Lokað fyrir innskráningar

Um miðjan mars 2019 birti ég blogg undir yfirskriftinni “Söfnun” . Þar var ég að reyna að fá ykkur sem kíkið oft á síðuna að skrá ykkur inn, – upplýsa um hver þið væruð – í þeim tilgangi að auðvelda ykkur að skrifa athugasemdir undir það sem ég skrifa – eða jafnvel að veita ykkur aðgang til að skrifa sjálf blogg eða síður. Það var nú draumurinn.

Það voru ekki margir sem skráðu sig – því er nú verr og miður.

En óheppnin ríður ekki við einteyming. Ég vissi það ekki þá – en er nú búinn að uppgötva, að á svipuðum tíma og ég opnaði fyrir innskráningar – hefur orðið bylting í gerð þeirra tölvukerfa sem reyna að ráðast á svona síður. Stórir aðilar nota forrit sem eru orðin miklu öflugri og finna frekar leiðir til að komast inn á síðurnar. Þetta á ekki bara við það kerfi sem við erum að nota – WordPress – heldur almennt.

Á hverjum sólarhring, undanfarna 2-3 mánuði, hef ég þurft að eyða – handvirkt – tugum innskráninga. Engin innskráning hefur þó getað sett neitt inn á síðurnar, að því er ég best veit.

Eins og sést á myndinni, erum við sem tengjumst Fljóti, og þá reyndar væntanlega aðallega karlpeningurinn, alveg afskaplega spennandi möguleikar fyrir kvenfólk. Þær bara vilja endilega komast í kynni við okkur. Mig grunar að margri konunni sem þekkja okkur, finnst þetta harla merkilegt 🙂

Þeir sem eru að forrita WordPress og skyld forrit, eru nú að koma með viðbrögð við þessu. Það stefnir í að innskráningar fari í svipað ferli og stórfyrirtækin og bankar eru með – tveggja þátta innskráningar – en til viðbótar þurfi sá sem vill fara inn á svona heimasíður að hafa annað lykilorð sem hvergi er skráð og því hvergi finnanlegt.

Ég hef nú fjarlægt innskráningargluggann af síðunni. Leitarvélarnar sem “hakkarar” nota, halda samt áfram – og geta fundið línu í forritinu sem byggir upp WordPress. Hakkararnir halda sem sagt áfram að hrella mig – í einhverja daga – uns ég hef fundið út úr því að setja upp nýja innskráningarleið.

EnglishUSA