Sorglegt, broslegt, grátbroslegt…. ?

Stytt 3.ágúst 2018

Svona getur alltaf komið fyrir  🙂 

Stundum á maður í vandræðum með að mynda sér skoðun.

IMG_2918
Gömul mynd – fann enga betri, en sagan gerist nálægt húshorninu hér til hægri….

Sem dæmi kemur hér lítil frásögn af nokkru sem gerðist í Fljóti að kvöldi þriðjudagsins 9.ágúst 2016. Þann dag, og reyndar í 4-5 daga á undan, hafði veður verið einstaklega gott með háum lofthita, allt að því heiðskírum  himni og vindhraða sem nálgaðist …. ja bara engan vind, sem sagt logn.

Margir á heimleið 

Þrátt fyrir öll þessi gæði, var komið að dvalarlokum fólks sem hafði dvalið í sumarhúsunum að Atlastöðum, í Bárubæ og á Brekku , og það voru samantekin ráð, að fá bát til að flytja alla til Ísafjarðar. Eins og gengur, varð úr að báturinn kæmi undir kvöld.

Óvenju mikið hafði verið um um fótgangandi ferðamenn á þessu sumri. Margir tjölduðu á tjaldstæðinu sem er um rúmum 100 metrum  framan við (innan við)  björgunarskýlið, og stundum mörg tjöld í einu.

Rómantík

Þetta ákveðna kvöld, var aðeins  um eitt erlent, ástfangið, ungt par að ræða. Þar sem hækkun er í landinu,  á milli tjaldstæðisins og útsýnis til sjávar, og þetta unga par var „eitt í heiminum þarna á hjara veraldar“, ákvað það að tjalda ekki á sjálfu tjaldstæðinu heldur í 5 metra fjarlægð frá skýlinu, og þar alveg úti við mörk sjávarkambs og fjöru, með op tjaldsins í stefnu að Straumnesi. Svo var setið þétt saman fyrir framan tjaldið og horft til sjóndeildarhringsins þar sem sólin lækkaði á lofti. Algjör rómantík – algjör þögn nema sjávarniður og fuglasöngur.

Jæja. Það spillti svo sem ekki útsýni þeirra að sjá bát koma fyrir Straumnestá – hann væri örugglega bara að halda til veiða eða sigla fyrir Kögur. En – svo fóru hlutirnir að gerast. Svei mér þá ef báturinn stefndi ekki beint á þau…. og hvaða hljóð heyrðist inni í landi…… ?

Eins og þeir vita, sem hafa komið eða farið með báti frá Atlastaðalandi, er oft valið að lenda við „Stóru steina“  sem eru rétt utan við skýlið, og því hópast þeir sem bíða brottfarar að skýlinu og safna farangri þangað.

Hakan niðri á bringu 

Ég sem pára þetta, kom sjálfur með síðustu ferð að skýlinu – og tjaldstað parsins (til að taka BobCat bílinn til baka) og þá var verið að ferja mannskap og farangur í næst síðustu ferð um borð. Ég sá unga parið sitja fyrir framan tjaldið. Við horfðumst í augu og veifuðum til hvors annars. Sögðum ekki eitt einasta orð, en mér fannst þau eitthvað hálf skrítin í framan! Mikið vildi ég vita, hvað þau voru að hugsa, um ró og friðsemd sólarlagsins, verandi á hjara veraldar.spurning

Nú velti ég því fyrir mér hvort þetta teljist vera broslegt, sorglegt, grátbroslegt eða bara eitthvað allt annað?

Ásgeir

2 Replies to “Sorglegt, broslegt, grátbroslegt…. ?”

  1. Það var eiginlega alveg voðalegt að smeyja sér inn í þessa yndislegu Rómantík. Þetta ætti maður ekki að iðka, heldur stinga sér á bak við stærsta steininn og láta ekkert á sér kræla.
    Fljótavík fagra Fljótavík. staður kyrrðar og rómantíkur

Comments are closed.

EnglishUSA