Geirmundur heljarskinn fundinn?

Pistilinn skrifar:    Tómas Halldór Pajdak

Allt frá því að ég fór að kynna mér sögu jarðarinnar Atlastaða hefur ákveðin spurning ferðast með mér: Hvers vegna var stórlax frá Noregi, þ.e.a.s. Geirmundur heljarskinn, að slá eign sinni á Fljót? Og að auki: Af hverju var þessi Atli, sem Atlastaðir draga nafn sitt af, á svona miklu flakki? Hann á skv. Landnámu að hafa líka búið í Barðsvík og svo er Atlaskarð á milli Hælavíkur (sem fyrr á öldum var nefnd Heljarvík) og Rekavíkur bak Höfn.

Ég hef nýlokið við að lesa bókina Den svarte vikingen e. Bergsvein Birgisson og hef loksins fengið svör við þessum spurningum. Bókin kom í ár út á íslensku undir heitinu Leitin að svarta víkingnum og fjallar um Geirmund heljarskinn. Þótt ýmislegt hafi verið ritað um Geirmund af lærðum mönnum á 13. og 14. öld er augljóslega margt sem þeir lærðu, annað hvort fengu ekki að vita, eða ákváðu að færa ekki í letur. Með því að byggja á örnefnarannsóknum, textarýni, fornleifarannsóknum og erfðafræðiuppgötvunum m.a. tekst höfundi að draga upp nokkuð heilsteypta og trúverðuga mynd af ævi Geirmundar – og ástæðum þess að á miðöldum var minna um hann ritað en efni stóðu til, a.m.k. að mati höfundar.

Bergsveinn leiðir það út, að Geirmundur hafi verið leiðtogi veiðileiðangra sem farnir voru frá Írlandi til Íslands áður en föst búseta norrænna manna á Íslandi hófst. Ýmislegt var veitt í þessum ferðum en allra mest mátti upp úr því hafa að veiða rostunga. Í kringum landnám Íslands ku umtalsverður fjöldi rostunga hafa verið á landinu. Fyrir utan skögultennurnar var hægt að fá gott verð fyrir húðina, sem var notuð til að búa til sterk reipi, og spikið, sem var brætt.

Geirmundur hafi svo síðar, líkt og margir aðrir slíkir veiðigarpar, sest varanlega að á Íslandi og verið þar umsvifamikill í nokkra áratugi. Hann bjó við Breiðafjörðinn en sennilega hefur rostungum við Breiðafjörð fækkað verulega um það leyti sem hann sest þar varanlega að.

Því hafi það orðið úr hjá Geirmundi, skv. bókinni, að eigna sér líka landflæmi norðar, í Sléttuhreppi hinum forna og víðar, þar sem enn var mikið um rostunga.

Hið svokallaða bú sem Atli á flakki varðveitti fyrir Geirmund skv. Landnámu hefur því ekki verið neitt bú heldur verstöð rostungaslátrara!

Bergsveinn telur að Atli hafi leitt einn, af sennilega þremur nokkuð sjálfstæðum veiðiflokkum á svæðinu (sem og Kjaran og Björn), veiðiflokkum sem dvöldu í nokkur ár á hverri stöð eða þar til rostungar voru orðnir sjaldséðir á þeim stað. Líkast til hafi Atli hafið yfirmannaferil sinn sem leiðtogi veiðiflokks í Barðsvík og svo endaði hann í Fljóti, þannig að flokkurinn hefur fært sig norðar og norðar með árunum.

Um það leyti sem búið var að nokkurn veginn útrýma rostungum á Íslandi hefur Atli svo fengið að gjöf landið þar sem hann hafði búið síðustu árin, eftir margra ára dygga þjónustu við sinn herra.

Bókin er mjög góð. Höfundur fer á kostum þegar hann ímyndar sér hvernig títtnefndur Atli hafi litið út.  Ég vil sérstaklega geta þess hér að norska útgáfan inniheldur Fljótavíkur-kafla upp á tvær og hálfa síðu.

Bókin gæti samt verið betri. Þegar Bergsveinn tjáði sig um efni sem ég tel mig vita þó nokkuð um, og þá Fljót og erfðafræði sérstaklega, varð ég var við að nálgun hans var ekki jafn gagnrýnin og vönduð og æskilegt væri. Einnig fannst mér bókin dala nokkuð þegar síga fór á seinni hlutann, einkum vegna endurtekninga og þess að ljóst varð að lítið yrði um tengingar á milli þess sem kom fram í öðrum hlutanum við það sem kom fram í þeim fimmta.

Ég mæli eigi að síður með þessari bók fyrir alla sem áhuga hafa á sögu landnáms á Íslandi og sé fyrir mér að hún geti orðið grundvöllur að áhugaverðum og skemmtilegum samræðum í Fljóti.

Ritstj: Loksins, loksins kemur innsendur pistill, og hann á svo sannarlega erindi á síðuna. Mér sýnist augljóst að ég muni fljótlega eftir áramót afrita pistilinn og gera sérstaka síðu undir fellistikunum, því þarna bendir Tómas á spennandi og yfirgripsmikið lesefni, sem mikið hefur verið fjallað um í ýmsum miðlum. Það skal áréttað að þó Tómas fjalli um bókina “Leitin að svarta víkingnum” sem kom út árið 2016 á Íslandi, kom  bókin “Geirmundar saga heljarskinns”  eftir sama höfund út hér á landi árið 2015.  Ásgeir.

PS: Viðtal var við höfundinn í Ríkisútvarpinu, Rás 1 að morgni 8.desember 2016 – eftir að ég var búinn að gera pistil Tómasar tilbúinn til birtingar. Ég set hlekk í viðtalið hér

 

EnglishUSA