Það má nú bíða……….

Oft verða til orðatiltæki til að lýsa einhverju sem gerist – jafnt í Fljóti sem annars staðar.

Til að taka dæmi, var vindhraðamælir settur efst á vesturmæni Atlatungu árið 1994. Þar sem sumir vildu ekki viðurkenna að í Fljóti mældist meiri vindhraði en “logn….. !” – var að sjálfsögðu eðlilegast að kalla mælinn lognhraðamæli.

IMG_4263
Eldivið komið fyrir á þurrum stað en þó þannig að loft leiki um hann

Það var um þetta leiti sem farið var að  segja: Mesti vindhraði sem þekkist í Fljóti, er logn, en það getur þó verið að flýta sér“. Svipuð orðatiltæki heyrast oft nú um daga, en ekki þorir ritstjóri að halda því fram að það eigi sinn uppruna á landsvísu í Fljóti, víst er þó að það er nálægt því.

Annað dæmi, og sem vísað er í með yfirskriftinni, snerist um þurrkun á eldivið. Fyrstu árin eftir að Atlastaðir voru reistir, árið 1969, var húsið að mestu óeinangrað miðað við hvernig hús eru einangruð nú. Því gekk hratt á eldivið. Reyndar var “nóg” af honum á þessum árum, og lítið mál að fleyta upp ósinn og að Skiphól.

Mest af þeim rekaviði sem dreginn var heim að húsi, var gegnblautur, enda  nýlega rekinn á fjörur, eða sóttur þar sem hann maraði í kafi. Viðurinn var svo sagaður – vel að merkja handsagaður fram yfir árið 1975, og oft þurrkaður í slíkum  bútum, yfir vetur ef kostur var á, og síðan hogginn í stærðir sem hentuðu í ofnana.

En stundum var lítið um þurran við, og þá þurfti að höggva smátt og stilla upp þannig að vindur (ég meina logn sem fer hratt) og helst sól gæti leikið um. Þessu fylgdi sá galli að það þurfti að bjarga viðnum undan rigninu, sem reyndar eins og allir vita – er afar sjaldgæf í Fljóti.

Einhverju sinni, voru aðeins konur með ung börn á Atlastöðum, nema hvað einn eldri maður var þarna. Hann var ekki allt of vinnusamur. Því gengu konurnar í það að höggva við og stilla til þerris. Þar kom, að augljóslega var stutt í rigningu og því varð uppi fótur og fit. Konurnar ruku í það að koma viðnum inn en reyndu að fá manninn til að hjálpa, en hann svaraði…: Það má nú bíða.  Þetta svar mannsins hefur frá þeim tíma verið notað til að leggja áherslu á að nú þurfi að gera eitthvað strax…… sem sagt sem öfugmæli……

 

EnglishUSA