Þá er ritstjóri mættur aftur. Eftir að hafa leitað til nokkurra aðila sem tengjast Fljóti, má skrifa smá póst um stöðuna.: Continue reading “Staðan í dag …….”
30.janúar 2015 : Fyrst jeppi og nú vélsleði…..
Fyrst jeppi – og nú vélsleði
Við lok annars vel heppnaðs leiðangurs til Fljótavíkur, í janúar 2015, til að bjarga húsum frá frekari óveðursskemmdum, varð að skilja einn vélsleða eftir á hlaðinu á Atlastöðum, vegna bilunar.
Árið 1969, þegar fyrst útgáfa sumarbústaðarins Atlastaða var reist, Continue reading “30.janúar 2015 : Fyrst jeppi og nú vélsleði…..”
Flundran er komin…..
Það þarf víst engum blöðum um það að fletta….. flundran er komin út um allan ós – þ.e.a.s. sjávarmegin við Langanes. Hörður Ingólfsson hjá Veiðifélagi Fljótavíkur segir að eftir því sem hann best viti, hafi flundra ekki farið inn fyrir (fram fyrir) Langanes inn í vatnið. Þó getur flundra þrifist alls staðar þar sem silungur þrýfst og því mun minni selta í vatninu ekki koma í veg fyrir að flundran fari þangað og jafnvel fram að Reyðá – því miður. Hörður hefur þó upplýsingar sem benda til þess að flundra fari ekki yfir steinóttan botn eins og er í rennunni meðfram innanverðu/framanverðu Langanesinu, heldur haldi sig alfarið við sendinn botn.
Veiðifélag Fljótavíkur hefur gert tilraunir með að leggja sérútbúið net í þeim tilgangi að grisja og meta stærð flundrustofnsins. Þarna er sú staðreynd nýtt að silungur heldur sig ekki alveg við botninn þar sem flundran er. Netin eru útbúin þannig að möskvarnir eru bundnir niður á blýteininn þannig að svo til allir möskvar aðrir en efsta röðin – þ.e.a.s. sú sem er næst flotunum – eru bundnir við sökkuteininn og netið liggur þá allt í botninum að undanskilinni smá rönd sem lyftist mest 15 cm frá botninum. Þessi litla rönd er nóg til að grípa flundruna – og hefur hún veiðst í tugatali í svona net – en enginn silungur hefur veiðst þannig.
Einnig hefur verið gerð tilraun með að binda netslitrur við steina og ánetjast einnig töluvert af flundrunni í slíkt – en enginn silungur.
Á myndinni hér að ofan sést Hörður vera að vitja í svona útbúnað – og augljóst er að að það er gríðarlega mikið af flundru í ósnum – þarna eru 3 fiskar á eins meters parti og það grillir í fisk í botni álbátsins. Með Herði er Jón Ólafur sonur hans. Eitthvað verða flundrur að éta, og líklegt að seiði bleikjunnar séu ofarlega á matseðlinum.
Ítrekað skal að þessar tilraunaveiðar voru á vegum Veiðifélags Fljótavíkur – og breyta ekki því að öll netaveiði á vatnasvæði Fljótavíkur að sjó – er bönnuð.
En hvað er flundra? Veiðimálastofnun er með lýsingu. Flundran er matfiskur, en til þess að það sé eitthvert vit í að flaka hann þarf þyngdin að vera komin upp í minnst 300 g. Heimildir eru um að flundra hafi verið með allra dýrustu fiskum á matseðlum á fínum matsölustöðum úti í heimi.
Er þá ekki málið að safna uppskriftum um matreiðslu flundru – og veiða hana – eða húkka – með stöng. Sláið inn “cooking flounder” í leitavélar og þið finnið helling af uppskriftum. Gegnumgangandi virðist þetta ganga út á að flaka fiskinn – steikja í einhverri fitu og kryddi, og sjá svo til þess að safi úr appelsínum komi einhvers staðar nálægt – hvort sem það er í marineringu og/eða sósu. Hver er með bestu uppskriftina fyrir Fljótavík?
Pistill 4.júlí 2014
Þrátt fyrir mikil snjóalög í Fljótavík á vormánuðum – og þrátt fyrir að erfitt hafi verið að komast í víkina fögru vegna þessa – er það samt þannig að margt og mikið gerðist í nýliðnum júnímánuði.
Komið var til að kíkja í alla bústaði – nema Anitubæ að ég held, en þar eru allir gluggar heilir og ekki að sjá skemmdir fremur en á öðrum bæjum.
Fyrstu sumardvalargestir komu að Atlastöðum laust eftir miðjan mánuðinn. Þá var búið að vitja um Tungu, og fólk komið í vinnuferðir í Lækjabrekku (húsið hólfað að innan) og til að byggja Bárubæ, þar sem mænir hafði verið reistur fyrir mánaðarmót. Atlatunga byggðist óvenju seint, um Hvítasunnu, og þá var komið að Skjaldabreiðu. Vitjað hefur berið um Brekku og vinnuhópurinn sem byggir Bárubær dvaldi í Júllahúsi.
Hitastig hefur sennilega verið umfram meðallag í júní og gróður sprottið vel á láglendi, en mikill snjór er enn í víkinni, sérstaklega fyrir framan (innan) Langanes.
Ritstjóri komst í örfáa daga í Atlatungu eftir miðjan mánuðinn. Þeir sem eru á Facebook geta séð myndir frá ferðinni á síðunni Fljotavik.is á FB, en sú síða er öllum opin.
Þá hafið þið sem eruð á Facebook og hafið stofnað til vinskapar við fólk sem tengist Fljótavík möguleika á að skoða myndir sem nýlega hafa verið settar inn, úr ferðum fólks til Fljótavíkur. Þar má meðal annars sjá myndir sem tengjast byggingu Bárubæjar, og myndir úr sextugsafmæli sem haldið var í víkinni fyrir stuttu.
Af fleiri jákvæðum fréttum má nefna að nú hafa tvær flugvélar sem tengjast víkinni verið endurbyggðar og eru flugfærar. Annars vegar er það vélin TF-SUE sem skemmdist í hvassviðri á Ísafjarðarflugvelli og ber nú einkennið TF-LSD – og hins vegar vél sem bar einkennisstafina TF-IOO þegar hún skemmdist í Fljótavík, en ber nú einkennið TF-DVD. (Að einhverju leiti mun þarna vera um að ræða svipað ferli og hjá bóndanum sem var búinn að eiga sömu öxina í 50 ár – þó búið bæri að skipta oft um bæði skaftið og hausinn…… eða þannig).
Ásgeir
Föstudagspistill 13. júní 2014
Það verður að viðurkennast að undanfarnar vikur hef ég ekki haft mikinn tíma aflögu sem ég get notað í heimasíðuna. Þann tíma sem ég hef þó haft, hef ég nýtt í síður sem þið sjáið ekki – enn sem komið er hið minnasta.
Það vita allir að snjóalög hafa verið óvenju mikil í Fljótavík í vetur og vor. Fyrir viku var gríðarlegur snjór eftir fyrir framan (innan) Langanes.
En – fólk er farið að koma í bústaðina. Þannig hefur fólk dvalið í Lækjabrekku, og búið er að vitja um Tungu. Bogga og Ingi fóru í Atlatungu um Hvítasunnu. Veit ekki um aðra bústaði – en fróðlegt væri þó að heyra.
Þar sem ég hef, eins og áður sagði, lítinn tíma aflögu, langar mig að varpa því fram hvort einhverjir þarna úti gætu ekki hugsað sér að setjast niður og skrifa pistla til birtingar hér? Það er í raun af mörgu að taka.
Ásgeir
Ferðaáætlanir ferðafélaganna
Nýverið fékk ég bæklinginn “Ferðaáætlun 2014” frá Ferðafélagi Íslands. Þar er gaman að sjá mikla grósku í kring um Ferðafélag Ísfirðinga, sem er deild í Ferðafélagi Íslands. Þeir sem standa þar að baki eiga hrós skilið fyrir dugnað.
Ég fæ ekki séð að Ferðafélag Íslands skipuleggi eina einustu ferð um Fljótavík sumarið 2014. Má vera að við sem sækjum í kyrrðina og friðinn í víkinni fögru, kærum okkur kollótt um það – en af hverju er þetta svona?
Það fylgir því ákveðinn beigur að sjá á bls. 45 í nefndum bæklingi, undir ferð sem heitir S-31 Hornstrandir, hvernig Flæðareyri er flokkuð með Hornströndum. Þó skigreining svæðisins geti verið á reiki hjá “leikmönnum” hefði maður haldið að þeir sem skrifa svona bæklinga, að ég nú ekki tali um þá sem skráðir eru farastjórar, eigi að vita betur.
Hornstrandafriðlandið er skilgreint sem landsvæðið norðan við lægstu punkta vantasvæðisins á milli Hrafnfjarðar í Jökulfjörðum og Furufjarðar, um Skorarheiði. Síðan geta menn rætt það hvort Hornstrandir séu bara það svæði sem liggur frá Hornbjargi til suðausturs að Furufirði – eða hvort það eigi við um allt svæðið þarna fyrir norðan – Norðurstrandir, og/eða Víkurnar. Í öllu falli hlýtur það að vera mikilvægt fyrir farastjóra í þessari ferð, að sjá til þess að hópurinn fari norður fyrir Skorará, svo þátttakendur geti réttlætt það að hafa komið á svæðið.