Bárubær – foktjón

Aðfaranótt 28.desember 2014 skrifaði Vernharð Guðnason stutt skilaboð inn á Fljótavík á FB þar sem hann lætur vita um töluvert foktjón á sumarhúsinu Bárubæ, sem er í byggingu. Hann skrifar um endalausa óveðurshvelli sem keyrt hafa yfir með gríðarlegum vindstyrk, með þessum afleiðingum.

Bárubær, Fljótavík
Bárubær, Fljótavík, ágústlok 2014

Þetta eru hræðilegar fréttir, sem vekja margar spurningar. Það hlýtur að vera þannig að einhverjir hafi gert sér ferð til Fljótavíkur til að skoða hvort allt væri nú í lagi, og svona í fyrstu atrennu komu í mínum huga upp spurningar eins og:

  • Hverjir fóru í land – og hvenær?     Seinna sama dag upplýstist að það var flogið yfir svæðið og þetta sást úr lofti. (áá)
  • Hvað er fokið?
  • Er grind hússins heil?
  • Er hætta á að brak fjúki á önnur hús?
  • Var kíkt á hin húsin í hinu forna Atlastaðalandi?

Það hlýtur að gefa auga leið, svona í huga leikmanns, að um leið og húsið opnast og vindur kemst inn, veikist allt húsið til mikilla muna og verður eins og segl í vindi – grípur allan vind og springur væntanlega út annars staðar.

Vernharð, í krafti sinnar menntunar, reynslu og starfa, hefur strax þessa nótt farið að skoða möguleika á að koma vinnuflokki til Fljótavíkur um leið veðurútlit gefur tilefni til að halda að hægt verði að fara í tveggja daga björgunarferð, með gistingu í eina nótt í Lækjabrekku.

Þannig standa málin við fyrstu birtinu þessa pósts.  Notið endilega athugasemdakerfið hér fyrir neðan, til að koma með frekari upplýsingar og/eða umræðu.

Seinna:    Myndir frá flugi yfir Fljótavík

8 Replies to “Bárubær – foktjón”

  1. Veit einhver hvenær síðast var litið á sumarbústaðina í Fljótavík – áður en þetta fok uppgötvaðist ? Ég tel mig vita að TF-VIK hafi farið að minnsta kosti eina ferð í Atlastaðaland eftir að sumarbústaðir þeim megin urðu mannlausir í haust. Er líklegt að þetta fok hafi gerst nú á síðustu dögum – eða gæti þetta hafa gerst fyrir 1-3 mánuðum síðan?

    1. Var að tala við Örn, en hann flaug yfir í gær (27.des). Það eru skemmdir á mæni á Bárubæ og hliðargrindur á verönd í Atlatungu hafa fokið af (að sögn a.m.k. 2 stk.). Þetta hefur líklega gerst í hvellinum mikla fyrr í desember, enda var vindur úti af annesjum meiri en sést hefur í áratugi. Sá strengur gekk nefnilega inn á Vestfjarðakjálkann.
      Bárubær er ófrágenginn að innan og helst að skemmdir gætu orðið á tækjum og efnivið sem kann að vera geymt í húsinu. Efri hæðin ætti a.m.k. að vera afskaplega vatnsþolin, og vonandi ekkert viðkvæmt í geymslu þar (t.d. panel-klæðning).
      Í Atlatungu hefur eitthvað lauslegt og létt fokið undan veröndinni, en væntanlega eru ekki skemmdir á sjálfu húsinu.
      Örn er að bauka við að velja og minnka viðeigandi myndir og gera þær sendingarhæfar (þær eru mjög stórar í fullri upplausn). Þær berast væntanlega til okkar með tölvupósti í dag.

      Kv.
      Halli

  2. Það eru því miður töluverðar skemmdir á Bárubæ sem komu í ljós eftir að Sævar og Örn fóru í gær á TF-VIK í könnunarflug yfir húsin í Fljótavík. Halli fór vel yfir veðurlætin sem hafa dunið yfir í haust og mesta veðrið var í desember.
    Þakið náði 2 metra framyfir húsið og er það alveg farið. Þá hefur klæðning og járn farið af 2 til 3 metra inn á þakið á húsinu sjálfu og er opið þar inn á nokkuð stóru svæði. Þannig ástand er mjög hættulegt ef við fáum annað óveður.
    Þetta er líka áhyggjuefni vegna braks sem gæti fokið á önnur hús.
    Það er byrjað að undirbúa ferð í Fljót til að loka húsinu og koma í veg fyrir frekara tjón en orðið er.

  3. Myndirnar sem Örn sendi mér eru komnar inn á http://www.fljotavik.is – 8 stk. Aðeins ein þeirra sýnir Bárubæ – minnir mig. En Halldóra Þórðar er með margar myndir af Bárubæ á Facebooksíðu sinni – þið sem eruð vinir hennar á Facebookk ættuð að kíkja á það – svo fæ ég vonandi leyfi hennar til að bæta myndunum inn hér.

  4. Sæll Ásgeir, þér er velkomið að fá myndir af síðunni minni. Nú er verið að plana ferð norður á föstudaginn. Líklega farið á Hesteyri með nokkra snjósleða og brunað yfir í Fljót. Nú kemur stóri hvíti báturinn sem Maggi Helga og Sævar smíðuðu sér vel til að ferja sleðana. Vonandi verður veðrið svo til friðs.
    kveðja
    Dóra

  5. Takk fyrir Halldóra. Ég sé til hvort ég komist upp á lag með að afrita myndirnar af síðunni þinni…… annars verð ég að fá hjálp frá einhverjum – eða að fá myndirnar með Email

  6. Jæja – það hlauta að fara svo að fréttin um foktjónið kæmi fram í http://www.bb.is – en mér er alveg fyrirmunað að skilja hvernig nafninu BáruBÆR var snúið yfir í BáruKOT. Ég fæ ekki betur séð en að þessi góða mynd sem þarna fylgir fréttinni…. (já ég er hlutdrægur hvað gæði myndarinnar varðar) sýni hversu stórt húsið er og þarna verður nú ekki í kot vísað!

    http://bb.is/Pages/26?NewsID=191997

Comments are closed.

EnglishUSA