Það er einmitt málið. Ég get ekki sagt frá því sem ég ekki veit.
Mér finnst sem það hafi verið “í gær” sem ég skrifaði pistil sem birtur var 4.júlí. Þar var ég að pára um snjóþungt vor og að fólk væri rétt að byrja að vitja um og koma í bústaðina. Í gær birtust myndir á Facebook á síðu Vernharðs Jósefssonar (síðan tengd hingað með leyfi hans) frá ferð til Fljótavíkur, þar sem greint var frá því að farið hafi verið að Brekku, til þess að loka húsinu og ganga frá því fyrir veturinn. Þegar maður eldist finnst manni stundum sem tíminn líði sífellt hraðar og það kristallist svolítið í þessu.
Aftur – þegar ég hugsa til pistilsins þann 4. júlí, þá er merkilegt hvernig hlutirnir geta æxlast. Þar var ég að lýsa ánægju minni yfir því að tvær flugvélar sem tengdust Fljótavík og höfðu verið óflughæfar, voru aftur komnar í flughæft ástand – og svo liðu bara nokkrir klukkutímar uns tvær aðrar höfðu skemmst – önnur við lendingu, þar sem úr varð flugatvik sem greint var frá og skráð sem slíkt og hitt þar sem niðurnjörvuð vél sleit festingar í miklu hvassviðri og skemmdist lítillega við það. Það er ekki allt tekið út með sældinni.
En þið sem dvölduð í Fljótavík í sumar, hvort sem það var í stuttan eða langan tíma, mynduð nú gera vel í því að hugsa aftur til þess tíma, og svo skrifa mér nokkrar línur – eða betra – skrifa sem “comment” hér – um hvað hafi nú verið eftirminnilegt frá sumrinu – hvað var famkvæmt – og svo framvegis, og í beinu framhaldi væri ljúft að fá ábendingar um hvað ætti rétt á að fara á “Tímalínu” ársins.