Að halda í sögurnar ……..

Ríkisútvarpið, sjónvarp – sendi þáttinn Ferðastiklur að kvöldi 7.mars 2019. Margt skemmtilegt og fróðlegt kom fram, og fyrir mig var athyglisvert að sjá hversu mikið af myndum tengdust Krossadal, Nautadal og klettabeltinu þar fyrir ofan – því sem við köllum Krossar.

Gaman er að sjá hversu mikil viðbrögð þátturinn hefur fengið á hinum ýmsu miðlum, eins og Facebook. Mikið af viðbröðgunum tengjast “heimamönnum” og fólki sem hefur tengsl við þá.

En, við sem komum í Fljót, fengum líka að sjá, hversu miklu skiptir fyrir ferðamenn að hitta á gott veður og gott skyggni. Sumir ganga um Hornstrandir og sjá aldrei annað en sól – og þá er lífið dásamlegt. Svo er það hin hliðin, – þoka og kalsaveður og þá er ekki alveg eins gaman að ganga þarna um.

Mörg orðatiltæki sem tengjast veðri hafa orðið til í Fljóti. Lognhraði, sem dæmi. Annað er ” alltaf sól í Tungu”. Grófdropa þoka – ef maður vill ekki kannast við rigningu. Heiðskírt – ef sést í bláan díl á himni. Tengdamóðir ritsjóra hefur sem reglu að ekki megi taka af henni mynd ef úlpan er rennd – hún vill alltaf renna niður áður. Allt vísar þetta í sömu átt …… við viljum vinna á móti þeim orðrómi að þarna sé ekki alltaf gott veður.

Þessi heimasíða hefur það að markmiði að safna upplýsingum og sögum sem tengjast Fljóti, og því var gaman að heyra sagðar sögur, sem að einhverju leiti hafa verið skráðar og finnast hér á vefnum.

Í því sambandi skal rifja eftirfarandi upp:

Gönguleiðarlýsingar

Að öðrum ólöstuðum, hefur þessi heimasíða ekki fengið meira aðsent efni frá neinum en frá Gunnari Þórðarsyni. Gunnar er barnabarn Júlíusar Geirmundssonar og Guðrúnar Jónsdóttur. 

Gönguleiðarlýsingar Gunnars eru ítarlegar og skreyttar skemmtilegum og fróðlegum sögum, auk þess sem mikið af örnefnum koma fram í þeim. 

Í  dag skal bent á lýsingu Gunnars á svæðinu frá Bæjarnesi og að Grundarenda, þ.e.a.s því sumarbústaðasvæði þar sem flestir bústaðir Fljóts eru.

Ásgeir 

 

Bæklingur KGJ um skip sem hafa borið nafn Júlíusar Geirmundssonar

Kristján G Jóhannsson, sonarsonur Júlíusar Geirmundssonar og Guðrúnar Jónsdóttur sem bjuggu um 40 ára skeið á Atlastöðum í Fljóti, gaf nýlega út bækling um þau fjögur skip sem borið hafa nafn afa hans.

Bæklinginn gefur Kristján út í tilefni þess að 2. mars 2017 voru rétt 50 ár liðin frá því að fyrsta skipið sem bar nafnið “Júlíus Geirmundsson” kom til Ísafjarðar.  Um þetta er einnig fjallað í frétt á féttavef Bæjarins Besta á Ísafirði, og fer vel á því að fyrir fréttinni er skrifaður annar afkomandi Júlíusar og Guðrúnar. 

Öll þessi fjögur skip hafa verið smíðuð sem nýsmíði fyrir útgerðina Gunnvöru.

Nafn fyrirtækisins er dregið af  samnefndum báti sem strandaði í Fljótavík árið 1949.  Kristján hefur einnig skrifað þá sögu hér á síðunni.

Búið er að tengja þennan nýja bækling neðst inn í þá síðu þar sem æviferill Júlíusar og Guðrúnar er reifaður hér á síðunni. 

EnglishUSA