Mórunes

Nýyrðasmíð örnefna

Örnefni verða gjarnan til vegna tengsla við eitthvað sem hægt er að sjá í landslagi. Mávar sem setjast oft á sömu tjarnir eða vötn, geta leitt til þess að til verði nafnið Mávavatn eða fleirtöluorðið af því. Bæjarstæðið Tunga fær oft það heiti þar sem einhver hefur getað séð einhvers konar tungu nálægt eða á þeim hól sem bær er byggður á.

“Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt” er fræg hending úr ljóði eftir Tómas Guðmundsson.  Í þessu ljósi er svo augljóst hversu mikilvægt það er að halda örnefnum í Fljótavík á lofti og upplýsa þau yngri  – hvað ungur nemur, gamall temur.

Eitt er það “örnefni” sem byrjaði sem góðlátlegt grín,

Mórunes er neðst á myndinni - mjói oddinn sem sést neðanvert við Drápslækinn. Oddinn hefur styttst undanfarin ár.
Mórunes er neðst á myndinni – mjói oddinn sem sést neðanvert við Drápslækinn. Oddinn hefur styttst undanfarin ár.

en hefur þó náð að festa einhverjar rætur að minnsta kosti hjá Vernharðslegg Jobbaranna – sem sagt hjá Vennunum. Þetta örnefni er Mórunes. Kannast lesendur við það?

Þannig var, að hér áður fyrr féll Bæjaráin sem kemur úr Bæjardal niður í ósinn rétt sunnan við Kríuborg. Eitthvað vatn fer enn þá leið, og eins fellur vatn/sjór langt inn í þennan gamla farveg þegar mikið er í ósnum. En – þegar Bæjaráin rann öll þessa leið, var fjaran sunnan við, einn samfelldur illa lyktandi fúgapyttur, þar sem þari og þarabútar rotnuðu með þeirri leiðu lykt sem í víkinni kallast  “búta-pest” !

En svo gróf Bæjaráin sig í gegnum tún Atlastaðabænda, og fór í þann farveg sem við þekkjum í dag, undir nafninu Drápslækur. Þetta leiddi til þess, að umrædd fjara hreinsaðist smám saman af fúgapyttum og þarabútum, og botninn þéttist, og varð manngengur, og svo fór hann að halda flugvélum, og var – og er enn – notaður, þegar lágsjávað er, sem lendingarstaður fyrir flugvélar.

Það fylgdu því ýmis vandræði að lenda “á flugvellinum” eins og þetta svæði var kallað um tíma. Ýmsu skolaði á land og því þurfti að hreinsa fjöruna bæði vandlega að vori og eins einstaka sinnum á sumri. Þá flæðir tvisvar á sólarhring yfir lendingastaðinn – og stundum – eins og var allt sumarið 2015, bara hreinlega féll ekki út úr Ósnum – flugbrautin kom sjaldan eða aldrei upp.

Morunes2
Á þessari snjóléttu mynd, sem er “kroppuð” út úr stæri mynd sem tekin var af Erni Ingólfssyni 12. febrúar 2010, má með góðum vilja sjá Mórunesið – leiðigarð meðfram Drápslæknum þar sem hann kemur út á sandinn.

En svo ég klári þetta með örnefnið, þá tók Bæjaráin, eða réttara sagt Drápslækurinn oft upp á því að breyta flæði sínu út á sandinn, þó oftast hefði streymið verið mest í átt að Tunguhólnum. Þannig gat munað tugum metra á lengd nothæfrar flugbrautar, frá ári til árs. Því var gripið til þess ráðs, á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar,  að tyrfa vestanvert við árósinn og lengja þannig streymi í átt að Fljótsskarðinu. Við þetta lengdist flugbrautin til muna.

Nú er loksins komið að nýyrðasmíðinni, því þessi tota, sem að hluta var gerð af Mórunum svokölluðum, fékk vegna tengsla við þær, fljótlega nafnið – jú, einmitt: “Mórunes”. 

Með tímanum hefur þessi garður, smám saman styttst, og er nú við það að hverfa. Mórunes hefur ekki komist á örnefnalista svæðisins, en örnefnið hefur þó haldist og stefnir í að verða notað yfir allt svæðið þar sem flugpokinn stendur.

 Ásgeir

2 Replies to “Mórunes”

  1. Í upphafi ætlaði ég að kalla þennan pistil – Mórunes…… en á síðustu stundu hætti ég við það….. eða kanski réttara sagt kallaði ég pistilinn annað svona fyrst um sinn. Ég reikna með að breyta nafninu aftur yfir í Mórunes, í náinni framtíð….

Comments are closed.

EnglishUSA