Hreppaflutningar frá Tungu í Fljóti yfir í Grunnavík

Takk fyrir síðast 

Fyrst langar mig að þakka kærlega fyrir síðast – í þeirri meiningu að það voru óvenju mörg innlit á síðuna eftir að myndirnar sem Eddi í Tungu sendi síðunni voru birtar.  Síðunni var líka deilt óvenju oft og mörg “Like”. Allt hjálpar þetta við að deila boðskapnum….. “ Fljótavík hún rokkar” . En snúum okkur þá að texta dagsins……: 

Fellistikan “Fólk” 

Ein þeirra fellistika sem eru á heimasíðunni heitir “Fólk“. Þar er ég smám saman að bæta inn umfjöllun – jú einmitt – um fólk sem hefur búið eða á einhvern hátt tengst Fljóti.   🙂 

Hvað þarf að hafa búið lengi í Fljóti til að teljast vera þaðan?

Ég hef svo sem ekki myndað mér neina fastmótaða skoðun
á því hvað fólk þarf að hafa búið lengi í víkinni til þess að komast með á þennan fellistikulista. En hér ætla ég að benda á skrif um mann sem aðeins bjó í tæpt ár í Tungu.

 

Hreppaflutningar 

 continue

Ljósmynd af hluta af blaðsíðu 12 í MA lokaverkefni Katrínar Guðnýjar Alfreðsdóttur við félagsvísindasvið Háskóla Íslands í júní 2012.

 Ljósmynd af hluta af blaðsíðu 12 í MA lokaverkefni Katrínar Guðnýjar Alfreðsdóttur við félagsvísindasviðáskóla Íslands í júní 2012, (með leyfi höfundar). 

 

Jón Sigurðsson Hansson var fluttur á sleða frá Tungu yfir að Hesteyri, ásamt með fjölskyldu sinni, og þá var hann enn ekki orðinn eins árs. Nokkrar heimildir geta þess að um hafi verið að ræða síðustu hreppaflutninga landsins. Ég sel það svo sem ekki dýrara en ég keypti það, og það má reyndar finna skrif í nútímanum sem tala um að enn á þessum tímum megi finna hreppaflutninga.

Það voru erfiðir tímar 

Gísli Hjartarson skrifaði minningargrein um nefndan Jón Sigurðsson Hansson að honum gengnum. Gísli skráði á sínum tíma margar skemmtisögur í skruddur sem gefnar voru út og gerði góðlátlegt grín að fleirum sem tengdust Fljótavík, þar á meðal Boggu Venna og Líndal sem var giftur Helgu Hansdóttur.

Þá skrifaði hann eina skemmtisögu um manninn sem hér ert til umfjöllunar, Jón Sigurðsson Hansson. Veljið þennan hlekk til að lesa …….. 

 

 

 

Föstdagspistill: 4.apríl 2014

Það vorar – eða í það minnsta – það hlýtur að fara að koma vor!  Fyrir tveimur árum held ég – var flogið í vinnuferð til Fljótavíkur í febrúarmánuði…. og þá var nú bara allt autt á jafnsléttu….. en nú er kominn apríl, og þó öldin sé sú sama og þá … ja – þá er öldin önnur – eða þannig!

Í þessari viku birti ég tvær síður – og nú eru það Vennarnir:

1)    Lífsferill Vernharðs Jósefssonar og Maríu Friðriksdóttur á internetinu. Vernharð fæddist að Atlastöðum, og bjó sem bóndi bæði í Tungu og Skjaldabreiðu í Fljótavík, auk þess að vinna á uppvaxtarárum sínum á Atlastöðum.

2)     Birti bréf Vernharðs til Sölva Betúelssonar þar sem hann fór fram á að leigja hálfa Tungu til heyskapar.  Bréfið lætur lítið yfir sér, en eins og þeir sem þekktu til Vernharðs vita, þá bjó hann sem bóndi í raun allt sitt æviskeið því hann hélt skepnur í Hnífsdal alla tíð, og lagði mikla áherslu á að gera það vel.

Föstudagspistill 28.mars 2014 >

Skoðið:    Fólk > Jósep Hermannsson og Margrét Katrín Guðnadóttir. Þarna má sjá að það hefur ekki alltaf verið logn og blíða:  Jósep lendir í snarvitlausu veðri og bátur sem hann var á brotnar við Bolungarvík eftir að hafa harkist yfir Djúið. Þá lendir Jósep í snjóflóði ásamt mörgum öðrum.

Þá má nú sjá afsalsbréfið fyrir kaupum Júlíusar og Jóseps á Atlastaðalandi árið 1906, skoðið flipann “Landeigendur”

Föstudagspistill 21.mars 2014

Í vikunni sem er að líða var ég að skoða lífshlaup Geirmundar Júlíussonar og Guðmundu Regínu Sigurðardóttur á internetinu.  Skoðið: Fólk > Geirmundur Júlíusson og Guðmunda Regína Sigurðardóttir – eða einfaldara – skoðið þetta.  Vinsamlega sendið upplýsingar um það sem mætti bæta við.

Í tengslum við undirbúning ættarmóts á árinu 1996, bað Geirmundur Júlíusson Snorra Grímsson um að koma til sín og skrifa frásögn, sem hann vildi að lesin yrði á niðjamóti þá um sumarið. Frásögnin var áður birt á gömlu útgáfunni af heimasíðunni  – með góðfúslegu leyfi Snorra. Frásögnin er um það þegar farið var frá Atlastöðum til Rekavíkur bak Höfn til að sækja bát og honum svo róið í Fljót.

Eftir að Snorri hafði skráð söguna kom hann með þetta frá eigin brjósti:  Þess má geta til gamans og fróðleiks, að leiðin, sem þeir félagar fóru gangandi og á skíðum á tæpum 5 klukkutímum, er rúmir 25 km og ferðamenn fara hana gjarnan fótgangandi á sumrin sem tvær dagleiðir. Er þá leiðin úr Fljóti að Búðum í Hlöðuvík farin á 8 – 10 tímum, en þaðan til Rekavíkur á 3 – 6 tímum. (Þá eru menn að vísu að skoða landið, en ekki að flýta sér um slóðir sem þeir gjörþekkja.) Auk þess þarf á fyrri hluta leiðarinnar að fara tvívegis upp í um 400 m hæð og lækka sig um rúma 100 m í millitíðinni, en Skálakambur og Atlaskarð eru um 300 m há en dalbotninn neðan Atlaskarðs, Hælavíkurmegin, rúmum 100 m lægri. Sjóleiðin er ámóta löng, eða nálægt 15 sjómílum. Hraði þeirra hefur því verið rúmir 5 km á klst á landi, sem telst góður gönguhraði á nær sléttu landi, hvað þá svo bröttu og mishæðóttu sem hér um ræðir. Hraðinn á sjó hefur verið um 2½ sjóm. á klst. í róðri.

 

 

 

 

EnglishUSA