Pistill 4.júlí 2014

IMG_3869Þrátt fyrir mikil snjóalög í Fljótavík á vormánuðum – og þrátt fyrir að erfitt hafi verið að komast í víkina fögru vegna þessa – er það samt þannig að margt og mikið gerðist í nýliðnum júnímánuði.

Komið var til að kíkja í alla bústaði – nema Anitubæ að ég held, en þar eru allir gluggar heilir og ekki að sjá skemmdir fremur en á öðrum bæjum.

Fyrstu sumardvalargestir komu að Atlastöðum laust eftir miðjan mánuðinn. Þá var búið að vitja um Tungu, og fólk komið í vinnuferðir í Lækjabrekku (húsið hólfað að innan) og til að byggja Bárubæ, þar sem mænir hafði verið reistur fyrir mánaðarmót. Atlatunga byggðist óvenju seint, um Hvítasunnu, og þá var komið að Skjaldabreiðu. Vitjað hefur berið um Brekku og vinnuhópurinn sem byggir Bárubær dvaldi í Júllahúsi.

Hitastig hefur sennilega verið umfram meðallag í júní og gróður sprottið vel á láglendi, en mikill snjór er enn í víkinni, sérstaklega fyrir framan (innan) Langanes.

Ritstjóri komst í örfáa daga í Atlatungu eftir miðjan mánuðinn. Þeir sem eru á Facebook geta séð myndir frá ferðinni á síðunni Fljotavik.is á FB, en sú síða er öllum opin.

Þá hafið þið sem eruð á Facebook og hafið stofnað til vinskapar við fólk sem tengist Fljótavík möguleika á að skoða myndir sem nýlega hafa verið settar inn, úr ferðum fólks til Fljótavíkur. Þar má meðal annars sjá myndir sem tengjast byggingu Bárubæjar, og myndir úr sextugsafmæli sem haldið var í víkinni fyrir stuttu.

Af fleiri jákvæðum fréttum má nefna að nú hafa tvær flugvélar sem tengjast víkinni verið endurbyggðar og eru flugfærar. Annars vegar er það vélin TF-SUE sem skemmdist í hvassviðri á Ísafjarðarflugvelli  og ber nú einkennið TF-LSD – og hins vegar vél sem bar einkennisstafina TF-IOO þegar hún skemmdist í Fljótavík, en ber nú einkennið TF-DVD. (Að einhverju leiti mun þarna vera um að ræða svipað ferli og hjá bóndanum sem var búinn að eiga sömu öxina í 50 ár – þó búið bæri að skipta oft um bæði skaftið og hausinn…… eða þannig).

 

Ásgeir

 

EnglishUSA