Viðbót við blogg frá janúar 2021

Í janúar 2021 birti ég blogg sem vísaði í frásögn um flugóhapp sem varð við Grjótodda- / eða Tungu (lendingarstað fyrir flugvélar) í Fljótavík. Nú sendi Eddi Finns 5 litljósmyndir sem teknar voru á og yfir staðnum þar sem óhappið átti sér stað. Ein myndanna er reyndar tekin fyrir sunnan, áður en lagt er af stað til viðgerðar.

Kíkið á þetta

Fransmannagrafir í Fljótavík?

Til að skrifa skilaboð skal velja hlekkinn sem tengist yfirskriftinni.

Í lok febrúar 2022 fékk ég skemmtilega og merkilega upphringingu frá Maríu Óskarsdóttur sem býr á Patreksfirði. Eftir að hún hafði kynnt sig og spurt hvort ég væri nú ekki sá sem “væri með” þessa síðu, sagði hún á sér deili.

María hefur í yfir tuttugu ár safnað upplýsingum um samskipti íslendinga við Fransmenn á skútuöldinni. Ég leitaði hennar á internetinu og þar má finna margt athyglisvert. Hún hefur gefið út bók um þetta grúsk sitt, og ríkisútvarpið (Landinn) ræddi við hana árið 2016.

Í Landanum kom fram að hún sé nú farin að einbeita sér að því að safna upplýsingum um grafir Fransmanna á Vestfjörðum. Talið er að hátt í 4 þúsund Fransmenn hafi látist við strendur Íslands. Margir þeirra hvíla í ómerktum gröfum við sjávarsíðuna. Oftast var farið styðstu leið í land og þeir grafnir jafnvel í fjöruborði eða því sem næst. Það mátti ekki missa tíma frá veiðunum.

María segir að sögur um Fransmannagrafir, þar sem eldri kynslóðir hafi sagt þeim yngri, séu enn lifandi, og hún vilji safna þeim.

Og þá er komið að Skiphól í Fljótavík. María hefur heyrt sagnir um að Fransmenn sé grafnir í Skiphól. Ég benti á að Skiphóll væri ansi langt frá sjó, sem stangast á við að mönnum lá á að komast aftur á veiðar.

María sagði frá heimildarmanni sem var ættaður frá Norðurfirði á Ströndum. Sá hafi sagt að hann hefði heyrt sagnir um að þarna séu grafnir (fleirtala) Fransmenn. Hún veit þó ekki hvaðan hann hafði þessar upplýsingar.

Samtal okkar stóð lengi og m.a. rætt að líkum sem skolaði á land í seinni heimsstyrjöld hafi verið komið fyrir og þau dysjuð en þau sótt að styrjöldinni lokinni.

María er ekki á Facebook og við komum okkur saman um, að ef eitthvað kemur út þessari fyrirspurn, muni ég hafa samband við hana.

Hefur einhver heyrt um svona Fransmannagrafir í Fljótavík?

Frétt frá árinu 1910

Það er ekki endilega markmið ritstjóra að vera fyrstur með fréttir. Það er frekar markmið að frétt hafi einhver tengsl við byggðina í Fljóti.

Hér kemur frétt sem segir frá því að mótorbátur hafi sokkið á Fljótavík, og ekki náðst upp aftur. Það virðist ekki skipta neinu máli hvort báturinn hét eitthvað, eða hversu stór hann var. Einnig virðist aukaatriði hvort einhver var um borð eða hvort allir hafi nú bjargast ef einhverjir voru um borð.

Fréttin hér að ofan er úr blaðinu Vestra sem var gefið út 24. september 1910. Seinni fréttin, sem er hér fyrir neðan, er úr Þjóðviljanum frá 12. okt. 1910.

Það er freistandi að halda að strax þarna árið 1910 hafi fjölmiðlar verið byrjaðir að vinna sínar fréttir upp úr fréttum sem þeir hafa lesið í öðrum fjölmiðli. Vélbátur í stað mótorbáts og ekki náðst á flot í staðinn fyrir ekki náðst upp.

Og svo gerir maður þetta sjálfur……. 🙂

Ný síða undir “Sögur og óflokkað”

Eignartengsl núverandi eiganda landnámsjarðarinnar Atlastaðir í Fljóti, eru rakin til ársins 1906, þegar tvenn hjón keyptu og fluttu á jörðina.

Nýlega var bent á tengsl við bændur í Fljóti á undan þessum hjónum.

Hér skal nú bent á frásögn af Friðriki Geirmundssyni, sem var bróðir Júlíusar.

Þessi frásögn er sett í flipa undir “Sögur og óflokkað” og á að finnast við að færa bendil á þann flipa og skruna þar niður. Einnig má bara velja þennan “hnapp” :

Að halda í sögurnar ……..

Ríkisútvarpið, sjónvarp – sendi þáttinn Ferðastiklur að kvöldi 7.mars 2019. Margt skemmtilegt og fróðlegt kom fram, og fyrir mig var athyglisvert að sjá hversu mikið af myndum tengdust Krossadal, Nautadal og klettabeltinu þar fyrir ofan – því sem við köllum Krossar.

Gaman er að sjá hversu mikil viðbrögð þátturinn hefur fengið á hinum ýmsu miðlum, eins og Facebook. Mikið af viðbröðgunum tengjast “heimamönnum” og fólki sem hefur tengsl við þá.

En, við sem komum í Fljót, fengum líka að sjá, hversu miklu skiptir fyrir ferðamenn að hitta á gott veður og gott skyggni. Sumir ganga um Hornstrandir og sjá aldrei annað en sól – og þá er lífið dásamlegt. Svo er það hin hliðin, – þoka og kalsaveður og þá er ekki alveg eins gaman að ganga þarna um.

Mörg orðatiltæki sem tengjast veðri hafa orðið til í Fljóti. Lognhraði, sem dæmi. Annað er ” alltaf sól í Tungu”. Grófdropa þoka – ef maður vill ekki kannast við rigningu. Heiðskírt – ef sést í bláan díl á himni. Tengdamóðir ritsjóra hefur sem reglu að ekki megi taka af henni mynd ef úlpan er rennd – hún vill alltaf renna niður áður. Allt vísar þetta í sömu átt …… við viljum vinna á móti þeim orðrómi að þarna sé ekki alltaf gott veður.

Þessi heimasíða hefur það að markmiði að safna upplýsingum og sögum sem tengjast Fljóti, og því var gaman að heyra sagðar sögur, sem að einhverju leiti hafa verið skráðar og finnast hér á vefnum.

Í því sambandi skal rifja eftirfarandi upp:

EnglishUSA