Ég er einn af þeim ………

Við kynnumst alls konar fólki á lífsleiðinni. Sumum finnst gaman að taka myndir, hvort sem það eru kyrrmyndir eða “lifandi myndir”………

Ég átti líka Super-8 filmuvél og tók þannig myndir á spólur. Þar er ég reyndar búinn að setja dýran pening í að afrita yfir á geisladisk. Þessi vél kom aldrei í Fljót. En spólurnar eru komnar í kassa. Þannig er það hjá mörgum – ég er ekki einn – ó, nei…. ég er einn af þeim.

Kyrrmyndir voru hér áður fyrr framkallaðar og varpað á pappír. Um tíma var pappírinn hamraður – það þótti fínt. Í dag er erfitt að ná myndum af þeim myndum og færa á rafrænt form. Aðrir tóku myndir og settu í skyggnuramma – slides . Þær eru hjá mörgum, geymdar í sérstökum sleðum sem má setja beint í sýningarvél. Mín sýningarvél er ónýt og allar skyggnur lokaðar í kassa, og þannig er það vafalaust hjá mörgum …. ég er einn af þeim.

Svo var það Mini-DV stafrænt video. Sú vél kom oft í Fljót og ég á helling af upptökum þaðan. En vélin er ónýt – og spólurnar í kassa. Þannig er það hjá mörgum – ég er ekki einn – ó, nei…. ég er einn af þeim.

Við lifum nú á þessum tímum, þar sem ekki þarf að spara filmurnar. “Enginn” fer lengur út úr húsi án þess að taka góða myndavél með sér. Einhver okkar munu lenda í því að síminn verður fyrir hnjaski eða þaðan af verra – og ekkert afrit af myndum. Það jafngildir því að myndirnar hafi verið settar í kassa ……. ég er einn af þeim.

Nú þegar tækninni fleygir fram er orðið tiltölulega auðvelt að setja skyggnur ofan á mattan ljósgjafa, og taka mynd af mynd með síma, nú eða með sérstökum græjum. Og nú er ég orðinn …. einn af þeim!

Mynd tekin frá Atlastaðahólnum í Fljóti. Fjallið er Hvesta. Regnboginn kemur niður við Hvestudali. Sól varpar skugga af Kögri á klettabeltið Kónga, yfir Ingunnarklettum. Myndin er upphaflega tekin á Slides filmu, en gerð rafræn með iPhone síma

Því kemur nú mynd af slidesmynd. Þessi er tekin alveg um árið 1990 – áður en Atlatunga var byggð (1993) en eftir að flaggstöngin góða kom á Atlastaðahólinn


EnglishUSA