30.janúar 2015 : Fyrst jeppi og nú vélsleði…..

 Fyrst jeppi  –  og nú vélsleði

Willy's jeppinn góði. Hann þjónaði í Fljótavík, um árabil. Grunur leikur á að þetta sé mynd tekin af Guðna Ásmundssyni. og óskandi að geta fengið það staðfest.
Willy’s jeppinn góði. Hann þjónaði í Fljótavík, um árabil. Grunur leikur á að þetta sé mynd tekin af Guðna Ásmundssyni. og óskandi að geta fengið það staðfest.

 

Við lok annars vel heppnaðs leiðangurs til Fljótavíkur, í janúar 2015, til að bjarga húsum frá frekari óveðursskemmdum, varð að skilja einn vélsleða eftir á hlaðinu á Atlastöðum, vegna bilunar.

Árið 1969, þegar fyrst útgáfa sumarbústaðarins Atlastaða var reist, var notaður traktor sem Vernharð Jósefsson átti og notaði sem vinnutæki í landbúnaði sínum í Hnífsdal. Traktorinn sá, mætti í vinnuferð og fór svo vandræðalítið til baka enda mikil þörf fyrir hann heima hjá sér í Hnífsdal.

Í stað traktorsins, kom Willy’s jeppi – sem átti bara að vera tímabundið í Fljóti og fara svo til baka. Þetta er rifjað hér upp, í framhaldi af þessu með sleðann, vegna þess að það fylgdi því meiri háttar basl að reyna að koma jeppanum aftur til byggða – og á endanum var gefist upp – og endaði hann sína lífdaga í Fljóti. Margir leiðangrar voru farnir til að reyna að endurheimta farartækið – og meira að segja mun landgönguprammi frá ameríska hernum hafa sokkið í einni tilrauninni.

Grisjun við Reyðá
Þessi mynd er tekin við Reyðárósa – löngu fyrir tíð jeppans í Fljótavík. Það er umhugsunarvert, að svo virðist sem mun minna sé af stórum fiski á vatnasvæðinu en áður var. Þó þessi mynd virðist gefa til kynna að þarna hafi mikið verið tekið af fiski, skulum við ekki gleyma því að þessi mynd var tekin ca 10 árum eftir að víkin fór í eyði – og á meðan fólk bjó í víkinni hefur áræðanlega margalt þetta magn verið veitt til matar á ári hverju.

Það eru reyndar til alls konar sagnir um dutlunga Willy’s jeppanns. Hann var árum saman í Fljóti – en oft bilaður, og þá gjarnan að hausti þegar víkin var yfirgefin. Samt lék grunur á að hann hafi verið hreyfður yfir veturinn – og að “gömlu mennirnir” – Júlíus og Jósep, löngu gengnir,  hefðu haft af honum gagn.  Auðvitað var það ekki þannig (ætla ég rétt að vona) , – heldur fólst skýringin í því að það voru farnar ferðir í Fljót seint að hausti þar sem náð var í mikið magn af stórri bleikju fram í hana Reyðá. Þá var kanski einhver með í för sem kom jeppanum í gang og svo var hann skilinn eftir annars staðar en þar sem hann var þegar víkin varð mannlaus það haustið. Er ekki orðin lenska að segja að maður eigi ekki að láta sannleikann þvælast fyrir góðri sögu.

Kanski að þeir frændurnir  geti þá notað sleðann fram á vorið – en svo næst hann vonandi til baka einn góðan veðurdag.

Ég þykist reyndar vita að jeppinn hafi endað úti í sjó, fyrir neðan þann stað þar sem restin af Gunnvöru er nú – og að þar megi stundum sjá glansandi drifskaft, koma upp úr sandinum á fjöru. Sjávarföllin sjá til þess að þessi málmur sé stöðugt sorfinn og gljáfægður, með sandi!

Ég lýsi eftir því að einhver sem þekkir sögu Willy’s jeppanns skrái hana. Hver lánaði jeppan í byrjun og hverjir lögðu svo út fyrir kaupum á honum. Hvernig kom hann í Fljót og hver urðu endanleg örlög hans. Hvað með misheppnaða björgunarleiðangra?  Hverjir komu að því og hvað fór úrskeiðis?

Ásgeir

EnglishUSA